12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (2456)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg kvaddi mjer ekki hljóðs vegna þess, að neitt það kæmi fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. (HjV), sem mjer þætti snerta málið sjálft, svo að svara þyrfti, heldur vegna hins, að hann vjek sjer að hv. 3. þm. Reykv. (Jól) með fúkyrðum, stóryrðum og fullyrðingum, sem við engin rök höfðu að styðjast, en slíkt er oft hlutskifti þeirra, sem komast í algert röksemdaþrot. Annars var það ekkert undarlegt, þó að hv. 4. þm. Reykv. (HjV) fari svona illa út úr viðureign um þessi mál við hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), þar sem hjá hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) fer saman þekking og reynsla á málinu, en hv. 4. þm. Reykv. (HjV) er málinu ókunnugur, en sækir það þó með kappi. Er honum því nokkur vorkunn, og vildi jeg, að háttv. þdm. dæmdu hann ekki of hart, en hefði hitt hugfast, að þótt fúkyrðin að vísu altaf lýti þann einn, er þau viðhefur, og ættu ekki að þolast á svo virðulegum stað sem þeim, er nú stöndum vjer á, þá fer þó þungi sakarinnar nokkuð eftir atvikum. þekkingarsnauðan áhuga hv. 4. þm. Reykv. (HjV) svíður undan árekstrinum á kalda kunnáttu háttv. 3. þm. Reykv. (JÓl). Þetta er í mínum augum hv. 4. þm. Reykv, (HjV) til afsökunar. Jeg leyfi mjer að vona, að háttv. þdm. líti eins á málið.