06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (2513)

11. mál, útrýming fjárkláða

Jón Kjartansson:

Jeg þarf ekki að blanda mjer inn í þessar umræður til þess að gera grein fyrir neinum skoðanaskiftum í þessu máli, því að jeg er sömu skoðunar og jeg var á síðasta þingi. Jeg hefi ekki skift neitt um skoðun við nánari athugun eða af viðtali við menn í hjeraði síðan í fyrra. En það voru ummæli hv. þm. Str., sem komu mjer til þess að standa upp. Hann gat þess, að samkunda bænda, mjer skildist búnaðarþingið, hefði eindregið lagt með því, að þetta frv. yrði að lögum. Þetta vildi jeg leiðrjetta, því að það er langt. Jeg hefi hjer fyrir framan mig nál. búfjárræktarnefndar, sem hafði frv. til meðferðar í búnaðarþinginu. Vil jeg leyfa mjer að lesa upp úr því nokkra kalla, með leyfi hæstv. forseta. Nefndin segir svo:

„Nefndin játar það, að það verði að teljast metnaðar- og nauðsynjamál, að losna alveg við kláðann. En eins og nú er háttað fjárhag almennings, virðist ekki rjett að leggja mikinn aukakostnað á menn umfram það, sem nauðsyn krefur. Að vísu er sanngjarnlega skift beinum kostnaði milli fjáreigenda og ríkissjóðs samkv. frv., en samt munu fjáreigendur bera þar sinn bróðurpart beint, auk hins óbeina kostnaðar, sem verður nú meðal annars vikið að.“

Og nefndin kemur inn á þann óbeina kostnað, svo sem mikla fóðureyðslu, er stafar af þrem böðunum, sem fara fram með millibilum hver eftir aðra, krankleika í fjenu og þar af leiðandi vandari meðferð á því en ella. Síðan segir nefndin svo:

„Að öllu athuguðu vill nefndin ekki leggja til, að nú sjeu samþ. á Alþingi lög um útrýming fjárkláða, þar sem böðunarár sje fastsett. Hitt virðist nefndinni frekar geta komið til greina, að samþ. verði heimildarlög fyrir ríkisstjórnina, þar sem henni veitist heimild til að fyrirskipa slíka útrýmingarböðun í samráði við Búnaðarfjelag Íslands, þegar hentugur tími teldist til þess.“

Eftir að hafa rökstutt þessa skoðun sína, leggur nefndin till. fyrir búnaðarþingið. Jeg ætla að lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:

„Búnaðarþingið telur rjett, að Alþingi samþykkki heimildarlög, þar sem ríkisstjórninni sje heimilað að fyrirskipa kláðaböðun á sauðfje um land alt, þegar hún, í samráði við stjórn Búnaðarfjelags Íslands, telur hentugan tíma til þess.“

En hjer er ekki um nein heimildarlög að ræða, heldur beina fyrirskipun um útrýmingarböðun, sem fram á að fara í árslok 1928 og ársbyrjun 1929. Þó má fresta böðuninni, ef Búnaðarfjelag Íslands telur nauðsynlegt, vegna fyrirsjáanlegs fóðurskorts. Er hjer nokkuð annað uppi á teningnum heldur en í till. búfjárræktarnefndar búnaðarþingsins. (Rödd af þingbekkjum: Talsvert er það nú svipað.) Nei, það er alt annað, gjörólíkt.

Úr því jeg stóð upp, ætla jeg að lesa upp enn einn kafla úr þessu nál. búfjárræktarnefndar. Hann fjallar um árangur útrýmingarböðunar, ef af verður. Búfjárræktarnefnd virðist ekki svo ýkja sannfærð um fullan árangur af útrýmingarböðun, þrátt fyrir hinn gífurlega kostnað, sem henni er samfara. Álít búfjárræktarnefndar er mjög á annan veg en álit háttv. minni hl. landbn. og þeirra, er frv. fylgja. í nál. búfjárræktarnefndar segir svo:

„Frv. gerir ráð fyrir þremur kláðaböðum með vissu millibili, hverju eftir annað, og skal baðað í árslok 1928 og ársbyrjun 1929. Er þriðja böðunin eflaust nokkurskonar öryggisböðun. En þá er samt spurningin: verður ekki erfitt að ná í seinasta maurinn? Má í því sambandi benda á erfiðleikana með sótthreinsun fjárhúsa að vetrarlagi. Telur nefndin hæpið, að hún verði svo framkvæmd, að talist geti trygg útrýming, þar sem maur getur lifað alt að þrem mánuðum undir ullarlögðum eða kláðaskorpum ósljettra veggja.“

Þetta segir nú samkunda sjerfræðinga bænda, er háttv. þm. Str. vitnar í. Hefir hann annað tveggja ekki athugað, hvað búnaðarþingið lagði til málanna, eða þá ekki skilið það. (HK: Það er ekki ólíklegt.) Jeg held, að öllu athuguðu, þá sje ekki farandi sú leið, er stjfrv. gerir ráð fyrir, eins og nú er ástatt um alla fjárhagsafkomu bænda. Það er dálítið varhugavert að íþyngja almenningi með þeim gífurlega kostnaði, er þessi ráðstöfun hlýtur að hafa í för með sjer, enda tekur búfjárræktarnefnd það mikið rjettilega fram í nál. sínu, að henni virðist ekki rjett að ráðast nú þegar í útrýmingarböðun. (ÁJ: Uss!). Uss, segir háttv. 2. þm. N.-M. En þetta er nú álit samkundu bænda, sem háttv. þm. Str. er að vitna í og leggur svo mikið upp úr.

Jeg treysti því, að þetta frv., er nú liggur fyrir, verði ekki að lögum, en hitt læt jeg mig minna skifta, þótt samþ. verði heimildarlög eins og búnaðarþingið fór fram á.