12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Afgreiðsla máls þessa hefir nokkuð dregist hjá sjútvn., og hefir nefndin klofnað um það. Meiri hl. hefir orðið ásáttur um að mæla með því, að frv. verði samþ., tveir þó með fyrirvara. Minni hl. er mótfallinn frv., eins og sjest af nál. Sú breyting, sem frv. fer fram á, er að lögskipa minstan hvíldartíma háseta 8 stundir í sólarhring í stað 6 stunda, eins og nú er, samkvæmt gildandi lögum. Er þessi breyting borin fram samkvæmt ósk togarahásetanna sjálfra.

Það hefir eigi all-lítið verið talað hjer á þingi um hina íslensku bændamenningu og hversu mikils virði hún sje fyrir þjóðina. Með miklu meiri rjetti má segja, að viðgangur þjóðarinnar sje útgerðinni að þakka, og hafi verið það á undanförnum öldum, eins og sagan sýnir. Jafnvel einokunarkaupmennirnir vildu ekki taka að sjer landbúnaðarhafnirnar til verslunar, nema fiskihafnir fylgdu, og í eldgosum og harðindum flykktist fólkið úr sveitunum til hins mikla nægtabrunns, sjávarins, sem fleytti fram lífi þess, og þjóðin útvegaði sjer lífsþæginda erlendis frá með sölu skreiðar. En þeir, sem bera útgerðina uppi, eru sjómennirnir, og þeir, sem erfiðasta vinnuna hafa haft, eru hásetarnir á togurunum. Á þeim hefir því mest hvílt þunginn af framförum þjóðarinnar. Löggjafinn hefir fundið það, að hvíldartími háseta á togurunum var of lítill, og þess vegna urðu til lögin frá 1921, um 6 stunda hvíldartíma háseta. En enda þótt þessi lög hafi komið að talsverðu gagni, bæði fyrir sjómennina og útgerðarmenn, þá eru þau samt sem áður ónóg. Þess vegna hafa nú komið fram óskir frá hásetum um nýja löggjöf um þetta, er ákveði 8 stunda hvíldartíma í sólarhring minstan.

Menn skyldu halda, að málaleitun sem þessi mætti ekki andúð manna, en svo er það þó. Bæði hjer á Alþingi og utan þess er flokkur manna, sem berst á móti þessari sjálfsögðu bót á kjörum stjettar, sem erfiðasta vinnu hefir allra stjetta landsins, sjómannasjettarinnar. En andstaðan virðist helst koma frá útgerðarmönnum, sem þó hafa mestan hag af vinnu hásetanna. Það er víst, að það er ekkert frv., sem komið hefir fram hjer á þingi, sem sjómenn hafa eins mikinn og almennan áhuga fyrir, enda getur þessi aukning hvíldarinnar munað þá miklu. Nú, eins og hvíldartíminn er, endast menn stutt á skipunum, en ef hvíldartíminn er hæfilega langur, þá er enginn vafi á því, að menn geta haldið lengur áfram við atvinnu sína á skipunum, og það án þess að slíta sjer út. — Þó að mikil eftirspurn sje eftir skiprúmi, þá er það eingöngu vegna þess, að tímarnir eru svo örðugir, að ilt er, eða jafnvel ómögulegt, að fá fasta vinnu í landi. Og jeg veit það frá sjómönnunum sjálfum, að flestir þeirra mundu ganga af togurunum, ef þeir ættu nokkurn kost fastrar vinnu í landi.

Jeg er viss um það, að engin þjóð í heimi á stjett manna, er leggur fram eins mikla vinnu og sjómannastjettin íslenska, og væri því ekki nema sjálfsagt, að útgerðarmenn ynnu henni þessarar hæfilegu og nauðsynlegu hvíldar daglega.

Hv. minni hl. hefir komið með þá mótbáru gegn frv., að útgerðin standi nú svo höllum fæti, að hún þoli ekki þann byrðarauka, sem þessi aukning hvíldartímans mundi verða. En ef dæma má eftir reynslunni frá 1921, þá jukust afköst sjómanna við þá hvíld, sem þeir fengu þá, og því má búast við því, að þau mundi aukast enn meir nú, ef 8 stunda hvíldin yrði lögleidd. Eru allar líkur til þess, að útgerðin mundi græða á þessari breytingu. En þó svo færi, að menn legðu ekki fram meiri vinnu en nú, þrátt fyrir þessa auknu hvíld, þá væri hægt að sjá með því að athuga tölu hásetanna á hverju skipi, hve mörgum mönnum það þyrfti að bæta við sig. Mundi það verða ýmist 1 eða 2 menn á skip. Er það ekki mikið fyrir útgerð, sem veltir hálfri miljón króna minst á ári. Hver útgerðarmaður ætti með gleði að ganga inn á þetta.

Þá telur hv. minni hl., að vegna þess, hve höllum fæti útgerðin stendur, þá mundi þetta verða til þess, að kaupgjaldið hlyti að lækka. Um það á Alþingi ekki að fjalla. Það verður altaf samkomulagsatriði milli útgerðarmanna og sjómanna, og ber því ekki að taka tillit til þessarar mótbáru hjer.

Þá hefir og hv. minni hl. haldið því fram, að sjómennirnir þörfnuðust ekki þessarar aukningar hvíldartímans. En jeg veit ekki, hvað betur ætti að sýna þörfina, en einmitt óskir sjómannanna sjálfra og umsögn lækna um togaravinnu hásetanna, jafnvel eftir 1921. Þeim kemur öllum saman um það, að hún sje hættulegri og erfiðari en önnur vinna og sjerstaklega hætt við að hún orsaki ýmsa illkynjaða og þráláta sjúkdóma, svo sem taugagigt o. fl.

Það má vel vera, að hv. minni hl. finnist það, sem jeg nú hefi sagt, fullyrðingar einar, en hann getur þó ekki ætlast til þess, að við, sem viljum framgang þessa máls, komum með heilan hóp útslitinna sjómanna hjer inn í hv. deild og sýnum þá.

Hv. minni hl. heldur því fram, að erfiðasta vinnan á togurunum sje aðeins 3 mánaða tíma, meðan þeir sjeu á saltfiskveiðum. En sá tími er venjulega 5 mánuðir, og það hefir komið fyrir, að þeir hafa stundað þá veiði alt árið. Svo var þetta 1924. En hvað sem þessu liður, þá vil jeg leyfa mjer að benda á það, að á ísfiskveiðunum eru líka miklar vökur og það nauðsynlegt, að tryggja sjómönnum einnig svefn þá.

Þá talar hv. minni hl. um það, að hásetar fái töluverða hvíld, þar sem þeir eigi frí meðan skipin sigli út og í höfn og meðan verið sje að afferma þau, og eins ef óveður sje. En þessu er því til að svara, að togararnir halda áfram að toga svo lengi sem ekki eru aftök. Og þó ætla mætti, að hásetarnir hefðu hvíld á meðan siglt er úr höfn og í, þá er það oftast svo, að ýmislegt þarf að gera, svo sem að gera að fiskinum eða dytta að netunum, sem oft fer töluverður tími í. Svefn er mjög lítill á þessum veiðitímum, og þegar þess er gætt, að af þessum 6 stundum, sem hásetum eru ætlaðar til hvíldar, þá fara 1–2 til þess að matast og til þvottar o. s. frv. Þá eru það í rauninni ekki nema 4 tímar, sem hásetarnir hafa til svefns. Munu flestir sammála um það, að þessi tími sje of stuttur fyrir menn, sem venjulega landvinnu stunda, hvað þá heldur þessa menn.

Þá heldur hv. minni hl. því fram, að veiðiferðirnar sjeu oft mjög stuttar á saltfiskveiðum. En það er ekki nema á aflabestu tímum, að togarar geti fylt sig á 5–6 dögum; venjulega tekur það minst 10–12 daga. En þá vinna hásetarnir jafnvel ekki skemur en 18 tíma. Sama er um ísfiskveiðarnar. Hv. minni hl. talar um, að togararnir geti fylt sig á 6 dögum, en venjulega tekur það 10–14 daga, og á þeim tíma verða hásetarnir að vinna jafnt og þjett 18 tíma í sólarhring.

Hv. minni hl. getur þess, að íslenskir sjómenn sjeu ekki þjakaðir að sjá; en þetta er ekki satt. Það er hægt að sjá hjer í hópum útslitna sjómenn, og venjan er sú, að þegar þessir menn eru orðnir útslitnir, þá eru þeir látnir víkja fyrir öðrum yngri og óslitnum mönnum og sendir á eyrina í Reykjavík.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta, en vona, að hv. deild taki frv. þessu vel og samþ. það, því sjómannastjettin íslenska á þessa bót kjara sinna margfaldlega skilið.