20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

11. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson):

Jeg hefði haft ástæðu til þess að fara nokkrum almennum orðum um málið að þessu sinni, því að jeg fjell frá orðinu við 2. umr. og átti því ýmsu ósvarað þá, og ætti því fullkominn rjett á að fara nokkuð frekar út í málið, mínum málstað til skýringar. En bæði vegna þess að nú er orðið áliðið þings og jeg vil gera alt, sem jeg get, til þess að flýta fyrir málinu, svo og vegna hins, að jeg býst ekki við því, að langar ræður muni hafa áhrif á úrslitin, ætla jeg að falla frá því að tala alment um málið. Jeg vil aðeins geta þess, að jeg get eftir atvikum sætt mig við brtt. á þskj. 379, þó að jeg hefði að vísu heldur kosið frv. óbreytt. En jeg mun greiða þessum brtt. atkvæði, vegna þess að jeg tel málinu betur borgið á þann hátt. Að því er snertir viðaukatill. hv. þm. V.-Sk. og brtt. hv. 1. þm. Rang., þá hefir hv. þm. Barð. sagt alt um þær, sem segja þarf. Jeg álít þær till. ekki geta komið til mála í þessu sambandi og er algerlega á móti þeim.