12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2452)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg veit ekki, hvernig hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hugsar sjer að láta ákveða kaupgjaldið með lögum. Það er vitanlega ekki hægt að neyða eina stjett manna, sem vinnur hjá einstökum atvinnurekendum, til að láta þingið skamta sjer kaupið úr hnefa, og illa mundu bændur taka því, ef löggjöfin ákvæði hámark tekna þeirra, eins og þjóðskipulagið er.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) talaði á víð og dreif um frv., og ljet eins og hann hefði mikla þekkingu á lífskjörum sjómanna. Jeg held nú samt, að fæstir hv. þm. hafi minni þekkingu á lífsskilyrðum sjómanna en einmitt hv. 2. þm. G.-K. Það er ekki nóg að eiga hluti í skipum, nje heldur að stjórna útgerðarfyrirtæki af skrifstofunni, til þess að þekkja hugarfar skipverja, aðbúð þeirra við vinnu og kjör. Þó að hv. þm. hafi stöku sinnum komið um borð í togara, þá er honum alveg ókunnugt um starfstilhögun þar. Um það atriðið hefir hann enga aðra vitneskju en þá, sem hann fær frá skipstjórunum, því að sjálfsagt er, að hann hefir ekki leitað um það álits sjómanna sjálfra. En mín vitneskja er beina leið frá sjómönnunum sjálfum. Jeg þekki mikinn fjölda þeirra, og þeir hafa skýrt mjer nákvæmlega frá starfi sínu og kjörum. Til dæmis heldur hv. þm„ að hann geti talið okkur trú um, að undir eins og mennirnir komi af vakt, gleypi þeir í sig matinn, hendist í rúmið og sofni, og þetta taki engan tíma. Jeg veit, að ef hv. þm. spyrði sjómenn að þessu, fengi hann alt annað svar.

Háttv. þm. (ÓTh) sagðist viðurkenna ágæti sjómannastjettarinnar, en hinsvegar tækju þeir meiri laun en aðrar vinnandi stjettir í landinu. Það hygg jeg að sje rangt, því að ekki geta það talist sæmileg laun, auk heldur há, að fá 2500 kr. fyrir slíka vinnu. Jeg veit ekki, hvar í landinu er hægt að finna menn, sem 2/3 hluta vinnutímans vinna 18 tíma á sólarhring. Svo mikið er víst, að ekki vinna útgerðarmenn 18 tíma á skrifstofu sinni.

Það er rjett hjá háttv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), að þetta ætti að vera sameiginlegt hagsmunamál allra þeirra, er að útgerðinni vinna. En það er þvert á móti. Eða vill hv. þm. taka það að sjer, að telja mönnum trú um, að sjómennirnir vilji heldur 6 tíma hvíld en 8 tíma hvíld? Þó að það væri kostnaðarsamara fyrir útgerðarmennina, sem ósannað er, þá ættu þeir, fyrst þetta er svona hagsmunamál beggja stjetta, að vilja vinna það til, þar sem sjómennirnir mundu þá vinna enn betur og vera ánægðari með kjör sín. En þegar vökulögin voru hjer til meðferðar 1921, komu fram þessar sömu ástæður á móti þeim sem nú. Útgerðin mundi ekki bera sig, o. s. frv. Hinsvegar játa jeg, að það var stærra spor í áttina til hins rjetta, að lögskipa 6 tíma hvíld, en nú, að fara hana upp í 8 tíma. Jeg veit, að þeir hv. þm., sem eru úr sveit, vita, að ekki eru þar algeng slík vinnubrögð, sem hjer er um að ræða, svo að ekki virðist ósanngjarnt að setja lög til varnar þessari áníðslu á sjómannastjettinni.