10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

61. mál, mat á heyi

Einar Árnason:

* Jeg held, að það sje þýðingarlítið, að deila mikið lengur um þetta mál. Það vilja fáir á okkur hlusta, og þess vegna er ekki við því að búast, að við getum sannfært marga.

Hv. frsm. meiri hl. (IP) talaði mikið um efnafræðislega rannsókn á heyi. Á hana hafði jeg ekki minst, og jeg hefi eigi heldur haldið því fram, að ekki sje völ á hæfum mönnum til þess að meta hey. Það var því óþarfi fyrir hv. þm. að beina ásökunum um það til mín. Hitt er annað mál, hvort frv. veiti nokkra þá trygingu, sem ætlast er til. Fyrst og fremst er á því sá galli, sem jeg hefi áður bent á og hv. frsm. gat ekki mótmælt að væri á frv., að það er engin trygging fyrir því, að matsmenn verði skipaðir neinsstaðar. En það er þó fyrsta skilyrðið fyrir því, að lögin geti náð tilgangi sínum.

Hv. frsm. bar saman mat á fiski og heyi. En það er ekki sambærilegt. Það er miklu ljettara að meta fisk heldur en hey, eða hyggur hv. frsm., að fáir matsmenn gæti metið fiskinn, ef hann væri upp um allar sveitir? Nei, fiskurinn er metinn á fáum stöðum, en í hreppum er selt hey á fjölda mörgum bæjum samtímis, eða eftir því, hvernig þurkun hagar. Sama máli er að gegna á veturna, að þá er hey selt og flutt víða, þegar góð er færð og veður. Annars er ekki hægt að flytja það. Um fiskinn er alt öðru máli að gegna.

Þá lagði hv. frsm. enn mikið upp úr því, hve mikil trygging það væri fyrir kaupendur, ef mat kæmist á. En hann gleymir aðalatriðinu í málinu, því, sem öllu ræður um kaup og sölu á heyi, en það er framboð og eftirspurn. Ef þurð er á heyi og harðindi ganga, þá þýðir ekki að tala um mat. Menn verða að kaupa það hey, sem þeir geta fengið, án tillits til þess, hvort það er gott eða ljelegt. Enginn matsmaður getur hjálpað, þegar svo stendur á, en þá þyrfti þó helst á hjálp þeirra að halda. Þegar næg eru hey, vilja fáir kaupa, og þá er ekki þörf matsmanna, því að kaupendur geta altaf haft mann fyrir sig til að velja heyið, ef þeir eru ekki sjálfir viðstaddir. Það er að öllu leyti betra, og samkomulag um verslunina verður líka betra með því móti.

Hv. frsm. sagði, að það væri engin hætta á, að hey hækkaði í verði við matið. þessu slær hann fram alveg órökstuddu. Jeg skil ekki annað en að það komi niður á heyverðinu, öðrum hvorum, seljanda eða kaupanda, til tjóns, að þarna kemur nýr milliliður, sem stingur í sinn vasa nokkru af heyverðinu.

Jeg held að það sje óhætt að láta heysölumálið afskiftalaust af hálfu löggjafarvaldsins, enda þótt aðflutningsbann komi á erlent hey, því að jeg fæ ekki sjeð, að það breyti neinu í þessu efni. Heyið, sem selt er innanlands, er jafngott eða jafnilt fyrir því.

Skal jeg svo ekki orðlengja meira um þetta.

*Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.