10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

61. mál, mat á heyi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það er ekki margt í síðustu ræðu hv. 1. þm. Eyf., sem jeg þarf að svara, en þó vil jeg drepa á nokkur atriði. Hann sagði, að það væri engin trygging fyrir því, að neinir heymatsmenn yrðu skipaðir, þó frv. yrði að lögum. Jeg er ekki hræddur um það. Undir eins og lögin ganga í gildi, verður þess krafist af báðum málsaðilum, að skipaðir verði heymatsmenn. Það er ekki nema vindhögg, að telja það galla á frv., þótt ekki verði skipaðir matsmenn í öllum hreppum, En jeg veit ekki hvað hv. andmælendur frv. óttast, ef svo skyldi fara sem þeir segja, að enginn matsmaður verði skipaður, því þá verður kostnaðurinn enginn. Nei, þeir vita það, að ef lögin verða sett, þá koma matsmenn í hverjum stað, þar sem hey er selt.

Hv. þm. sagði það væri ólíku saman að jafna, mati á heyi og fiski. Það er alveg rjett, en hann fór aðeins öfuga leið til að rökstyðja það. Hann sagði, að það væri miklu ljettara og auðveldara verk að meta fisk. Já, margt má nú heimskum segja. Jeg þekki vel til fiskimats, og ef hv. þm. (EA) ætlast til þess, að hver baggi af heyi sje jafnvandlega metinn og hvert skippund af Labrador fiski, þá entist varla mannsæfin til þess. Jeg skýrði það í fáum dráttum áðan, hvernig ætlast væri til, að matið væri framkvæmt. Það er enginn vandi að segja, hvað er úthey og hvað er taða, hvort það er taða af túni í góðri rækt eða ljelegri, hvort heyið hefir verið þurkað á 3 dögum eða 3 vikum, hvort úthey er kúahey, kindahey eða hestahey, og hvernig það er verkað. Þetta er nú aðalvandinn. Allir, sem vilja sýna nokkra sanngirni, hljóta að sjá, að þetta er mjög auðvelt og fljótlegt verk, og fyrir kaupendur er það mikils um vert, að fá vottorð trúverðugra manna um heygæðin. Kaupendum er það engin trygging, þótt seljandinn segi, að heyið sje taða, því að hún getur reynst marghrakin og illa verkuð. Það hefir margsinnis komið fyrir, að Reykvíkingar hafa þannig keypt köttinn í sekknum. En þetta gæti ekki komið fyrir, ef heyið væri metið.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það, sem rjeði um heyverslunina, væri framboð og eftirspurn. Jeg fæ ekki skilið, að það ráði öðru en verðinu á heyinu. Það getur ekki ráðið gæðunum. Þegar lítið er um hey, hækkar það í verði, og er það ekki nema eðlilegt. En hjer er alls ekki verið að ræða um heyverð, heldur heygæði. Og kaupendum er ekki síður þörf á því, að fá gott hey, þegar það er dýrt, eða hafa tryggingu fyrir, að þeir verði ekki sviknir á því. Það kom líka fram hjá hv. þm. (EÁ), að í harðindum og heyleysi yrðu menn að kaupa hvað sem völ væri á. Þótt stundum sje lítið um hey sumstaðar, þá er nóg af því á öðrum stöðum, sem betur fer, og ekki alstaðar slæmt.

Þá sagði hv. þm., að betra væri að láta alt sitja við það sama, því að samkomulagið yrði þá betra, ef enginn milliliður væri. En jeg á bágt með að trúa, að það geti valdið neinum misskilningi eða misklíð, að heyinu fylgi vottorð um, að það sje af góðu túni og vel þurt o. s. frv. Jeg sje ekki betur en að hvernig sem málinu er velt fyrir sjer, þá sje matið altaf trygging. Það er viðurkend regla um allan heim, og það þýðir ekki að koma hjer fram með staðhæfingar til að kollvarpa þeirri reglu. En hitt gæti jeg miklu betur skilið, ef einhverjir kæmu fram sem talsmenn þeirra, sem selja hey, og teldu sig, ef mati væri komið á, ekki geta komið út ljelegu heyi sem góðri vöru. Það er einmitt það, sem matið á að fyrirbyggja, að menn geti selt slæma vöru fyrir góða. Eins og bent hefir verið á, er hjer fyrir hendi möguleiki til þess fyrir landbúnaðinn, að auka afurðir sínar, og það er mjög mikilsvert atriði fyrir seljendur heysins, að ekki sje vefengt, að heyið sje gott og trygging fyrir því, að kaupin geti farið fram, þó að kaupandi sje fjarstaddur.

Annars get jeg tekið undir það með hv. 1. þm. Eyf., að ástæðulaust sje að deila um þetta mál hjer. Málið er mjög ljóst og horfir þannig við, að ef það gengur ekki fram, þá álít jeg, að mjög sje teflt í tvísýnu öryggi þeirra, sem hey þurfa að kaupa, og auk þess gert miklu erfiðara að banna innflutning á útlendu heyi. Það er töluvert atriði í þessu máli, að með því að fella þetta frv. er aftur opnuð leið kröfunum um það, að leyft verði að flytja inn hey.

Jeg lít svo á, að við eigum að keppa að því, að vera sjálfum okkur nógir, og við getum það í þessu efni, ef það er ekki eyðilagt með þarflausum hjegóma. Og jeg tel það þarflausan hjegóma, að leggja á móti þessu frv.