05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2465)

69. mál, hvalveiðar

Sveinn Ólafsson:

Jeg gæti að vísu látið mjer lynda það, sem hv. frsm. (SigurjJ) nefndi um sjerstöðu mína í þessu máli. Jeg hefi ekki einu sinni ritað undir nál. með fyrirvara, heldur aðeins áskilið mjer óbundið atkvæði. En það er ekki vegna þess, að jeg leggi nokkurn trúnað á þá hjátrú, sem hefir bólað á í ýmsum veiðistöðvum landsins, að hvalveiðar verði til þess að spilla fyrir fiskiveiðum og trufli síldargöngur, heldur stafar mín sjerstaða af því, að jeg veit, að þessar veiðar verða því aðeins teknar upp, að útlendir menn komi til sögunnar og leggi fram veiðitæki og kunnáttu. Engir innlendir menn kunna að þessum veiðum, og veiðitæki eru hjer engin til, en þau eru dýrari en svo, að fært sje að leggja fje í þau fyrir skammvinna veiði. Afleiðingarnar af þessari undanþágu frá hvalafriðun mundu því verða þær, að útlendir menn fengju hjer bólfestu og stunduðu veiðarnar. Fyrirtækin yrðu með öðrum orðum rekin með leppum, en á þeim hefi jeg litlar mætur.

Hinsvegar get jeg vel fallist á það, að ef innlendir menn hefðu föng á að stunda hvalveiðar, gætu þær verið arðvænlegar um stuttan tíma. Jeg mun því ekki beinlínis leggja á móti þessu frv., en sje hinsvegar ekki ástæðu til að veita því neinn frekari stuðning og legg ekkert kapp á að það gangi fram.