06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (2512)

11. mál, útrýming fjárkláða

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg verð að segja það, að jeg átti von á, að nefndin tæki öðruvísi í þetta mál en hún hefir gert. Það var ekki hægt að búast við, að sama nefndin, sem flutti á síðasta þingi frv. um útrýming fjárkláða, mundi nú snúast á móti samskonar máli, þótt það kæmi frá öðrum aðila nú, að nafninu til, sem sje stjórninni. En sú hefir þó orðið raunin á um háttv. meiri hl. landbn. Stjórnin taldi sjer beinlínis skylt að flytja þetta frv. nú, þar eð málið var í fyrra afgreitt frá Nd. til Ed., og þaðan til stjórnarinnar, til frekari athugunar. Rannsókn fór fram, eins og skýrt hefir verið frá af háttv. minni hl. (ÁJ), og niðurstaða þeirrar rannsóknar er sú, að kláðinn sje allmjög útbreiddur í landinu. Allar skýrslur voru að vísu ekki komnar, er frv. var samið, en stjórnin leit svo á, að nægar upplýsingar væru þegar fyrir hendi til þess að sýna fram á, að þörf væri á að hefjast handa til herferðar gegn þessum ófögnuði. Reynslan hefir sýnt, að ókomnar skýrslur hafa staðfest illan grun, er þær loks bárust stjórninni í hendur.

Jeg skal fúslega viðurkenna, að mjer finst margt mæla með því, að bændur ráði sjálfir, hvort þeir vilja útrýmnigarböðun eða ekki. En fyrst er nú það, að ekki er kunnugt, að sætt hafi andmælum af hálfu bænda meðferð þessa máls á síðasta þingi. En verst er að skilja þá háttv. þm., sem voru með málinu í fyrra, en eru nú ekki aðeins horfnir frá því, heldur leggjast eindregið á móti því, og hafa þó ekki gert grein fyrir, hví þeir hafi skift um skoðun.

Það er ekki rjelt hjá háttv. þm. Str., að það sjeu frekar fulltrúar bænda, sem sitja búnaðarþing heldur en Alþingi. Það er fullkomlega rjettmætt, að tala um sendimenn eða fulltrúa bænda hjer á Alþingi, eins og í þessari „samkundu bænda“, er hann nefnir svo. En það, sem undarlegast er, er það, að þessir fulltrúar bænda, er valdir voru í landbn. í fyrra og aftur núna, hafa breytt um skoðun, án þess að hafa gert nokkra grein þess, á hvaða forsendum þau skoðanaskifti sjeu bygð.

Jeg hefi ekki getað verið við allar umræður um þetta mál, en þó sumar. Heyrði jeg alla ræðu háttv. 1. þm. Árn. (MT), og fanst talsvert við hana athugavert. Hann kvað Árnesingum hafa orðið mikið ágengt og tekist því nær að útrýma kláðanum. (MT: Já, með hjálp stjórnarinnar). Já, jeg skal ekki neita því. En þó hefir ekki tekist betur en svo, að enn eru þar kláðakindur á strjálingi. Og hve mörg ár líða þar til Árnessýsla verður útsteypt í kláða á ný? Það veit enginn. En það getur orðið áður en varir. Það er nú sannað, að eitt þrifabað á ári heftir ekki smitun fjárkláða. Það hindrar öra útbreiðslu hans, en drepur hann ekki. Það er vísindalega sannað, að ein böðun getur ekki útrýmt kláðanum. Það er árangurslaust, að búast við því. Auðvitað eru þrifaböð til bóta á annan hátt, en þau miða bara alls ekki í þessa átt. Við getum aldrei gert okkur vonir um að uppræta kláðann, nema með því að fyrirskipa slíka allsherjar útrýmingarböðun. Þá höfum við góða von, en þó ekki vissu.

Hjer er í rauninni aðeins um það að ræða, hvort eigi að lofa kláðanum óhindrað að magnast meir en orðið er, eða hvort eigi nú þegar að grípa í taumana og segja: hingað, og ekki lengra. Væri að vísu rjettmætt að láta bændur sjálfa um það, hvorn kostinn þeir veldu. En þeir mega ómögulega telja hvorki sjálfum sjer nje öðrum trú um, að ein böðun sje nægileg til þess að útrýma kláðanum.

Hvað það snertir, að gera herhlaup í bili gegn kláðanum í einstökum, vissum sýslum, þá má það að vísu takast. En hversu lengi verða svo þær sömu sýslur að smitast á ný úr næstu sýslum?

Það liggur ekki fyrir til álita, hvort slík útrýmingarböðun hefði getað farið fram í vetur eða ekki. En jeg verð að segja, að þá er ekki oft um að ræða möguleika fyrir hentugum tíma og ástæðum, ef það hefði ekki getað blessast í vetur, eftir því tíðarfari, sem verið hefir, það sem af er. (MT: Það vissi maður nú ekki fyrirfram).

Jeg get vitanlega látið mjer í ljettu rúmi liggja, þótt frv. verði felt. En þá get jeg ekki annað sagt en það, að lítið er á vilja Alþingis að byggja, ef hann er svo breytilegur sem kenjótts krakka, er heimtar sitt á hvað. Ef jeg á að segja eins og er um hið nýja frv. hv. landbn., þá er það einskis virði, í engu tilliti betra en þau lög, er nú gilda. Þar er ætlast til, að halda áfram því sama káki, sem verið hefir.

Það sýnist vera svo, að þær sýslur, er við kláðann eiga að búa, vilji útrýma honum. En komi tímabil, er hann rjenar heldur, þá kemur annað hljóð í strokkinn. Ætti mönnum þó að skiljast, að þar kemur, að honum verði gerð full skil, og því fyr, því betra. Því að talsverðum skaða veldur hann árlega, þótt ekki sje hann magnaðri en nú sem stendur, hvað þá ef hann yrði meiri.