06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (2514)

11. mál, útrýming fjárkláða

Jón Auðunn Jónsson:

Eins og fleiri háttv. þm. er jeg dálítið hissa á afstöðu háttv. meiri hl. landbn. til þessa svokallaða kláðamáls. Jeg held það verði erfitt að útrýma kláðanum, ef menn ætla að skiftast að skoðunum á því efni eftir útbreiðslu kláðans í þeirra eigin hjeraði. En sönnun þess, að svo sje, er ræða háttv. þm. V.-Sk. (JK). Hans sýsla hefir þá sjerstöðu, að hún er og hefir jafnan verið laus við kláða. Enda er hann á móti útrýming þessa vogests, og svo hefir jafnan verið um þingmenn þess kjördæmis.

Jeg er sannfærður um það af reynslunni, að ekki er hægt að útrýma kláða með þrifaböðunum, hversu vel og rækilega sem þær eru framkvæmdar. Í fjölda mörg ár var mjer kunnugt um, að ekki fanst færilús í 4 hreppum í N.-Ísafjarðarsýslu. Það sýndi, að þrifabaðanir væru ósleitilega ræktar. En kláðinn magnaðist þrátt fyrir það. Í ýmsum hjeruðum hefir kláðin magnast mikið á síðustu árum, annarsstaðar þverrað eitthvað lítilsháttar. Þannig gengur það upp og niður, og enginn veit, hvenær landið alt kann að verða undirlagt. Jeg hefi átt tal við einn merkasta bónda í Vestur-Húnavatnssýslu, sem hefir þar eftirlit með böðunum á fje. Telur hann kláðann magnaðri nú en undanfarið. Sama er að segja um fleiri sýslur.

Það, sem gerir menn andstæða útrýmingarböðun, er fyrst og fremst kostnaðurinn, sem af henni leiðir, og í öðru lagi vantrú á fullan árangur, svo og hræðsla um, að það hafi of mikil áhrif á fjeð, að hafa 3 baðanir í einu. Það er satt, að skepnur þurfa mjög mikið fóður til þess að haldast við, ef þær eru baðaðar þrisvar í röð, og það væri því athugavert, hvort rjett væri að framkvæma útrýmingarböðun með 2 böðunum á ári tvö ár í röð. Jeg skal ekkert segja um, hvort það mundi duga eins vel, en vil skjóta því fram til athugunar við síðari umr. Hv. meiri hl. nefndarinnar telur meiri hluta bænda vera andstæða útrýmingarböðun. Má vera, að svo sje. En við megum ekki fara eftir því. Við verðum að gera það sem okkur er skylt að gera, til þess að forða íslenskum landbúnaði frá því tjóni, sem honum er búið af kláðanum, og þeim álitshnekki, sem við höfum af því með öðrum þjóðum, að ala slíkan vágest. (HStef: Hvers vegna ala Skotar hann?) Á Skotlandi er mjög lítið um fjárkláða. Það getur ekki talist mikið, þótt finnist svo sem 15–16 kindur með kláða í tugum miljóna fjár.

Og þessum kindum er þá jafnharðan slátrað og því fje, sem þær hafa haft samgang við.

Jeg er alveg sannfærður um það, að það er rjett, sem haldið hefir verið fram, að það verður miklu dýrara, þegar til lengdar lætur, að fella niður útrýmingarböðunina.