10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (2427)

61. mál, mat á heyi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er komið frá Nd., og var flutt þar af hv. 2. þm. Skagf. (JS). Nú hefir landbn. þessarar deildar haft málið til meðferðar, og leggur meiri hl. hennar til, að það sje samþ. en einn nefndarmaður er því mótfallinn og hefir skrifað undir nál. með fyrirvara.

Aðalástæðan til þess, að frv. er fram komið, mun vera sú, að nú er með lögum bannaður innflutningur á heyi, a. m. k. frá Noregi og Danmörku. Það liggur í augum uppi, að slíkt innflutningsbann á heyi hlýtur að valda nokkrum breytingum á markaði fyrir innlent hey, þar sem á síðustu árum hafa verið fluttir inn tugir smálesta af útlendu heyi; hlýtur því markaður fyrir innlent hey stórum að aukast, vegna innflutningsbannsins. Það er nokkuð síðan, að fyrst kom fram á Alþingi frv. um að banna innflutning á útlendu heyi. Það mætti þá strax mótspyrnu og náði ekki fram að ganga, og síðar fór á sömu leið. En vegna ráðstafana, sem nauðsynlegt þótti að gera til þess að gin- og klaufaveiki bærist ekki til landsins, var stjórninni gefin heimild til þess að banna innflutning á heyi, og þá heimild hefir hún nú notað. Menn virðast hafa sætt sig við þessa ráðstöfun, af því að hún var gerð af knýjandi nauðsyn. En þó þessu hafi verið vel tekið, verður að gæta þess, að þetta innflutningsbann er töluvert áhrifaríkt, þar sem vitanlegt er, að fjöldi gripa í kaupstöðum og kauptúnum hefir verið fóðraður á útlendu heyi. Innflutningsbannið ætti að hafa tvennskonar afleiðingar: aukna jarðrækt í nánd við kaupstaði og kauptún og meiri notkun innlends heys í stað hins útlenda. Jeg geri ekki ráð fyrir, að framfarir í jarðrækt verði svo hraðstígar, að hjá því verði komist, að kaupstaðirnir verði að kaupa töluvert af heyi; má því gera ráð fyrir, að sala á heyi innanlands verði meiri nú fyrst um sinn en hún hefir verið að undanförnu. Sala þessi fer fram á þann hátt, að þeir, sem heyið kaupa, fá það oft langt að, geta þeir því ekki sjeð það, og verða þar af leiðandi að fara eftir sögusögn annara. Þess vegna er það, að flm. frv. þessa o. fl. hafa komist að þeirri niðurstöðu, að óumflýjanlegt verði að láta fara fram mat á þessari vöru, til þess fyrst og fremst að tryggja kaupandanum það, að hann fái góða vöru, og í öðru lagi til þess að tryggja seljandann fyrir því, að fundið verði að vöru hans að ástæðulausu. Menn mega því alls ekki líta svo á, að hjer sje um einskisvert mál að ræða, og það því síður sem innflutningsbannið á erlenda heyinu hlýtur að hafa það í för með sjer, að hjer komi upp ekki svo lítil tekjugrein af verslun með innlent hey. Þess vegna lítur meiri hl. landbn. svo á, að frv. þetta eigi fram að ganga.

Eitt af því, sem okkur Íslendingum hefir einna mest farið fram í nú á síðustu árum, er vöruvöndun. Má því fullyrða, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið af því opinbera í þá átt, hafi orðið til blessunar fyrir þjóðina í heild sinni. Varan, sem út hefir verið flutt, hefir stórum hækkað í verði og áliti. Og þó hjer sje ekki um að ræða nema innanlands sölu, þá er engu síður þörf, að varan sje vönduð.

Hvað snertir kostnaðinn af þessu heymati, skal jeg taka það fram, að hann hlýtur að verða lítill, og yfirleitt held jeg, að það verði mjög vandræðalítið að framkvæma þessi lög, því að í hverri sveit eru margir menn, sem mat þetta geta leyst af hendi, því að mikið vantar á, að það verði eins margbrotið eins og t. d. fiskimatið, og yfir höfuð að tala finn jeg ekki margar ástæður, sem með sanngirni er hægt að færa á móti því. Að vísu hefi jeg heyrt því haldið fram, að það væri með öllu óþarft, en því verður ekki haldið fram með rökum, enda hefi jeg áður bent á hið gagnstæða.