22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (2550)

11. mál, útrýming fjárkláða

Tryggvi Þórhallsson:

Það er nú orðið svo langt síðan jeg kvaddi mjer hljóðs, að jeg er búinn að gleyma því, sem jeg vildi sagt hafa. Og satt að segja eru nú orðnar svo miklar umræður um þetta mál, að ekki ætti að vera þörf á að bæta miklu við, enda munu nú allir hafa ráðið það við sig, hvernig þeir greiða atkvæði.

Mjer finst eftir þær brtt., sem við höfum borið fram á þskj. 379, svo langt vera gengið og lítið á milli bera, að fult samkomulag ætti að geta komist á. En það verð jeg að segja, að það væri þinginu til lítils sóma að afgreiða málið á þeim grundvelli, sem hv. landbn. leggur til. En aðallega tek jeg til máls vegna brtt. frá hv. þm. V.-Sk. (JK) og hv. 1.þm. Rang. (KlJ), um að undanþiggja Skaftafellssýslu, Vestmannaeyjar og Rangárvallasýslu frá böðun, af því að fullvíst sje, að þar sje enginn kláði. Hann hafi ekki verið í þessum sýslum og muni ekki koma þangað. Jeg get upplýst, að á prestsetrinu undir Eyjafjöllum, sem er austast í Rangárvallasýslu, voru tvær kláðakindur síðastliðið vor. Presturinn í Holti hafði fengið kynbótahrút norðan úr Þingeyjarsýslu, sem reyndist vera með kláða. Hrúturinn var drepinn til öryggis, en annar hrútur, sem með honum var, fekk óþrif á eftir. Þarna eru svo miklar samgöngur milli hjeraða, að engar líkur eru til, að nokkurt sýslufjelag gæti fengið að vera undanþegið útrýmingarböðun, og það kemur blátt áfram ekki til mála um Rangárvallasýslu. Undan Eyjafjöllum er fje rekið til slátrunar að Vík í Mýrdal. Ef kláði kemst undir Eyjafjöllin, kemur hann því einnig til Víkur. Jeg vildi aðeins benda á, að það er ekkert vit í slíkri undanlátssemi sem þessari ívilnun. Okkar tillögur eru á fullum rökum bygðar, og jeg vona, að samkomulag verði um afgreiðslu málsins á þeim grundvelli.