07.04.1927
Neðri deild: 49. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

11. mál, útrýming fjárkláða

Halldór Stefánsson:

Það hefir ræst í þessu máli, að sá hefir brek, er beiðir. Í byrjun umr. um þetta mál kom það í ljós, að sumir fylgjendur þessa frv. vildu ekki sætta sig við annað en að málið yrði ítarlega rætt. Síðan munu nú hafa verið haldnar um 30 ræður, svo að það lítur út fyrir, að þessum mönnum ætli að verða að ósk sinni.

Það hefir verið veist mjög að meiri hl. landbn. og hann sakaður um það, að hafa skift um skoðun í þessu máli frá því í fyrra, og menn hafa ekki látið sjer nægja að áfellast nefndina sem heild, heldur hefir verið veist að einstökum nefndarmönnum fyrir þetta. Það hefir nú þegar verið gerð nokkur grein fyrir þesari breyttu afstöðu nefndarinnar, og hefir rjettilega verið bent á það, að síðan í fyrra hafa fengist fyllri upplýsingar um ýmislegt, þessu viðvíkjandi, en þá voru fáanlegar. Jeg vil nú fyrir mitt leyti seðja forvitni, eða hvað það nú er, þeirra manna, sem ekki geta sætt sig við annað en að við landbúnaðarnefndarmenn gerum grein fyrir hinni breyttu afstöðu okkar.

Jeg get sagt það fyrir mitt leyti, og jeg hygg fleiri nefndarmanna, að fylgi okkar við málið í fyrra var eingöngu bygt á fullyrðingu dýralæknisins hjer, um að hægt væri að útrýma kláðanum, ef farið væri eftir hans ráðum og tillögum. Við hjeldum því fram þá, sumir nefndarmenn, að eftir því sem kent væri, væru 3 baðanir óþarfar, en dýralæknir leit svo á, að þó svo væri, þá væri útrýmingin ekki trygg, nema með því að baða þrisvar. Þriðju böðunina vildi hann hafa til fullkomins öryggis. Það var þannig eingöngu með það fyrir augum, að sjerfræðingar teldu það trygt, að takast mundi að útrýma kláðanum, að við fylgdum frv. í fyrra. Og til þess að hægt væri að koma fram siðferðilegri ábyrgð á hendur sjerfræðingunum, var það nauðsynlegt að fara eftir till. þeirra. Það var ekki hægt hvorttveggja, að ætla þeim að hafa veg og vanda af málinu og neita að fara eftir tillögum þeirra.

Nú stendur svo á, að ekki hefir verið hægt að leita álits dýralæknisins hjer í Reykjavík á ný, vegna heilsu hans, en hinsvegar hafa menn átt þess kost, að heyra álit annars sjerfræðings. Og það einkennilega skeður, að álit hans er alveg þvert á móti áliti hins sjerfræðingsins. Hann telur sem sje alls ekki trygt, að það takist, að útrýma kláðanum með þeim ráðstöfunum sem í stjfrv.er ætlast til að gerðar verði. Með þessu er í raun og veru kipt burtu þeirri ástæðu, sem jeg hafði til að fylgja frv. í fyrra. Menn getur vitanlega greint á um það, hvort álitið sje rjettara. Um það get jeg, sem leikmaður, ekkert sagt, en hjer er álit móti áliti, og það mun nú vera svo, að sá sjerfræðingur, sem bygt var á í fyrra, geti ekki haft eftirlit með framkvæmd böðunarinnar og haft veg og vanda af henni, ef hún verður ákveðin nú. Fresturinn til undirbúnings er nú líka orðinn mun styttri en hann var þá, og þarf þó vitanlega margt að undirbúa. Það hefir verið bent á ýmislegt, t. d. það, að óvíst er, hvort nógar fullgóðar böðunarþrær eru til á landinu. Ennfremur hefir verið bent á það, að þó að okkur takist að drepa kláðann í hverri einstakri kind, þá er það mjög óvíst, að það takist að drepa hann í húsunum, eins og þau eru hjá okkur. Til þess að framkvæma slíka böðun þarf mikil og góð húsakynni, og óvíst, að þau sjeu til svo nægi. Því hvað á að gera við fjeð, meðan verið er að sótthreinsa húsin, ef svo stendur nú á, að böðunin verður að fara fram í blindhríð eða hörkufrosti? Þá er heldur ekki fullrannsakað, hvaða baðlyf mundi best, og loks er það, að menn óttast um heilsu fjárins, að það þoli eigi 3 baðanir. Það er alkunnugt að ein böðun háir fje mjög mikið, hvað þá 3 baðanir.

Þá líst mjer heldur á hugmynd hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að gera þetta á 2 árum með 2 böðunum á ári. Enda hygg jeg, að það mundi reynast tryggara. Fyrra árið mundi þá e. t. v. takast að drepa kláðann á fjenu og síðara árið mundi svo yfir ljúka.

Það hefir verið allmikill ágreiningur manna á milli um útbreiðslu kláðans á síðari árum. Sumir halda því fram, að hann hafi aukist, en aðrir, að hann hafi minkað. Þetta má hvorttveggja til sanns vegar færa, ef miðað er við einstök hjeruð. Í sumum þeirra hefir hann aukist, í öðrum hefir hann tvímælalaust rjenað. Mitt álit er það, að ástæðan til þess, að kláðinn hefir aukist eða ekki rjenað meir en raun er á, sje baðlyfjaeinokunin, sem sett var í lög árið 1924, er lögleitt var eitt innlent baðlyf. Það er viðurkent, að þetta baðlyf hefir þá ókosti, sem gera það óhæfilegt. Það þolir ekki að standa, eða vera í kulda, þá sest það og dofnar. Er það mjög stór ókostur, því það er einmitt flutt út um landið á haustin og fyrri hluta vetrar, þegar veðrátta er tekin að kólna. Auk þess er þess að geta, að það hefir verið flutt út um landið í stórum ílátum og helt þar í önnur minni, og fer þá oft svo, að þeir, sem fá ofan af, fá ónýtt baðlyf, en hinir, sem fá dreggjarnar, geta þá fengið gott baðlyf. Af þessu verður mjög skiljanleg hin misjafna reynsla manna á þessu baðefni. Þessi baðlyfjaeinokun var sett í lög eftir ráði þess sama sjerfræðings, sem undirbjó þetta frv., sem hjer liggur fyrir, og hefir hún ekki reynst betur en þetta, og það er ekki til þess fallið, að auka traust á fullyrðingum hans um útrýmingu kláðans.

Tillögur okkar meiri hl. landbn. eru bygðar á því áliti, að með rækilegum þrifaböðunum og góðu baðlyfi megi bæla kláðann svo niður, að honum verði, ef ekki alveg, þá samt sama sem útrýmt á nokkurum árum, svo að hann geri ekkert tjón. Þessu áliti til sönnunar má minna á reynslu ýmsra einstakra hjeraða, sem bendir á, að þetta sje einmitt rjetta aðferðin. Jeg skal nefna þrjú hjeruð. Í Mýrasýslu var kláði allútbreiddur og magnaður, en hefir nú verið svo útrýmt, að hann gerir nú ekkert tjón, og hjeraðsbúar eru ekkert hræddir um, að hann aukist, þó haldið sje við það skipulag, sem nú er. Um Árnessýslu má segja það sama. Þá get jeg vísað til Norður-Múlasýslu. Þar var kláði nokkuð útbreiddur fyrir nokkrum árum í einum hreppi, en nú er aðeins grunur um tvö tilfelli í sýslunni.

Það hefir komið fram alment hjá fylgjendum stjfrv. allmikill misskilningur á afstöðu meiri hl. landbn. og till. hans í þessu máli, og því hefir jafnvel verið haldið fram, að við vildum ekki útrýma kláðanum. Þetta hefir verið bygt á grg. fyrir frv. okkar, og til þess að sýna, að þetta er rangt, ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hjer upp nokkur orð úr henni. Þar segir meðal annars:

„ Samkvæmt skýrslum þessum virðist mega ætla, að kláðinn sje ekki svo magnaður yfirleitt, að ókleift megi teljast að útrýma honum, eða a. m. k. að varna útbreiðslu hans, án þess að horfið sje að því ráði, að fyrirskipa allsherjar útrýmingarböðun um land alt.“

Þetta sýnir ekki, að við viljum ekki vinna að útrýmingu kláðans, heldur hitt, að við viljum fara öðruvísi að því en í stjfrv. er ætlast til.

Ennfremur segir hjer á öðrum stað:

„ Glögg vitneskja er og fengin nú um það, að bændur eru yfirleitt mjög andvígir því, að nú þegar sje tekin ákvörðun um allsherjar útrýmingarböðun.“

Þar með er ekki sagt, að við sjeum mótfallnir því, að útrýmingarböðun fari fram, ef ástandið breytist svo, mót von okkar, að það verður óhjákvæmilegt.

Þá vil jeg minna á misskilning, sem kom fram hjá hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), að við teldum þetta öruggari leið til að útrýma kláðanum heldur en útrýmingarböðun, eins og í stjfrv. er gert ráð fyrir. Þetta höfum við ekki sagt, en hitt höfum við sagt, að það væri álit margra, að það sje unt með þessu móti að útrýma kláðanum, það er að segja, með rækilegum þrifaböðum og aukaböðum, þegar og þar sem sjerstaklega er þörf.

Jeg skal þá gera nokkurn samanburð á því, hvort frv. er líklegra til þess að ná takmarkinu, stjfrv. eða frv. okkar meiri hl. landbn. Þó að stjfrv. sje ekki að forminu til heimildarlög, þá eru þó ákvæði í því, sem geta gert það að heimildarlögum. Stjórnin getur sem sje frestað framkvæmd laganna eftir till. annars aðila, ef fóðurbirgðir þykja ekki nægar, og það er meira að segja mjög líklegt, að hún mundi gera það; annað væri óvit. Stjórnin getur látið útrýmingarböðun fara fram, en hún þarf ekki að gera það. Jeg vil leyfa mjer að benda á, að það getur orðið langt þess að bíða, að nóg fóður verði til alstaðar á landinu á einu og sama ári. Veðráttu er þannig háttað hjer á landi, að sjaldan fer saman góðæri á Norður- og Suðurlandi, eða Norðausturlandi og Suðvesturlandi. Tíðarfar er venjulega gagnstætt í þessum landshlutum, og eftir tíðarfarinu fer grassprettan og það, hvernig gengur með fóðuröflun og fóðurbirgðir. Ef framkvæmd kynni nú að dragast lengi af þessum ástæðum, þá verðum við að búa við þau lög, sem nú eru í gildi. Út á þau ætla jeg ekki að fara að setja, en jeg vil benda á, að þau eru ekki eins ítarleg og ströng eins og till. meiri hl. landbn. Fyrir okkur vakir önnur leið. Við viljum ekki hrapa að þessu strax, en gerum okkur von um, að það megi takast að bæla kláðann svo niður, að hans verði lítt eða ekki vart, ef sett verði í lög strangari ákvæði um þrifaböð og strangari og skýlausari ákvæði um það, hvað gera skuli, þar sem kláði kemur upp. Ef gengið er að okkar till., þá ganga þær í gildi strax, og fæst þá þegar tryggara aðhald og eftirlit með kláðanum. En ef vonir manna bregðast um það, að unt sje að útrýma kláðanum á þennan hátt, þá er hitt ráðið altaf í bakhöndinni, að gera eina allsherjarráðstöfun. Ef hverfa ætti að allsherjarútrýmingu, þá held jeg fyrir mitt leyti, að það væri tryggasta leiðin, að bæla kláðann fyrst niður með rækilegum þrifaböðum, svo að hans verði eigi vart, og þegar svo væri komið, mætti hverfa að allsherjar ráðstöfunum til útrýmingar.

Jeg ætla ekki nema að mjög litlu leyti að minnast á ummæli einstakra hv. þm., enda væri það seinlegt. Jeg greip fram í ræðu hv. samþm. míns, þegar hann sagði, að lögin frá 1914 hefðu verið afnumin í fyrra. Það er ekki rjett. Breytingin, sem var gerð í fyrra, var ekki önnur en sú, að afnumin var baðlyfjaeinokunin, sem staðið hefir um nokkur ár.

Þá greip jeg fram í ræðu hv. þm. V.-Ísf. (JAJ), þegar hann var að bregða íslenskri bændastjett um ómensku, fyrir að hafa ekki gengið milli bols og höfuðs á kláðanum, og fullyrti hann, að við værum einir um að ala þennan sjúkdóm. Jeg spurði þá: Hvers vegna ala Skotar hann? Hv. frsm. minni hl. (ÁJ) vildi verja Skota og hjelt því fram, að þeir hefðu enga sjerstaka ástæðu til að útrýma kláðanum, t. d. markaðsástæður, eins og við. Jeg veit ekki, hvort það eru þessar markaðsástæður, sem þm. hafði í huga, þegar hann var að bregða mönnum um það, að þeir hefðu sneitt hjá að tala um aðalefni málsins, og skal þá víkja að því.

Jeg hefi ekki á móti því, að athugað sje í sambandi við þetta mál, hvað hægt er að gera til að bæta markaðinn fyrir sauðfje og kjötframleiðslu okkar. En jeg dreg mjög í efa, að þær vonir rætist, að við fáum að flytja lifandi fje til Englands og hafa það þar í eldi, eins og í gamla daga, þótt við gætum útrýmt kláðanum. Og ástæðan er m. a. sú, að hjer er um einskonar verndartoll að ræða, þó að Englendingar þykist vera fríverslunarþjóð og vilji ekki í orði kveðnu viðurkenna verndartolla. Að þetta innflutningsbann er í raun og veru verndartollur og kláðaviðbáran aðeins fyrirsláttur, má sjá af því, að í sauðfje Englendinga sjálfra er kláði, og því ástæðulaust að banna innflutning fjár, sem hafa kynni sama sjúkdóm. Nei, þetta eru bara yfirskinsástæður og orsökin alt önnur en sú, sem látin er uppi. Og það má geta nærri, að ekki yrðu nein vandræði úr að finna aðrar yfirskinsástæður, þó að þessari væri hrundið. Og þó að við fullyrtum, að kláða væri útrýmt hjer að fullu, er ekki víst, að Englendingar vildu leggja trúnað á það. Því miður eru litlar líkur til að við náum nokkurntíma þeim markaði í Englandi, sem okkur væri hagfeldastur.

Þá sagði hv. þm. (ÁJ), að jeg hefði haldið vel rökstudda ræðu um þetta efni í fyrra, sem hefði farið í gagnstæða átt við till. mínar nú. Mjer þykir auðvitað vænt um lofið. En jeg hefi þegar gert grein fyrir ástæðum mínum. Í fyrra bygði jeg á þeirri fullyrðingu sjerfræðings, að útrýmingarböðun væri örugg til að losna við kláðann fyrir fult og alt. Því gekk jeg að tillögum hans, eins og þær lágu fyrir. Nú er þetta dregið í efa af öðrum sjerfræðingi, og verður víst altaf hæpið að fullyrða nokkuð um það, hvor hafi rjettara.

Jeg hefi nú reynt að slá svolítið á þá áköfu forvitni formælenda þessa frv., sem fram kom í byrjun, og hirði jeg ekki að fara frekar út í þetta. Munurinn á afstöðu okkar er sá, að þeir álita sín ráð örugg til þess að útrýma kláðanum að fullu. Við erum ekki vissir um, að svo sje. Þeir byggja á trú, og það má segja, að við gerum það líka. En okkar ástæður eru eins rjettmætar og þeirra. Ýmsir af fylgjendum frv. hafa komist svo að orði, að þeir vildu gera þessa til raun til útrýmingar kláðanum. Jeg verð að segja það, að ef líta skal á þessa fyrirhuguðu útrýmingarböðun aðeins sem tilraun og ekki má telja örugga vissu fyrir því, að hún komi að tilætluðu gagni, þá tel jeg óforsvaranlegt að leggja út í hana.