08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (2533)

11. mál, útrýming fjárkláða

Klemens Jónsson:

Það vill verða svo að þessu sinni, eins og altaf áður, þegar fjárkláðamálið kemur til umræðu hjer á þingi, að það verða bæði miklar og langar umr. um það. Menn þurfa ekki annað en líta í Alþingistíðindin frá 1859; þá leynir það sjer ekki, að þau eru lengri en nokkur önnur fyrir þann tíma, og það var einmitt fjárkláðamálið og umræðurnar um hann, sem voru lengdinni valdandi, og þau geta enda staðið á sporði öllum ráðgefandi þingum fram að 1875, og voru þó mörg hitamál til umræðu á því tímabili, t. d. stjórnarskrármálið og fjárhagsmálið. Fjárkláðamálið hefir altaf verið hitamál mikið, og þó að það hafi farið fram heldur rólegar umræður að þessu sinni á yfirborðinu, þá er þó talsverður hiti undir niðri. Mörgum kann að finnast þær ræður, sem hjer eru haldnar, of langar, og má vel vera, að það sje rjett. En það er ekki hægt að neita því, að það hefir græðst ekki svo lítið á þessum umræðum; það hafa komið fram margar skoðanir, og álit margra hv. þm. fer mjög í bága við álit annara, og margt upplýsist, svo að ekki verður sagt annað en að talsvert græðist þó við allar þessar umræður.

Vegna þess að mitt kjördæmi er eingöngu landbúnaðarkjördæmi, finst mjer það skylda mín, að gera hjer nokkra grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli. En jeg skal lofa því, að verða ekki mjög langorður, enda býst jeg ekki við, að mikið græðist á mínum orðum.

Jeg hefi altaf verið hlyntur útrýmingarböðun, sjerstaklega síðan jeg sá, hvað Myklestad varð mikið ágengt. Hann byrjaði í Eyjafjarðarsýslu 1903, og jeg var viðstaddur fyrstu baðanirnar og sá, hve árangur þeirra kom fljótt í ljós. Þá munu það hafa verið fáar sveitir, þar sem kláði var jafnmikill og í Kaupangssveit, og víðar var hann frammi í firðinum. En nú sýna opinberar skýrslur það, ef þær er nokkuð að marka, að í Eyjafjarðarsýslu, framan við Akureyri, er enginn kláði. Þetta tel jeg góðan árangur af útrýmingarböðun Myklestads, að þar, nú eftir 24 ár, finst enginn kláði, þar sem alt var útsteypt áður. Og þetta sýnir, að hægt er að útrýma kláðanum, ef rjett er farið að. En víða, þar sem böðunin fór fram undir eftirliti annara en Myklestads sjálfs, var hún ekki annað en kák, og kláðinn kom upp jafnharðan aftur. Myklestad kendi þetta ódugnaði þeirra, sem áttu að sjá um böðunina, og hirðuleysi og óhlýðni bænda.

Að fengnum upplýsingum get jeg nú fullyrt, að enginn kláði er í Rangárvallasýslu. Þau grunsömu tilfelli, sem fyrir hafa komið, hefir hv. samþm. minn (EJ) fullvissað mig um, að ekki sje kláði, heldur aðeins óþrif í fje, og að þau stafi af vosbúð. Þess vegna er von, að bændum í kláðalausu hjeraði blöskri að leggja út í þann feikna kostnað, sem útrýmingarböðun er samfara og þeir telja óþarfan. Og jeg hefi fengið bæði munnlegar og skriflegar áskoranir um það, að vera á móti útrýmingarböðun, eins og nú stendur. Fyrir mig er ærin ástæða til þess að vera á móti frv. á þskj. 11, þrátt fyrir þá skoðun, sem jeg kann að hafa haft áður á útrýmingarböðunum. Eftir þeim umr., sem hjer hafa farið fram um málið, hefi jeg talsvert bifast í þeirri trú, að kláðanum verði útrýmt, að minsta kosti með þessu móti, því að það er sýnt og sannað, að kláðinn getur lifað í þrjá mánuði í húsum og út um haga. En kunnugur maður hefir fullyrt við mig, að ekki sje hægt að smala öllu því fje, sem á Þórsmörk gengur, og er þá auðsætt, að þær kindur geta haldið áfram að smita, þrátt fyrir böðun, þegar hið baðaða fje kemur saman við þær. Og víðar mun hið sama eiga sjer stað.

Jeg hygg því, að rjett sje að láta mál þetta bíða fyrst um sinn og undirbúa það betur, og að fá að minsta kosti álit og tillögur sýslunefnda áður en nokkuð er afráðið um, hvað gera skuli. Og mjer skildist á hæstv. atvrh. (MG), að honum væri ekkert sjerlega umhugað um það, hvort úr framkvæmdum yrði einu ári fyr eða síðar. Í sýslunefndum eiga bændur sæti, þeir mennirnir, sem mest eiga undir því, hvernig þessu máli er ráðið og hvort leggja á í þennan gífurlega kostnað. Og það má ekki ráðast í framkvæmdir í þessu efni fyr en einmitt bændur hafa sagt til, hvað þeir vilja. Það er líka upplýst, að lítið er um kláða í landinu og að hann er í rjenun. Þetta mál getur því vel þolað bið í eitt ár eða svo.