05.05.1927
Efri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

69. mál, hvalveiðar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Svo sem kunnugt er, var þetta frv. um hvalveiðar flutt í hv. Nd. árið 1925 og samþykt þar með miklum atkvæðamun, en þessi hv. deild vísaði því þá til stjórnarinnar. Nú hefir það verið flutt á ný í hv. Nd. og samþ. með yfirgnæfandi meiri hluta.

Afstaða sjútvn. þessarar deildar er svipuð nú og hún var 1925; meiri hl. hennar sjer ekki ástæðu til að vera á móti frv. Alveg sömu rök liggja til afstöðu nefndarinnar nú og l925 og nægir því raunar að vísa til þess, sem þá var sagt og skrifað af hennar hálfu. Minni hl. nefndarinnar er nú aftur á móti frv., og leggur til, að það sje felt.

Jeg fæ ekki sjeð, að síðan 1925 hafi komið neitt það fram, sem frekar mæli með að fella frv. nú en þá. Hinsvegar er ástandið í landinu nú þannig, að ekki sýnist ástæða til að leggja á móti fyrirtækjum, sem gætu orðið ríkissjóði til hagnaðar og mættu veita almenningi nokkra atvinnu. Að vísu má segja sem svo, að það yrði ekki atvinna fyrir marga, þótt ein hvalveiðistöð eða svo yrði reist hjer á landi, en þó var það ekki lítil atvinna, sem menn höfðu af hvalveiðum áður fyr, meðan þær voru stundaðar frá Íslandi. Alveg sömu ástæður og áður liggja nú til, að veita íslenskum ríkisborgurum leyfi til hvalveiða. Það er af kunnugum mönnum talið víst, að útlendingar veiði hval hjer uppi undir landssteinum, þótt þeir megi ekki flytja hann hjer að landi. Sje þetta rjett, sem ekki er ástæða til að efast um, sýnist lítil ástæða til, að Íslendingar megi ekki nota sjer þessa veiði, verði að horfa á hana, án þess að hafast að. Á þessa ástæðu var drepið fyrir tveim árum, en mjer virðist rjett að minna á hana á ný, þar sem hún má teljast ein aðalástæðan til fylgis meiri hl. sjútvn. við frv. Friðun hvals, sem hjer mun hafa verið hugsjónin, næst aldrei, meðan útlendingar mega veiða hann hjer og flytja burtu. Það hefir heyrst, að alþjóðasamtök sjeu komin á stað um hvalfriðun. Ekki er ólíklegt, að svo sje, eins og t. d. talað er um alþjóðasamtök til að friða vissa flóa og firði fyrir botnvörpuveiðum. Þótt svona samtök sjeu í sjálfu sjer mjög æskileg, og sjálfsagt fyrir Íslendinga að taka þátt í þeim á sínum tíma, þá eru þau altaf mjög lengi að komast á. Og ekki sýnist ástæða til að banna Íslendingum hvaladráp, meðan útlendingar stunda það umhverfis landið.

Jeg held, að langar umræður um málið sjeu þýðingarlausar að þessu sinni, þar sem svo stutt er síðan það var hjer síðast á ferð. Jeg geri líka ráð fyrir, að allir hv. þdm. hafi þegar ráðið við sig, hvernig þeir eiga að greiða atkv. Því mun jeg ekki hafa þessi orð fleiri.