06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (2518)

11. mál, útrýming fjárkláða

Tryggvi Þórhallsson: Það er aðeins stutt athugasemd út af því, að mjer er tjáð — jeg var ekki viðstaddur — að hv. þm. V.-Sk. hafi vefengt það, sem jeg sagði um afstöðu búnaðarþingsins til þessa máls, og sama fann jeg, að kom fram hjá hv. þm. Barð. Mjer er vissulega kunnara en hv. þm. V.-Sk., hvað gerðist á búnaðarþinginu, þar sem jeg sat þar og fylgdist með því, sem gerðist, en það gerði þessi hv. þm. (JK) ekki. Jeg get upplýst, að þar, eins og hjer, skiftust menn í 3 flokka. Fyrst má nefna þá, sem í spaugi hafa verið kallaðir kláðafriðunarmenn, þ. e. a. s. þeir, sem hallast að þrifaböðun einni, eins og meiri hl. landbn. gerir nú. Í öðrum flokki má telja þá, sem vilja koma á útrýmingarböðun, hvernig sem á stendur. Á þessum grundvelli stóð í fyrra meiri hl. þáverandi landbn. í þriðja flokki má telja menn, sem vilja útrýmingarböðun, en vilja ekki binda hana við neinn fastákveðinn tíma, heldur láta ákveða hana, þegar vel stendur á fyrir landbúnaðinum. Það, sem taka átti afstöðu til, var stjfrv. Sá maður, sem mest var móti útrýmingarböðun, bar fram till. um að vísa málinu frá, á þeim grundvelli, að takast mætti að halda kláðanum niðri með þrifaböðun. Sú till. var feld, að viðhöfðu nafnakalli, með 9:2 atkv. 2 fulltrúar af 12 voru því sammála meiri hl. landbn. Til þess að láta afstöðu búnaðarþings koma skýrt fram, bar jeg fram till. um, að búnaðarþingið lýsti yfir því, að það gæti ekki samþ. lögskipaða kláðaböðun á fyrirfram ákveðnum tíma. Sú till. var samþ. með 7:3 atkv. Flestir vildu fara millileiðina; því var samþ.till., sem hv. þm. V.-Sk. las upp, að þetta skyldu vera heimildarlög fyrir ríkisstjórnina. Búnaðarþingið leit svo á, að ríkisstjórnin mundi fara að ráðum Búnaðarfjelagsins í þessu efni, og ef það álítur böðun óforsvaranlega, vegna fóðurskorts, þá verði henni frestað. Atkvgr. á búnaðarþinginu sýnir ljóslega þessa afstöðu þess til málsins. — Hv. form. landbn. (PÞ) beindi nokkrum orðum til mín og annara, sem eru með þessu frv., og bað okkur að gæta þess, sem við værum að gera í þessu máli. Þetta er vitanlega af heilu mælt. En jeg vil aðeins segja honum það, að með tilliti til framtíðarinnar og dóms síðari kynslóða er jeg algerlega rólegur, þar sem jeg er að leggja til, að gerð sje tilraun til að losa landbúnaðinn við smán, sem hvílt hefir á honum um langan tíma.