07.04.1927
Neðri deild: 49. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (2527)

11. mál, útrýming fjárkláða

Pjetur Ottesen:

Jeg býst við, að það megi nokkurnveginn ganga að því sem vísum og sjálfsögðum hlut, eftir því, sem fram er komið, að umræður um þessi tvö frv., frv. um útrýming fjárkláða og frv. um sauðfjárbaðanir, muni renna nokkuð saman í eitt. Enda hefir verið svo að mestu leyti það sem af er þessari umræðu. Þetta er líka sjálfsagt og eðlilegt, því að hjer er verið að deila um tvær mismunandi aðferðir, sem báðar eiga að leiða að sama marki. Þess vegna er það, að þótt umræðurnar verði nú máske nokkuð lengri fyrir það, að rætt er jafnframt um frv. um sauðfjárbaðanir, sem hjer er síðar á dagskránni, jafnframt því sem rætt er um frv. það, sem hjer liggur fyrir, þá ættu umræður um síðara málið, þegar að því kemur, að geta orðið miklu minni og ef til vill engar. Það er af þessum ástæðum, að jeg hefi nú kvatt mjer hljóðs, og mun tala nokkuð jöfnum höndum um þessi bæði mál.

Þetta frumvarp, sem hjer liggur fyrir, stjfrv. á þskj. 11, er kallað frv. um útrýming fjárkláða. Það hefir þegar komið fram hjá þeim, sem að frv. þessu standa og halda því fram, að um það eru allmjög skiftar skoðanir, hvort því takmarki verði náð með þeim ákvæðum, sem frv. inniheldur, að hægt verði að útrýma fjárkláðanum. Og mjer skilst svo, eftir því sem lengra hefir liðið á þessar umræður, að það sjeu fleiri og fleiri af aðstandendum þessa máls, sem hafa látið uppi þá skoðun, að þeir geri ekki ráð fyrir, að hægt verði að útrýma fjárkláðanum samkv. ákvæðum þessa frv. Aðrir taka aftur munninn fyllri, og tala um málið á þeim grundvelli, að á þennan hátt verði kláðanum útrýmt

Hæstv. atvrh. komst svo að orði, að hann byggist við, að kláðanum mundi allmikið hnekt með þessari útrýmingarböðun, og að hann mundi að mestu leyti liggja niðri um 10 ára skeið, eins og eftir Myklestadsböðunina. Hæstv. atvrh. gerir sjer ekki hærri vonir en þetta. Jeg býst við, að þetta sje nærri sanni og af sanngirni mælt. Alveg hið sama kom fram hjá hv. þm. V.-Húnv. En þetta er mikilsverð játning á því, sem haldið hefir verið fram, að alger útrýming fjárkláðans sje svo erfitt verk, að ekki sje hægt að gera sjer vonir um, að takast megi, næstum til hvaða ráða sem gripið er, að útrýma kláðanum algerlega. Með því að athuga þetta mál með ró og stillingu, kemur það skýrt í ljós, að það er ekki aðalatriði í málinu, hvort baðað er einu sinni, tvisvar eða þrisvar, heldur, að baðlyfið, sem notað er, sje gott, að vandað sje til böðunarinnar á allan hátt, að alt fje komi til böðunar, og að fjárhúsin sjeu vandlega sótthreinsuð. Þá má benda á það, að með Myklestadsaðferðinni, einni böðun, var kláðanum útrýmt í Noregi. Sú varð og reynslan af Myklestadsböðununum hjer á landi, að í sumum hjeruðum var kláðanum algerlega útrýmt. En þessi böðun orkaði ekki að útrýma kláðanum alstaðar, því að hann lifði í sumum hjeruðum eftir böðunina, og þaðan hefir hann svo breiðst út til hinna hjeraðanna. Og þá er að athuga, hvaða orsakir liggja til grundvallar fyrir því, að kláðanum varð ekki útrýmt hjer alstaðar með Myklestadsböðuninni. Mjer finst, að líklegast sje, að þetta eigi að einhverju leyti rót sína að rekja til þess, að eitthvað hafi skort á um gott eftirlit með böðuninni og að eigi hafi verið farið eftir settum reglum um tilreiðslu baðlyfjanna. En jeg hygg þó, að aðalorsakanna sje að leita í því, að ekki hafi alt fje komið til böðunarinnar og að sótthreinsun fjárhúsanna hafi verið ábótavant. Þegar nú verið er að ræða um útrýmingarböðun, þá eru fyrir hendi, eins og áður þessar sömu ástæður, þessir sömu erfiðleikar, og má þá sjerstaklega nefna, hversu hæpið er, að alt fje komi til böðunar, og hve miklum erfiðleikum það er undirorpið, að sótthreinsa fjárhúsin, svo örugt sje, að það er næstum óhugsandi, að það sje vinnandi verk að útrýma kláðanum algerlega, að hægt sje að drepa síðasta maurinn. Það, sem þá kemur til álita, er það, hvor af þeim leiðum, sem hjer er um að ræða, sje líklegri til að halda kláðanum í skefjum. Og svo verður vitanlega jafnframt að líta á kostnaðarhlið málsins. Því hefir verið haldið fram af mönnum, sem annars látast vera hörundssárir fyrir hönd bændanna, þegar um er að ræða að leggja gjöld á þá, og á jeg þar sjerstaklega við ummæli háttv. þm. Str., að kostnaðurinn sje ekkert atriði í þessu máli.

Jeg ætla ekki að svara þessu sjerstaklega, en aðeins benda á það, að þetta skiftir miklu meira heldur en ýms önnur fjárspursmál, sem þessi hv. þm. álítur, að máli skifti fyrir bændur. Það þarf ekki að draga það í efa, að útrýmingarböðunin verður margfalt kostnaðarmeiri fyrir bændur en þær baðanir, sem gert er ráð fyrir, að fram fari samkv. tillögum. landbn. Það þarf engum blöðum um það að fletta.

Þá er árangurinn. Jeg geng út frá því, ef ráðist verður í útrýmingarböðun, þá verði eingöngu notuð sjerstök baðlyfjategund, og jeg geng út frá því, að áður fari fram rannsókn á því, hvað megi telja örugt baðlyf. Það ætti náttúrlega að vera innifalið í þessu sjerstakt öryggi, en það verður þó ekki hjá því komist, að athuga, hvernig tókst til við hliðstæða rannsókn fyrir nokkrum árum. Eins og kunnugt er, var fyrir nokkrum árum hafist handa með að reyna að finna örugga baðlyfjategund. Það hafði komið fram við rannsókn á sumum af þeim erlendu baðlyfjategundum, sem notaðar voru, að þær svöruðu ekki til þess styrkleika, sem gefinn var upp, og auk þess var efnasamsetningin ekki altaf jafn örugg, þó um sömu tegund væri að ræða. Þess vegna var þess freistað, að búa til hjer á landi baðlyfjategund, og var ekkert að því flanað. Það var falið þeim sjerfræðingum í landinu, sem líklegastir þóttu til þess að geta leyst þessa þraut, en það voru þeir Magnús Einarsson dýralæknir og Gísli Guðmundsson gerlafræðingur. Eftir mikinn undirbúning og mikla rannsókn var svo búin til baðlyfjategund innanlands, sem átti að uppfylla öll hin settu skilyrði, og jafnframt ákveðið, að þetta baðlyf eitt skyldi notað. Þetta stóð þannig í tvö ár, að menn máttu enga aðra baðlyfjategund nota. Þegar farið var að mæla þetta baðlyf, kom það í ljós, að í sumum tilfellum reyndist þetta baðlyf mjög ljelegt og stundum ónýtt. Og við nánari rannsókn kom í ljós, að það hafði þann ókost, sem gerir það að heita má næstum ónothæft, enda þótt efnasamsetningin sje rjett og baðið örugt eins og frá því er gengið í verksmiðjunni, og sá ókostur er í því fólginn, að þegar það er geymt í kulda, breytist efnasamsetningin og baðið sest til, ef það er ekki hrist því betur upp og helst yljað; þá hefir árangurinn af böðuninni enginn orðið. Það hafa margir flaskað á þessu, og einkum voru mikil brögð að þessu meðan baðið var flutt á tunnum. Þá var ekki hægt að koma því við, að hrista það upp, en þetta er frekar hægt, þegar baðið er á smærri ílátum. Auk þess líta ýmsir svo á að baðlyfið skemmist verulega ef það frýs. Svona tókst nú til með tilbúning þessa svokallaða Hreinsbaðlyfs, og var þó einskis látið ófreistað og ekkert til snarað með rannsóknir og undirbúning við þessa baðlyfjagerð. Það er því ekki ástæðulaust, þó ótti sje í mönnum um það, að útaf geti borið, þó fitjað yrði upp á þessu á nýjan leik af sömu mönnum; öðrum mun tæpast til að dreifa. Og hvernig færi þá?

Eftir frv. minni hl. landbn. er aftur á móti ekkert einskorðað með það, að nota eina ákveðna baðlyfjategund, heldur skuli nota þau baðlyf, sem álitin eru samkvæmt reynslunni að vera þau öruggustu og bestu. Þetta er að vísu ef til vill ekki fullörugt, en samt er ekki í því fólgin eins mikil áhætta og ef ein baðlyfjategund væri lögskipuð fyrir land alt, sem svo reyndist að hafa þann ágalla, að hún væri lítt eða ekki nothæf.

Jeg vil skjóta því hjer inn i, að þegar menn eru að tala um útbreiðslu fjárkláðans, nú síðustu árin, þá ímynda jeg mjer, að útbreiðsla kláðans eigi að einhverju leyti rót sína að rekja til þess, hvernig tekist hefir með hið lögskipaða baðlyf. Jeg tek ekki dýpra í árinni en að segja: að einhverju leyti. Það er alment viðurkent, að þetta baðlyf hefir ekki veitt fult öryggi í baráttunni gegn óþrifum á sauðfje.

Þá er hitt atriðið í málinu, sem kemur til álita, þegar menn gera upp með sjer, hvor leiðin af þeim, sem hjer er um að velja, sje öruggari, og það er eftirlitið. Því er haldið fram, að eftirlitið verði öruggara samkvæmt frv. um útrýmingu fjárkláða en frv. meiri hl. landbn. En jeg held, að þeir, sem þessu halda fram, hafi komist að þessari niðurstöðu með því að bera frv. um útrýmingu saman við lögin um sauðfjárbaðanir frá 1914, en alls ekki frv. meiri hl. landbn. Meðhaldsmenn frv. um útrýmingarböðun telja því mest til gildis, að þar sje að ræða um opinbert eftirlit. En nú eru einmitt baðanirnar samkvæmt frv. meiri hl. landbn. líka settar undir opinbert eftirlit. þarna er sá stóri munur fólginn á þessu frv. meiri hl. landbn. og lögunum frá 1914.

Háttv. þm. V.-Húnv. lagði mikið upp úr því, að baðanir væru framkvæmdar undir opinberu eftirliti, en þetta opinbera eftirlit er að minsta kosti jafn trygt eða eins vel um þá hnúta búið í frv. meiri hl. landbn., eins og frv. um útrýmingu. Eftir ákvæðum frv. um útrýmingarböðun er gert ráð fyrir þessu opinbera eftirliti einungis í þetta eina sinn, þegar hin svo kallaða útrýming fer fram. En samkv. hinu frv. eiga allar sauðfjárbaðanir hjeðan í frá að vera undir opinberu eftirliti. Jeg man ekki til, að meiri hl. nefndarinnar hafi bent á þetta atriði sjerstaklega. Þess vegna vil jeg vekja athygli á því, að 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnumálaráðuneytið hefir yfirumsjón og úrskurðarvald um framkvæmd sauðfjárbaðana. Það gefur út reglur og leiðbeiningar, hvernig þeim skuli haga.“

Svo eiga hreppstjórar að taka við sem opinberir starfsmenn. Og þótt því verði vitalega ekki við komið, að þeir standi yfir öllum böðunum, þá eiga þeir í þeim tilfellum að kveðja sjer eftirlitsmenn til aðstoðar, alveg eins og yfireftirlitsmenn þeir, sem atvinnumálaráðuneytið skipar samkvæmt útrýmingarfrv., verða að gera. Svo framarlega sem öruggara er að hafa baðanirnar undir opinberu eftirliti, og það tel jeg tvímælalaust betra, þá er að minsta kosti eins vel sjeð fyrir þessu í frv. meiri hl. landbn. og í hinu frv. Þetta er svo mikilvægt atriði í samanburðinum á þessum tveimur frv., að þegar kveða á upp úrskurð um, hvor leiðin skuli farin, verða menn fyllilega að gefa því gaum. Því að hvað snertir þessi tvö atriði, öryggi baðlyfjanna og eftirlitið með böðununum, þá eru þau síst lakar trygð í frv. meiri hl. landbn. en í frv. um útrýmingarböðun.

Þá er eftir það atriði, sem miklu máli skiftir, og það er, að alt fje komi til böðunar, og það þarf ekki að efa, að hvor leiðin sem farin yrði, þá skiftir þetta engu máli, út af fyrir sig. Hættan, að eitthvað sleppi undan af fje og að ekki verði hreinsaðar allar holur í fjárhúsunum er jafnt til staðar í báðum tilfellunum. Hjer er því enginn munur á, hvor leiðin sem farin verður, hvað þetta snertir. Auðvitað geta verið einhver atriði í frv. landbn., sem þarf að lagfæra, og þá sjerstaklega frá formsins hlið, en það er þá auðveldlega hægt að gera.

Jeg vænti nú þess, að háttv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), sem sagði, að þeir, sem töluðu gegn þessu svokallaða útrýmingarfrv., forðuðust að koma nærri því og væru allir í ystu skerjum, viðurkenni, að jeg hefi ekki forðast að koma að kjarna málsins. Jeg held, að allar ástæður mæli með því, að draga megi þá ályktun, að álíka mikill árangur tengist, hvor leiðin sem farin væri í þessu máli. Og jeg dreg enga dul á það, að hvor leiðin sem farin væri, þá verði því miður ekki hægt að ná því takmarki, að útrýma fjárkláðanum með öllu.

Þetta, sem jeg sagði um það, hvað hinu lögskipaða baðlyfi hefði verið ábótavant, var undirstrikað og viðurkent af hv. þm. V.-Húnv., þar sem hann gekk út frá því sem sjálfsögðum hlut í þessu böðunarmáli, að undirbúningur allur væri sem öruggastur. Og það fyrsta, sem snertir þann undirbúning, væri að ganga úr skugga um, hvaða baðlyf helst eigi að nota. Þetta var viðurkenning á því, að hið lögskipaða baðlyf, sem notað hefir verið nú um hríð, hafi engan veginn verið örugt.

Þá hefir verið talað um, að þetta frv. um útrýmingarböðun ætti aðeins að verða heimildarlög. Hv. þm. Str., sem stendur þarna úti á svölunum, vildi halda því fram, að búnaðarþingið hefði litið svo á. Það hefir nú ekki verið sparað að draga ályktanir búnaðarþingsins inn í þessar umræður, og því hefir verið haldið fram af hv. þm. Str., að búnaðarþingið hafi lagt eindregið með útrýmingarböðun á þessum grundvelli.

Þegar um raunveruleg heimildarlög er að ræða, þá hafa þau það fasta form, að byrja vanalega með því, að stjórninni sje heimilt að gera þetta eða hitt. En nú stendur í 1. gr. þessa útrýmingarfrv., að stjórnin skuli framkvæma það, sem þar er ákveðið. Hjer er fast kveðið að orði. Svo er bætt við seinast í 1. gr., að atvinnumálaráðherra sje heimilt að fresta útrýmingarböðuninni, ef Búnaðarfjelagið telur, að áhætta sje að láta hana fara fram, vegna fóðurskorts. Menn sjá nú, að þetta frv. er alt annars eðlis en venjuleg heimildarlög, þar sem verið er að blanda áhrifum „privat“-stofnunar inn í framkvæmd málsins.

Þá er rjett að minnast á þetta einróma álit búnaðarþingsins, sem hv. þm. Str. (TrÞ) var að tala um. Það liggur ekki við, að búnaðarþingið hafi verið sammála um þessa útrýmingarböðun. Það sjest ljóslega af plöggum búnaðarþingsins, sem jeg hefi hjer í höndum, að þar eru mjög skiftar skoðanir um hana. Það hafa komið fram tillögur og brtt. og aftur brtt. í málinu. Og m. a. hefir hv. þm. Str. borið þar fram brtt., svohljóðandi: „Búnaðarþingið er því mótfallið, að lögskipuð verði kláðaböðun á sauðfje á fastákveðnum tíma.“ Svo hefir komið fram till. um að láta kláðaböðun fara fram á árunum 1928–1932. Svo kemur fram till. um, að þar sem upplýst sje, að dýralækna greini á um öryggi útrýmingarbaðananna, þá leggi einn fulltrúinn á móti þeim með öllu. Svo verður niðurstaðan af öllum þessum andstæðu skoðunum, að meiri hl. samþykt fæst fyrir því, að leggja til, að Alþingi samþykki heimildarlög um þetta efni, samkvæmt því sem áður er lýst.

Jeg hefi ekki farið að minnast á þetta vegna þess, út af fyrir sig, þó það hafi verið skiftar skoðanir um þetta á búnaðarþinginu, heldur vegna hins, að hv. þm. Str. (TrÞ) var að tala um þetta einróma álit búnaðarþingsins og að samþyktin á búnaðarþinginu væri hið eina, sem lægi fyrir frá bændum í þessu máli. Jeg skrifaði þetta orðrjett eftir þm. Við þetta er þá fyrst það að athuga, að það eru eingöngu bændur, sem standa að flutningi frv. frá meiri hl. landbn. Auk þess hafa legið hjer frammi tillögur samþyktar af bændum víðsvegar um landið, sumpart með og sumpart móti útrýmingarböðun, en þó miklu meiri móti. Eftir þessum ummælum þm. Str. er ekki hægt að álykta öðru vísi en svo, að hann líti þannig á, að alt, sem bændur hafa lagt og leggja til þessara mála sje einskis virði, nema það, sem fram hafi komið í búnaðarþinginu.

Þá hefir verið talað um þessa útrýmingarböðun — sem aðstandendur þessa frv. eru farnir að viðurkenna, að ekki sje útrýming, heldur leið til þess að halda kláðanum niðri — í sambandi við útflutning lifandi fjár til Englands. Það hefir meira að segja verið talið í tölum, hvers virði það sje fyrir okkur, eins og saltkjötsmarkaði okkar er nú háttað, að geta flutt út lifandi fje. Jeg er nú sammála hv. 2. þm. N.-M. um það, að þetta, um útflutning lifandi fjár til Englands, er mikilsvert atriði fyrir okkur, og jeg get lýst yfir því, að jeg er honum þakklátur fyrir, að hann hefir opinberlega skrifað um þann möguleika og töluvert skýrt það mál. En hvað sem við gerum í þessu máli, sem hjer liggur fyrir, hvort sem við samþ. frv. um útrýmingarböðun eða frv. meiri hl. landbn., þá kem jeg ekki auga á, að það geti haft nokkur áhrif á útflutning lifandi fjár til Englands. Jeg hefi fært rök fyrir því, og þau rök hafa þegar fengið beina og óbeina viðurkenningu sumra af stuðningsmönnum þessa frv. um útrýmingarböðun, að það mun í rauninni verða áhöld um árangurinn, hvor leiðin sem farin verður. Því er þetta ekki verulegt atriði í þessu máli. Hv. þm. N.-M. sagði, að hverri sending lifandi fjár yrði að fylgja heilbrigðisvottorð. Jeg efa ekki, að svo sje. En þess er að gæta, að hömlur þær, sem Bretar hafa lagt á innflutning lifandi fjár hjeðan og grípa frá öðrum löndum, eru til komnar fyrst og fremst sem verndartollur fyrir enska framleiðendur. Þetta er, að nafninu til, bygt á sjúkdómsástæðum, en er í rauninni ekki annað en verndartollur, að minsta kosti að því er snertir útflutning lifandi fjár hjeðan. Í fje hjeðan er ekki um annan kvilla að ræða en ef vera kynni fjárkláðavott, en það getur ekki verið stórt atriði fyrir Englendingum, sem hafa samskonar kvilla í sínum eigin búpeningi, og hefir ekki þann dag í dag tekist, svo kunnugt sje, að útrýma honum.

Það er nú ýmislegt fleira í þessu sambandi, sem ástæða hefði verið að minnast á, en jeg sleppi því og læt mjer nægja að drepa á þessi höfuðatriði málsins. Jeg þykist hafa fært gildar ástæður fyrir því, að jeg tek þann kostinn frekar, að vera með frv. meiri hl. landbn., sem jeg tel nauðsynlegt að nái fram að ganga, heldur en frv. um útrýmingarböðun.