07.04.1927
Neðri deild: 49. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (2528)

11. mál, útrýming fjárkláða

Þorleifur Jónsson:

Það er nú langt síðan jeg kvaddi mjer hljóðs, svo það hefir margt verið tekið fram af því, sem jeg ætlaði að segja, og þarf jeg því ekki að vera langorður. Því síður þarf jeg að tala langt mál, þar sem skoðun sú, sem jeg hjelt fram í fyrra, að ekki væri rjett að ana undirbúningslaust út í útrýmingarböðun, hefir nú fengið fleiri áhangendur en í fyrra. Það er ekki að furða, þó að meiri hl. landbn. hafi snúist hugur frá því í fyrra, því að á þeim tíma hafa komið fram mikilsverðar upplýsingar. Á síðasta búnaðarþingi sat maður, sem hefir mjög gott vit á þessu máli, Sig. Hlíðar dýralæknir á Akureyri, og hann áleit, að erfitt væri að útrýma fjárkláðanum, þótt baðað væri 2–3 sinnum. Þetta álit hans hugsa jeg að hafi gert sitt til þess að snúa mönnum frá útrýmingarböðun. Sig. Hliðar heldur því fram, að það þurfi að sótthreinsa fjárhúsin nákvæmlega, til þess að menn geti verið öruggir. En það mun sennilega erfitt að koma því við, eins og peningshúsum er háttað hjer á landi. Því er von, að fleiri hallist á þá sveifina, að efast um, hvort rjett sje að leggja í mikinn kostnað við útrýmingarböðun. Ef það er rjett, að maurarnir geti lifað í 3 mánuði utan kindarinnar, þá er erfitt að útrýma fjárkláðanum með böðum.

Það hefir nú lítið verið minst á frv. stjórnarinnar hjer í umræðunum. Jeg vil því leyfa mjer að benda á ýmislegt í því, sem mun verða varhugavert í framkvæmdinni.

Í 1. gr. frv. er svo ákveðið, að í árslok 1928 og ársbyrjun 1929 skuli fram fara útrýmingarböðun um land alt. Það er auðsjeð, að þetta ákvæði er sett af mönnum, sem ekki eru kunnugir ástandinu til sveita. Það á að hefja böðin í versta skammdeginu, þegar dagar eru svo stuttir, að böðunin verður að mestu að fara fram við ljós, ef nokkuð á að verða úr verki. Svo er hitt, að í góðum beitarsveitum, þá er fjenu oft beitt fram að miðjum vetri; því verður það fjáreigendum stór byrði, að verða að taka fjeð tveim mánuðum fyr en vant er í hús og á hey, því að ekki má sleppa fjenu aftur og hrekja það eftir þrjár baðanir. Það eru áreiðanlega til útigangsjarðir, sem ekki þola baðanir á þessum tíma, og þá er ekki annað fyrir hendi en lóga fjenu haustið áður en böðunin fer fram. Það eru til þær jarðir, þar sem treyst er svo á sjávarbeit og landbeit, að ekki er hey til nema fyrir viku innistöðu. En alt þetta bendir til þess, að þeir menn, sem hafa samið þetta frv., muni ekki vera kunnugir sveitahögum hjer á landi. í 1. gr. stendur líka, að böðunin skuli háð eftirliti dýralæknisins í Reykjavík. Það getur nú verið gott og blessað, en það er slæmt, þegar dýralæknana greinir á. Hvorum á þá að trúa, dýralækninum í Reykjavík, eða dýralækninum á Akureyri? Í 3. gr. er talað um það, að næg baðker skuli vera fyrir hendi. En nú er ekki tiltök að baða fje þrjár baðanir, nema sundþrær sjeu til og góður sigpallur. En slíkt mun ekki alment, enn sem komið er, og verður því að koma sundþróm upp áður en þessi stórböðun byrjar. Í 4. gr. frv. segir, að þar til lög þessi koma til framkvæmda, skuli atvinnumálaráðuneytið láta fram fara ítarlega rannsókn á tilbúningi og nothæfi baðlyfja til útrýmingarböðunarinnar. En það er nú svo, að þegar þetta frv. verður að lögum, ef það verður að lögum, þá er sumar, en þá á að láta fara fram ítarlega rannsókn á nothæfi baðlyfjanna á þeim tíma, sem engin kind er böðuð. Jeg held, að það sje ekki hægt að sannprófa baðlyfin á kláðafje eftir því sem frv. mælir fyrir. En jeg held, að það veitti annars ekki af því, að rannsaka baðlyf þau, sem notuð hafa verið í seinni tíð. Að minsta kosti er sagt í skýrslunni úr Dalasýslu, að tala kláðakinda sje þar legíó, og því kent um, að vond baðlyf hafi verið notuð.

Það hefir mikið verið með því flaggað, að útbreiðsla kláðans hafi farið í vöxt á síðari árum. Jeg get nú ekki vel áttað mig á þessari skýrslu, sem hjer liggur fyrir, en mjer skilst, að hún nái yfir 5 ára tímabil. Eftir þessari skýrslu eru í sumum sýslum örfáar kláðakindur, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp skýrslu úr nokkrum sýslum:

Í Gullbr.- og Kjósarsýslu 4 kindur

— Barðastrandarsýslu ... 5 —

— Ísafjarðarsýslu 24 —

— Rangárvallasýslu .... 85 —

— Suður-Múlasýslu ..... 11 —

— Norður-Múlasýslu .... 2 —

Í þessum 6 sýslum hefir orðið vart 130 kláðakinda á þessum 5 árum. En hver getur staðhæft, að þær sjeu nú með kláða? Þegar þar við bætist, að 3 sýslur eru kláðalausar, þá eru hjer komnar 9 sýslur, og er þar með sýnt, að kláði er sama og enginn í helmingi sýslna landsins. Er því sú ályktun hæpin, að kláðinn sje í mikilli útbreiðslu. Nú vil jeg spyrja hæstv. atvrh. að því, hvað stjórnarvöldin hafi gert lögum samkvæmt til þess að halda kláðanum í skefjum eða kefja hann. Hafa verið fyrirskipaðar tvíbaðanir, þar sem mikill kláði er? Hafa verið skipaðir duglegir eftirlitsmenn? Hvaða baðlyf hafa verið notuð? Ef kláðinn hefir mikið breiðst út, þá er sennilega að einhverju leyti um að kenna slælegu eftirliti. En þá kemur spurningin: Verður þetta betra eftir útrýmingarböðunina? Jeg tel ekki gróða að útrýmingarböðuninni, ef hún dugir ekki lengur en í 9 ár, eins og mjer skildist á hæstv. atvrh. Það er ekki skemtilegt, að eiga að leggja í þennan kostnað á 10 ára fresti.

Mjer skilst, að nú í seinni tíð sjeu það sterkustu rök hv. frsm. minni hl. fyrir útrýmingarböðuninni, að með því væri okkur opin leið að selja fje á fæti til Englands. Ef þetta væri víst, þá mundi jeg ekki setja mig á móti útrýmingarböðun. En eins og hv. þm. Borgf. (PO) hefir tekið fram, eru það alt aðrar ástæður, sem valda því, að þessi leið er ekki opin fyrir okkur. Undanþágan, sem við höfum til þess að flytja lifandi fje til Englands, ef það er haft 10 daga í sóttkví eftir að það er komið í land þar, er ekki notuð. Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að 2 farmar hefðu verið sendir til Englands 1921, en hann viðurkendi, að það hefði ekki borið góðan árangur. En svo er líka á það að líta, að það er ekki í einu vetfangi búið að breyta búnaðarháttum okkar þannig, að við komum okkur upp sauðum. Það hlýtur altaf að taka nokkuð langan tíma. Jeg held því, að það sje alveg óhætt að vera á móti þessari útrýmingarböðun, vegna sölunnar til Englands. En ef rannsókn leiddi hið gagnstæða í ljós, þá mundi jeg ekki vera á móti þessu máli. En slíkt þarf betri rannsóknar við en hjer hefir farið fram.

Af þeim hv. þm., sem mæltu með útrýmingarböðun, talaði hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) sanngjarnlegast. Hann viðurkendi, að mál þetta þyrfti rækilegan undirbúning og rannsókn baðlyfja, og ennfremur, að skipaðir yrðu góðir eftirlitsmenn. En eftir þessu frv. er ekki langur undirbúningur til þessa.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði, að það væri ætíð svo, að þeir, sem ekki hefðu kláða, settu sig ætíð á móti útrýmingu, og tilnefndi Skaftfellinga. Já, Skaftfellingar eru á móti svona böðun hjá sjer, vegna þess að hjá þeim hefir aldrei orðið kláða vart, og er þó ekki hægt að neita því, að fje getur gengið saman við fje úr Suður-Múlasýslu. En bæði er það, að Skaftfellingar rækja þrifabaðanir mjög vel, og svo hefir ekki orðið kláða vart sunnan til í Suður-Múlasýslu mjög mörg ár a. m. k., svo að hættan hefir verið lítil þaðan. Mjer virðist, að bent sje á rjetta leið í þessu máli í frv. meiri hl. landbn. Samkvæmt því er ekki loku fyrir það skotið, að hafa megi útrýmingarbaðanir, ef nauðsyn bendir til þess, og ekki sje hægt að halda kláðanum í skefjum á annan hátt. Mjer finst miklu álitlegri sú leiðin, sem þar er farin, en hin, sem stjfrv. gerir ráð fyrir. Jeg kýs þá leið miklu fremur og get því eigi fylgt stjfrv. Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar, enda hefir þetta mál nú þegar verið rætt allmikið.