05.03.1927
Neðri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (2416)

61. mál, mat á heyi

Pjetur Ottesen:

Jeg er hv. flm. sammála um, að það geti verið allmikil trygging í því fólgin, að koma á mati á heyi, eins og á aðrar framleiðsluvörur. En jeg býst við, að það verði ef til vill meiri erfiðleikum bundið að koma við mati á heyi en mörgum öðrum vörum. Það gerir hinn mikli munur á heygæðum.

Það, sem jeg vildi benda á, er einkum það, að landbn. taki til athugunar, að framkvæmdir á heymati eru miðaðar við sjerstakar ástæður, sem sje þær, að heyið sje metið á þeim stað, sem það er flutt frá. En nú hagar þannig til, t. d. hjer í kringum Reykjavík, þar sem mest er heysalan, að matið verður að fara fram á sölustaðnum, það er, Reykjavík. Það er svo hjer í kring, að heyið er tekið af teignum og látið í báta og verður oft að vinda bráðan bug að því, þar sem sæta verður góðu sjóveðri o. s. frv. Undir slíkum kringumstæðum er óhugsandi að koma við mati á þeim stað, sem heyið er flutt frá, enda svo ráð fyrir gert í frv., að mat fari því aðeins fram, að kaupandinn krefjist þess, en um það er ekkert hægt að vita, fyr en heyið er komið á sölustaðinn. Matið verður að fara fram á sölustaðnum, en til þess að það geti orðið, þarf líklega að breyta orðalagi 2. gr. þannig, að miðað sje við þessa staðhætti. Þetta vona jeg, að hv. nefnd athugi.