06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

11. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. meiri hl. (Hákon Kristófersson):

Jeg finn ástæðu til að þakka hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fyrir þau orð, sem hann ljet falla í garð meiri hl. landbn. Það kvað við nokkuð annan tón en hjá sumum hv. þdm. Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir nú ekki einu sinni getað munað rjett, þegar hann er að vitna í álit búnaðarþingsins. (TrÞ: Þetta er alveg rangt.) Alveg rangt, segir þm. Hefir þá hv. þm. V.-Sk. (JK) lesið rangt eða logið upp nál., sem hann las hjer í deildinni? (TrÞ: Það verður gerð grein fyrir því.) Já, jeg vona, að sú greinargerð verði á þá leið, að hv. þm. (TrÞ) snúist nú á sömu sveif og meiri hl. landbn.

Hv. þm. Str. gaf frv. okkar nafn, og kallaði það kláðafriðunarfrv. Slíkt er vitanlega ekki annað en rangsnúningur, og alveg hliðstætt, ef jeg t. d. kalla þm. Jón, en hann hjeti nú eigi að síður Tryggvi. Hinsvegar ber þetta vott um, að þm. hefir ekki lesið frv. með þeirri góðgirni, sem ætti að mega vænta bæði af honum og öðrum hv. þm. Ef þm. vill leggja á sig að lesa 7. og 8. gr. frv., hlýtur hann að sjá þar alt annað en að þar sje verið að friða kláðann.

Þá spurði hv. þm. (TrÞ), hvort fara ætti eftir meiri hl. landbn. nú eða áliti nefndarinnar í fyrra. Þetta tal um það, að meiri hl. landbn. hafi snúist frá því í fyrra, fellur um sjálft sig, ef þetta er skoðað í ljósi sannleikans. (TrÞ: Þetta frv. er frv. landbn. í fyrra.) Já, að vísu. En það minkar ekki gildi frv. þessa. Ýmislegt, sem fram hefir komið í málinu frá í fyrra, gerir það að verkum, að afstaða nokkurra manna í nefndinni hlaut að breytast. Framkomnar skýrslur sýna líka, að þörfin er ekki eins knýjandi og hún virtist í fyrra. Þá er og mikill meiri hluti bænda mótfallinn útrýmingarböðun með 3 böðum. Jeg held það væri miklu meiri ástæða til að þakka mönnum fyrir það, að vera ekki svo einstrengingslegir í skoðunum, að þeir þoka ekki frá fyrri skoðun, að fengnum betri upplýsingum. Í þessu sambandi vil jeg benda á rannsókn hv. þm. Mýr. (PÞ), sem hefir dregið saman í eina heild útdrátt úr öllum skýrslum, sem nefndinni hafa borist víðsvegar af landinu, og vænti jeg, að hvorki hv. þm. Str. nje aðrir hv. þm. leyfi sjer að telja hann svo óvandaðan mann, að hann hafi ekki gert þann útdrátt samviskusamlega.

Þá skal jeg víkja að skýrslunni um kláðann, og skal jeg með leyfi hæstv. forseta lesa hjer upp nokkur atriði úr henni.

„Í Reykjavík enginn kláði. Í Borgarfjarðarsýslu mjög óvíða, helst þó við. Í Mýrasýslu hraðminkandi. Í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslum viðvarandi, ekki mikill. Í Dalasýslu allútbreiddur, vaxandi (Laxárdalur mest kláðasveit á landinu). Í Barðastrandarsýslu mjög lítill í austursýslunni, í vesturhluta þeirrar sýslu hefir hans aldei orðið vart. Í Vestur-Ísafjarðarsýslu sama sem enginn. Í Norður-Ísafjarðarsýslu 1915–1920 víða. Nú enginn í Strandasýslu hjer og þar, ekki mikill, viðvarandi, en minkandi. Í Húnavatnssýslu mjög víða, og vaxandi í vesturhluta sýslunnar. Minni í austursýslunni. Í Skagafjarðarsýslu víða, en lítill. Enginn í einum hreppi. Í Eyjafjarðarsýslu lítill, en viðvarandi í útsýslunni. Enginn í þrem instu hreppum og Ólafsfirði. Í Þingeyjarsýslum síðastliðin 20 ár aðeins vart. Síðustu ár enginn. í Norður-Múlasýslu grunur um 3 tilfelli. 3 síðustu árin enginn. Í Suður-Múlasýslu 3 tilfelli. Engin 2–3 síðustu árin. Í Skaftafellssýslum enginn. Grunur um tilfelli fyrir 20 árum og annað fyrir 6 árum. Rangárvallasýslu fá tilfelli í stöku hreppi. Varnað útbreiðslu. Í Vestmannaeyjum enginn. Í Árnessýslu, mikill fyrst, hraðminkandi. Enginn í hálfri sýslunni. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu tvö tilfelli. Enginn í 10 hreppum.“

Hvað sýnir nú þessi skýrsla? Hún sýnir það, að kláðinn er vel viðráðanlegur, og að hann er ekki nú þegar orðinn miklu minni, kemur vafalaust af vanrækslu á böðun. Líka getur komið fyrir, að fje náist ekki til böðunar, en fyrir það yrði heldur ekki girt, þó að útrýmingarböðun væri fyrirskipuð. Jeg leyfi mjer ekki að gera ráð fyrir, að annað en hið allra besta vaki fyrir þeim, sem samþ. vilja frv. á þskj. 11. En þeir hafa heldur ekki rjett til að ætla, að fyrir okkur vaki annað en það, sem við álítum rjettast og best, það er að segja, að sá sje upp tekinn, sem við leggjum til. Útrýmingarböðun getur ekki farið fram, svo að í lagi sje, nema með miklum undirbúningi. Jeg skal að eins benda á, að sundþrær yrðu að vera sem víðast. Hæstv. atvrh. (MG) furðaði á, að nefnd, sem flutti frv. líks efnis í fyrra, skyldi nú snúast á móti þessu stjfrv. En við höfum aðeins skift um leiðir. Við viljum, að reynt sje, hvort sú leið, sem við nú bendum á, getur ekki komið að fullu gagni. Við teljum víst, að kláðinn muni fara minkandi, ef okkar tillögum verður fylgt. Reynslan hefir sannað það að nokkru leyti, t. d. í Mýrasýslu, þar sem kláðinn var magnaður, en hefir farið minkandi, ef ekki alveg útrýmst. Við teljum ekki rjett, að farið sje að fyrirskipa þrjár baðanir á vetri, nema hægt sje að færa full rök fyrir því, að slíkt sje óhjákvæmilegt. Bændur vita, að þó ekki sje nema um eina böðun að ræða, þá hefir hún töluverð áhrif á fjeð; það verður þolminna til útigangs, ef ill er tíð. Það er auðvitað eðlilegt, að hæstv. atvrh. (MG) haldi með þessu stjfrv., þó að í raun og veru sje það ekki hans mál, heldur flutt samkvæmt vilja, sem fram kom í fyrra. En nú slær hæstv. ráðh. því föstu, að frv. nefndarinnar sje kák. (Atvrh. MG: Já!) — Já, segir hæstv., ráðh. En það svar er ekki í samræmi við hið góða traust, sem jeg ber til hans og gætni hans í hvívetna, bæði í orðum og verkum, því að þessu fylgja engin rök. Jeg gæti með engu minni rökum haldið því fram, að útrýmingarböðun yrði á sumum stöðum aðeins kák, þó hún væri fyrirskipuð. Ef menn vilja halda því fram, að frv. okkar, sem dregið hefir verið inn í þessar umræður, sje einskis virði, hlýtur það að vera sakir traustsleysis á trúverðugleik manna þeirra, sem eiga að sjá um framkvæmd baðananna. En samanburð á þessu frv. við lögin frá 1913 er ekki hægt að gera í alvöru. Í þau lög vantar heimild fyrir því, að ef menn sýni óhlýðni, megi taka fje þeirra og baða. Sú hugsun er nú annars í uppsiglingu, eins og bent hefir verið á, að menn leggi meira en áður upp úr vandaðri þrifaböðun, af því að þeim skilst, að óvandvirkni í þessum efnum kemur þeim sjálfum í koll.

Tveir hv. þm. hafa komið hjer með útreikninga um, hvað allsherjar útrýmingarböðun mundi kosta, og nefndi annar 100 þús. en hinn 125 þús. kr. Mig brestur öll gögn til að slá nokkru föstu um þennan kostnað, en jeg tel víst, að kostnaður ríkissjóðs yrði miklu meiri en þetta, því að þessar áætlanir taka ekki með alla kostnaðarliði, sem framkvæmd málsins hefir í för með sjer.

Hv. frsm. minni hl. benti á, að nú væri tækifæri til að slá niður allan kláða í landinu, áður en hann magnaðist meira. Þetta eru rjettmæt ummæli, eins og við var að búast. En við viljum líka útrýma kláðanum. Með því fyrirkomulagi, sem við stingum upp á, væntum við, að takast megi að útrýma honum, og ef reynslan sýnir hið gagnstæða, er nógur tími að taka í taumana. Hv. þm. (ÁJ) sagði líka, að hrundið hefði verið öllum mótbárum í fyrra gegn útrýmingarböðum. Jeg held mig við það, sem nú er efst á baugi. Meiri hl. landbn. er kunnugt, að fjöldi manna víðsvegar um land er á móti útrýmingarböðun. Auðvitað eru aðrir til, sem halda, að hún sje hið eina rjetta í þessu máli, og þeir hafa auðvitað fullan rjett á að halda fram sinni skoðun. En jeg fullyrði, að þeir menn eru miklu færri en hinir, sem gagnstæða skoðun hafa í þessu máli.

Þá mintist sami hv. þm. á útflutning lifandi fjár. Það má vel vera, að það sje þýðingarmikið atriði. En yfirleitt get jeg ekki gert mikið úr því. Jeg held, að kláðahræðslan sje yfirborðsástæða hjá Englendingum, þar sem kláði er í þeirra eigin fje. Jeg held líka, að þó að við teldum kláða útrýmt hjer, að erfitt yrði fyrir okkur að leggja sannanir fyrir því á borðið. Útflutningur lifandi sauðfjár getur heldur ekki komist á hjá okkur að neinu ráði, nema búskaparhættir breytist allmikið.

Þá sagði hv. þm. (ÁJ), að enginn árangur hefði orðið af lögunum 1913. Þetta er ekki rjett, a. m. k. er ómögulegt að sanna það. Þó að kláði sje viðloðandi í landinu, er ómögulegt að sanna, að engin not hafi orðið af þrifaböðunum, og á jeg þar ekki við hin óbeinu not, að fjeð þrifist betur. Hv. þm. mintist á böðun Myklestads, og tók rjettilega fram, að sú böðun hefði tekist vel, þó að kláðanum yrði ekki útrýmt. En hvaða sögur bárust þá af því, að bændur kæmu sumu af fje sínu undan? Að sú undankoma hafi staðið í sambandi við annað en böðunina, leyfi jeg mjer ekki að bera fram hjer, en það hefir víst áreiðanlega ekki náðst í allar kindur, sem til voru. Hv. þm. sagði, að við yrðum að gera það upp við okkur, hvort við vildum verja 100 þús. kr. til þess að losna við þennan vágest, eða bjástra árlega við einhverja kákböðun. Jeg hefi margbent á, að kostnaðurinn hlýtur að verða miklu meiri en 100 þús. kr. Jafnframt held jeg því fram, að verði sú leið farin, er við leggjum til, að þá muni kláðanum haldið í skefjum eða helst niður slegið með öllu. Jeg legg til í þessu máli það, sem jeg er sannfærður um, að sje hið besta, og jeg vænti þess, að hv. þm. (ÁJ) taki mjer ekki illa upp mína skoðun, fremur en jeg hans. Jeg get talað um þetta mál í mesta bróðerni, og þó að orð mín kunni að vera svo óheppilega valin, að hv. þm. geti leyft sjer að kalla þau gaspur, ónýtir það á engan hátt undirstöðuatriði málsins.

Þetta mál getur þá að sinni verið útrætt af minni hálfu. Jeg sje ekki ástæðu til að fara út í það frekar, og býst ekki við, að ræður hv. þm. breyti skoðun minni í neinu. Jeg get vel tekið undir með hv. þm. Borgf., að jeg öfunda ekki þá menn, sem koma hjer fram á öðrum grundvelli en meiri hl. nefndarinnar leggur til.