20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (2566)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Frsm. meiri hl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Eins og kunnugt er, er liðin vika frá því að mál þetta var síðast til umræðu hjer í deildinni. En sem betur fer, er minni mitt ekki svo, að jeg muni ekki eftir mörgu, sem þá var sagt og svara þarf. Jeg skal eigi að síður ekki verða langorð, því að þess gerist ekki þörf, þar sem margt, sem háttv. flm. taldi mig hafa sagt, var gripið úr lausu lofti og því ekki svara vert.

Háttv. flm. fann mjer það mest til foráttu, að jeg hefði haft á móti Hallormsstað sem skólasetri. Slíkar aðfinslur læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, því að það er sannfæring mín, að margir aðrir staðir á Austurlandi sjeu betur fallnir til skólaseturs en Hallormsstaður.

Að jeg hafi sagt, að húsmæðraskóli á Austurlandi væri alveg óþarfur, eru bláber ósannindi og ekkert annað. Þykir mjer þó leitt að þurfa að lýsa nokkurn mann ósannindamann, en hjá því verður ekki komist nú. Jeg hefi skrifað þetta niður eftir þm.

Það getur engum manni dulist, að rjettasta leiðin með þetta mál er sú, að vísa því til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá. Það er sú leið, sem oftar ætti að fara með ýms mál, og hefði það verið gert meira en verið hefir með mörg hin illa hugsuðu mál, sem borin hafa verið fram í þinginu, þá hefði farið betur en farið hefir um sum þeirra.

Jeg fæ ekki sjeð, hvaða gagn það hefði gert á þessu stigi málsins, þó að jeg hefði komið fram með ákveðnar áætlanir um það, hvernig húsmæðrafræðslunni skyldi skipað í framtíðinni. Það er bara heimska að vera að fara fram á slíkt nú. Besta úrlausn þessa máls, eins og það er nú í garðinn búið, er að vísa því til stjórnarinnar til frekari athugunar.

Að sjálfsögðu skal jeg játa það, að svo framarlega sem húsmæðraskólarnir eiga að vera fjórir á landinu, þá á vitanlega einn að vera á Austurlandi. En eigi þeir ekki að vera nema tveir, þá getur altaf verið álitamál, í hvern landsfjórðunginn þeir eru settir.

Það er ekki í fyrsta sinn, sem því er haldið fram, að jeg sje á móti húsmæðrafræðslu í landinu. Þetta gerir mjer ekkert til. Jeg hefi nógu breitt bakið til þess að bera þær ásakanir. Reyslan ein hefir sýnt og mun sýna, á hve miklum rökum þær eru bygðar.

Að jeg hafi sagt, að Eiðar væru hentugri staður fyrir húsmæðraskóla en Hallormsstaður, skal jeg standa við. Jeg taldi Eiða betri að því leyti, að þar er unglingaskóli fyrir, og jeg býst við, að skólahúsið þar sje bygt eins og flest önnur hús, að byggja megi viðbótarbyggingu við einhverja hlið þess. Auk þess er betri akvegur þangað en að Hallormsstað, og því betra til aðdrátta.

Að allir Austfirðingar standi með því, að koma upp húsmæðraskóla á Hallormsstað, verð jeg að leyfa mjer að draga í efa. Jeg býst við, að enginn geti sagt um það að svo vöxnu máli.

Þá er eldiviðarspursmálið. Um það áttum við háttv. flm. tal í gær. Hann taldi það mikil meðmæli með Hallormsstað sem skólasetri, að hægt væri að fá eldsneyti úr skóginum til upphitunar. Þar get jeg ekki verið á sama máli, því eftir því sem jeg til þekki, þá er Hallormsstaðaskógur ekki svo stór, að höggva megi hann ótakmarkað í framtíðinni. Annars býst jeg við, að á væntanlegum skóla verði notuð nýtísku eldfæri, og því að mestu leyti brent kolum, viður aðeins notaður til uppkveikju.

Þó að jeg hafi minst á Hallormsstað í sambandi við hressingarhæli, þá fæ jeg ekki sjeð, að rjett sje að nota slíkt til ófrægðar mjer. Jeg tel nauðsynlegt, að þjóðin eignist hressingarhæli, því að þótt nauðsynlegt sje að menta unga fólkið, þá kemur það, því miður, ekki ósjaldan fyrir, að bæði þeir, er nám stunda, og margir aðrir, missa heilsu sína og þurfa að sækja sjúkrahús, og er þá engu síður áríðandi að hjálpa þeim til heilsu aftur, en hressingarhælin eru ekki óverulegur liður í því starfi. Fjöldi sjúklinga, sem koma af sjúkrahúsum eða heilsuhælunum, eiga ekki svo góðum heimilum að að hverfa, að telja megi þeim þar borgið. Fyrir slíka menn eru hressingarhæli gerð.

Að í ræðu minni hafi kent vantrausts á konu þeirri, sem Austfirðingar hafa sjerstaklega augastað á til þess að veita hinum umrædda húsmæðraskóla forstöðu, verð jeg fullkomlega að mótmæla. Jeg hefi þvert á móti viðurkent, að hún hefði marga þá kosti til að bera, sem konur þurfa að vera búnar til þess að veita slíkum skóla forstöðu. Það eina, sem jeg hefi sagt, er, að hún hafi ekki sjerstaklega kynt sjer það, sem að húsmæðrafræðslu lýtur.

Það er rjett, að jeg álít skólann of stóran, og reynsla mín um 21 árs bil sýnir þetta og sannar, að skólinn er of stór, miðað við þarfir Austfjarða. Hv. flm. taldi upp, hve margar stúlkur frá 15–25 ára aldri væru í Austfirðingafjórðungi, og hann gerði ráð fyrir því, að 14 hluti þeirra mundu sækja skólann. Þetta eru nú ekkert annað en tölur, tölur — ósannaðar tölur. Enginn heilvita maður leggur til, að neinn fari að stunda sjernám, sá, er ekki er eldri en 15 ára. Hver nemandi á húsmæðraskóla þarf að minsta kosti að vera 17–18 ára og hafa áður numið öll hin algengustu húsverk og matreiðslu, ef hann á að hafa full not af skólavistinni. Þetta er álit manna í öllum löndum, þar sem jeg þekki til og hefi kynst, og hv. flm. getur spurst fyrir um það, hvort þetta sje ekki rjett. Hliðstæðir skólar þessum setja aldurstakmarkið 18 ár, þó að einstöku undantekningar sjeu gerðar með 17 ára gamlar stúlkur. Hjer er ekki verið að ræða um neitt kák, heldur vinnubrögð fyrir þroskaða nemendur.

Hv. flm. sagði, að jeg hefði getið þess, að konan hefði sál. Jú, það er rjett, jeg sagði það, en jeg ætla ekki að fara að rökstyðja það neitt. En það tel jeg gott, að áhugi er vaknaður hjá mörgum þingmönnum og öðrum fyrir því, að bæta aðstöðu kvenna og auka sjermentun þeirra; en þó þetta sje gott, þá held jeg því fram, að ekki dugi að einblína á sjermentunina eina. Nútíminn heimtar meira af konunum, og þær vilja fá tækifæri til þess að búa sig undir störf á sem flestum sviðum.

Jeg er viss um, að margar af þeim konum, sem hv. flm. telur, að sækja muni þennan fyrirhugaða húsmæðraskóla, mundu sækja aðra skóla, verslunarskóla, kvennaskóla, kennaraskóla og jafnvel búnaðarskóla. Jeg hefi heyrt, að ein kona hafi sótt um inntöku í búnaðarskóla.

Jeg spurði hv. flm. um það, hvað skólasjóðurinn væri stór og fjekk um það upplýsingar hjá honum. Jeg tel enga von til þess, að sjóðurinn sje stærri en þetta, því að það er skamt síðan austfirskar konur fóru að safna fje til hans. Af þeirri ástæðu er og enn meiri hvöt til þess fyrir okkur að fresta málinu. Jeg vil hjer í þessu sambandi taka það fram, til að fyrirbyggja allan misskilning, að jeg er því á engan hátt mótfallin, að austfirskar konur fái sinn sjerstaka húsmæðraskóla. Kynni mín af þeim eru jafngömul og starf mitt við þann skóla, er jeg nú veiti forstöðu, eða síðan 1894, og úr Austfirðingafjórðungi eru og hafa verið margar ágætar og jafnvel bestu námsmeyjar mínar. Jeg trúi því sem sagt ekki, að þær muni halda, að jeg sje að leggjast á móti þeim. En jeg vona, að þeim safnist svo tje, að ekki verði fjárskortur því til fyrirstöðu, að skólinn verði reistur, þegar nagur undirbúningur er fenginn.

Það er rjett, að ferðir til og frá Reykjavík eru dýrar. En þó skóli komist upp á Hallormsstað, þá er spurningin sú, hvort nemendur sækja ekki út og suður, austur og vestur, eins fyrir því. Það er nú einu sinni svo, að menn vilja hafa frjálsræði og kanna ókunna stigu.

Jeg hefi viljað leggja frú Sigrúnu Blöndal fje úr ríkissjóði til húsmæðrafræðslu, í stað þeirrar kenslu, er hún hefir undanfarin ár haldið uppi í Mjóanesi. Með þeirri tilraun fæst nokkur reynsla fyrir því, hve stór skólinn þyrfti að vera. Jeg álít, að það verði affarasælast, hjer eins og víðar, að byrja í smáum stíl, en auka síðan kensluna eftir þörfum.