12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (2454)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það er hvorttveggja, að hv. frsm meiri hl. (HjV) hefir ekki fært sterk rök fyrir sínu máli, og að háttv. 3. þm. Reykv. (JÓl), sem er mjög kunnugur því, sem hjer er um að ræða, hefir gefið skýrar og ítarlegar upplýsingar, enda sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um málið.

Hv. frsm. meiri hl. (HjV) gat þess, eins og hann nú orðaði það, að sjer væri „næst skapi“ að halda, að jeg væri þekkingarsnauðari um hugi og hagi sjómanna heldur en nokkur annar þm. í þessari hv. deild. Jeg efast ekki um, að hv. þm. (HjV) sje „næst skapi“ að halda þetta, en jeg hygg það sje ekki margir þm. í deildinni, sem festa trúnað á þetta. Jeg væri ákaflega óbilgjarn, ef jeg hjeldi því fram, að jeg hefði meiri þekkingu á tóbaksverslun heldur en þessi hv. þm. (HjV), þó að hann hafi ekki unnið að tóbakssölu nema í 1–2 ár, en af þessu geta allir sjeð, hversu mikil óbilgirni það er, þegar hv. þm. (HjV) heldur því fram, að hann þekki betur til útgerðarmála en jeg, sem hefi unnið að þeim í 14 ár og er uppalinn við útgerð. En hjer þarf ekki að dæma eftir líkum, heldur eftir rökum. Hv. þm. (HjV) hafði varla slept orðinu, þegar hann hnaut aftur og aftur um þekkingarleysi sitt, hjelt t. d. að sjómenn bæru úr býtum 2–3000 krónur á ári. Þetta er rangt, því að þeir hafa miklu meira, nær 4 þúsund króna á ári, auk fæðis. Hásetar hafa nefnilega auk mánaðarkaupsins miklar aukatekjur. Nefni jeg einkum lifrarhlutinn, en það er aukaþóknun, er hásetar fá og miðast við ákveðna krónutölu fyrir hvert fat lifrar, er á land er flutt úr skipinu. Þessari upphæð er svo skift á milli skipstjóra, stýrimanns og háseta. Þetta hjelt jeg, að margir Reykvíkingar vissu, en jeg sje, að hv. þm. (HjV) er ekki kunnugt um þetta.

Þá gat hv. þm. (HjV) þess, að 18 tíma vinna fyrir sjómennina gilti fyrir 2/3 hluta ársins. Jeg veit ekki, hvort það er þörf á því vegna annara hv. deildarmanna að rekja það, hvernig þessum atvinnurekstri er háttað, en jeg tel ekki eftir mjer að gera það, ef jeg mætti með því gefa hv. fulltrúa Alþýðuflokksins hjer nauðsynlegar upplýsingar. Jeg vil þá fyrst henda á það, að vertíðin er ekki 5 mánuði ársins, heldur venjulega 3–4 mánuði af árinu; byrjar löngum seint í febrúar og hættir fyrstu dagana í júní. Árið 1924 var alger undantekning, vegna þess, að þá fundust ný fiskimið, og þá var verðlag hátt á fiski, einkum ódýrari tegundum, eins og ufsa, en ufsi veiddist þá mikið. Á vertíð er venjan sú, að skipin eru fylt á 10–12 dögum, en þessu verki er hægt að afkasta á 5–6 dögum, eins og hjer hefir verið upplýst, en þó njóta sjómennirnir minst 6 tíma hvíldar á dag. En úr því nú hægt er að vinna verkið á 5 til 6 dögum, án þess að skerða 6 tíma daglega hvíld sjómannanna, þá er hitt líka bert, að þegar sama verk er unnið á 10–12 dögum, hljóta sjómennirnir að njóta miklu meiri hvíldar að jafnaði en 6 tíma á sólarhring.

Að lokinni vertíð er skipið hreinsað, og fara til þess minst 1–2 mánuðir. Þá hefst síldveiðin, og þykir það þá gott, ef 6000 tunnur veiðast á skip, og jeg hygg, að jeg fari ekki rangt með, þó jeg segi, að sjómenn anni vel þeirri vinnu, sem er við að veiða 6000 tunnur, á 10 dögum, en til þess fara venjulega 1½–2 mánuðir. Af þessu er það líka bert, að sjómenn njóta miklu meiri hvíldar við síldveiðina heldur en 6 tíma á sólarhring að jafnaði.

Þegar síldveiðinni lýkur, taka við ísfiskveiðar. Það er upplýst, að þá er hægt að fylla skipið á 4 dögum, en það er líka upplýst, að þetta tekur venjulega 10–14 daga, og þegar þess er minst, að sjómenn njóta altaf minst 6 tíma hvíldar, þá er það líka ljóst, að þeir njóta að jafnaði miklu meiri hvíldar við þessa vinnu. Þá sigla skipin með afla sinn til erlendra hafna; sú ferð tekur venjulega 12–14 daga, og alla þá ferð njóta hásetar miklu lengri hvíldartíma. Það er miklu nær sanni, að þeir vinni þá 6 tíma, en hvílist hinn hluta sólarhringsins.

Nú vona jeg, að það sje öllum hv. þdm. ljóst, að það er dæmalaus fjarstæða, að leyfa sjer að segja það í votta viðurvist hjer á Alþingi, að 2/3 hluta ársins vinni þessir menn 18 tíma í sólarhring.

Hv. þm. (HjV) gat um það, að á þinginu 1921 hefðu verið færð nákvæmlega sömu rök gegn því, að lögfesta svefntímann, eins og nú gegn því, að lögfesta þennan svefnauka, því að þá hafi verið haldið fram, að útgerðin gæti ekki borið sig, ef þetta yrði samþykt. Jeg átti þá ekki sæti á Alþingi og var ekki hjer á landi, þegar þetta var til umr. Mjer er því ekki kunnugt um, hver rök hafa verið færð gegn lögfestingu hvíldartímans. En hafi þau rök verið borin fram þá, að útgerðin gæti ekki borið sig með þeim hvíldartíma, þá eru önnur rök borin fram nú, því að mjer hefir aldrei komið til hugar að halda því fram, að útgerðin gæti ekki borið sig fyrir því. Jeg veit ekkert um það. Það getur vel verið, að á næstu árum verðum við svo heppnir, að verðið á vörum okkar fari hækkandi, og þá getur útgerðin borið sig. Jeg hefi hinsvegar sagt, að á meðan útgerðin stendur svo höllum fæti sem nú er, og á meðan ekki er sannað, að sjómenn okkar þurfi þessarar hvíldar, þá vil jeg, að löggjafinn fari varlega í þessu efni, og jeg hefi ennfremur sagt, að jeg sje sannfærður um það, að ef hjer er um virkilega þörf að ræða, þá mundi reynslan og hyggindin færa okkur þá bestu meinabót í málinu, alveg eins og áður. Því að það er alkunnugt, að árið 1920 hafði einn hygnasti og besti aflamaðurinn tekið upp þá venju, að láta hásetana á skipi sínu fá 6 tíma hvíld í sólarhring, án þess að löggjafinn kæmi þar nærri. En einmitt þá, þegar reynslan var að sanna, að 6 tíma hvíldin var til hagsbóta, urðu forgöngumenn sjómanna hræddir um, að ef þetta yrði alment, án þeirra tilverknaðar, mundi það verða skoðað sem vottur skilnings á þörfum sjómanna af hendi útgerðarmanna, og þá mundi vegur útgerðarmanna hjá sjómönnum vaxa meira en góðu hófi gegndi. Og það er nú einu sinni svo, ef útgerðarmenn vilja eitthvað vel til sjómanna mæla, þá er eins og rýtingur sje rekinn í hjarta forgöngumanna sjómannanna. Jeg efast ekki um, að þessir menn vilji berjast fyrir hagsmunum sjómanna. En það vill nú samt svo undarlega til, að ef útgerðarmaður vill þetta eða hitt sjómönnunum til góðs, þá risa forgöngumennirnir óðara upp og slá á útrjetta hendina.

Jeg hygg jeg fari rjett með, er jeg tel, að einmitt ótti forgöngumannanna við að 6 tíma hvíldin næði festu án íhlutunar þeirra, hafi valdið afskiftum þeirra af málinu.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) gat um það, að hann hefði reynt að kynna sjer vilja sjómanna í þessu efni, og efast jeg ekki um, að þær upplýsingar, sem hv. þm. (JÓl) færði hv. deild, hafi í einu og öllu verið sannar og rjettar. Sjálfur hefi jeg ekki reynt að kynna mjer vilja sjómanna um þennan hvíldarauka, þó að jeg hinsvegar vilji segja hv 4. þm. Reykv. (HjV) það, að mína þekkingu um hag og huga sjómanna yfirleitt hefi jeg ekki fengið með því einu, að sitja á skrifstofustól mínum, heldur með samtali við skipstjóra, stýrimenn og háseta, og jeg efast um, hvor okkar á fleiri persónulega kunningja innan sjómannastjettarinnar. En þó jeg nú viti ekki til fulls vilja háseta í þessu máli, er jeg viss um, að ef þeir væru spurðir að því, hvort þeir vildu vinna það til 8 tíma hvíldar, að borga fyrir hvíldaraukann á þann hátt, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) benti á, mundu þeir kveða einróma nei við því.

Að lokum vil jeg benda þeim háttv. þm., sem kynnu að hafa ætlað sjer að greiða atkvæði með hvíldaraukanum, með þeim forsendum, er hv. 1. þm. S.-M, (SvÓ) gat um, á það, að þeir hljóta nú, eins og málið liggur fyrir, að greiða atkvæði á móti frv., nema því aðeins, að fram komi brtt., er tryggi það, að jöfnum höndum verði kaup sjómanna fært niður um 1/9 hluta, en slík lög eru gagnslaus, því jeg fullyrði hiklaust, að sjómenn muni vera með öllu ófáanlegir til þess.