20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Ingvar Pálmason:

Vegna þess að nú fer að líða að andláti hv. frsm. (IHB), skal jeg ekki fara hörðum orðum um ræðu hans, en verð þó að svara nokkru.

Hv. frsm. byrjaði á því að staðhæfa, að rök mín væru úr lausu lofti gripin. Það var nú bara einn galli á þessu, og hann nokkuð stór, að hv. frsm. gat ekki fært nein rök fyrir þessu. Jeg lít því svo á, að mín rök standi óhögguð og get síðar sýnt fram á, að svo er.

Hv. þm.(IHB) sagði, að jeg hefði borið sjer það á brýn við fyrri umr., að þm. hefði sagt, að skóli þessi væri óþarfur. Þetta er ekki rjett hjá hv. þm. Jeg sagði, að hann hefði sagt, að skólinn væri óþarflega stór. Þá sagði hv. þm., að það væri eins og hver önnur heimska, að ætlast til þess, að hann kæmi fram með ákveðnar till. í þessu skólamáli. En hvar á að fá fróðleik um slík skólamál og þessi hjer á hv. Alþingi, ef ekki hjá hv. 2. landsk. Hann sagðist hafa stjórnað kvennaskólanum í Reykjavík í 21 ár. Mjer vitanlega er ekki víða um meiri reynslu í þessum efnum að ræða hjer á landi. Jeg get því ekki sjeð, að það lýsi neinni heimsku hjá mjer, þó að jeg hafi það álit, að hv. þm. (IHB) geti lagt betra til þessara mála en við hinir, sem aldrei höfum fengist neitt við kvennafræðslu. Jeg get heldur ekki sjeð, að í frv. sje aðeins gert ráð fyrir tveim húsmæðraskólum á landinu; frv. segir ekkert um það. Þá mintist hv. þm. á skólasetrið á Eiðum, og var ekki sannfærður um, að ekki mætti spara fje með því að byggja við skólann þar handa þessum skóla. Hv. 1. landsk. hefir svarað þessu, og hefi jeg engu þar við að bæla. Það væri máske hægt að koma þar upp skúr, við annan enda skólahússins, en jeg held það yrði hvorki fögur eða vegleg bygging, þó hv. 2. landsk. (IHB) kynni að þykja það hæfilegt hæli fyrir húsmæðraskóla.

Þá sagði hv. þm. (IHB), að það væri ein af mínum vanalegu fullyrðingum, er jeg sagði, að allir Austfirðingar væru því samþykkir að hafa skólann á Hallormsstað. En hv. þm. getur ekki sannað hið gagnstæða.

Þá mintist hv. þm. á Hallormsstaðaskóg í sambandi við eldiviðinn, sem skólinn mundi geta fengið úr skóginum, og sagði, að það yrði að vera sett trygging fyrir því, að skóginum yrði ekki eytt. En jeg vil spyrja hv. þm., hvort hann hefir nokkra hugmynd um, hve marga hestburði af eldivið er hægt að fá úr skóginum árlega með hæfilegri grisjun.

Hv. þm. játar, að Eiðar hafi ekki verið vel valið skólasetur, þegar þeir voru teknir undir alþýðuskólann. En nú eru þeir orðnir nógu góðir, þegar um húsmæðraskóla er að ræða. Hvaða samræmi er í þessu hjá hv. þm.?

Þá talaði hv. þm. um hressingarhæli í þessu sambandi. Jeg skal fúslega viðurkenna það, að hv. þm. hefir sýnt mjög lofsverðan áhuga í því máli, en hann á að geta haft áhuga á fleiru. Jeg ætla mjer á engan hátt að draga úr virðingarverðri starfsemi hv. þm. um það, að stofna hressingarhæli fyrir veiklað fólk. En jeg vildi aðeins benda honum á, að það er fleira, sem nauðsynlegt er að gera á þessu landi.

Þá vildi hv. þm. ekki kannast við, að hann hefði dregið úr hæfileikum frú Sigrúnar til þess að veita húsmæðraskólanum forstöðu, en sagði þó um leið, að hana vantaði sjermentun í þessu efni. Jeg hefi ekki haldið öðru fram um þetta. En þó að frú Sigrún hafi ekki fengið mentun í neinum sjerskóla, þá hefir hún fengið hana í skóla lífsins og sýnt hæfileika sína í verki, svo eigi verður með rökum móti mælt.

Þá talaði hv. þm. um stærð skólans; kvað hann of stóran og bar fyrir sig reynslu sína í þeim efnum. Það er auðvitað, að hv. þm. stendur vel að vígi um þetta atriði, vegna reynslu sinnar sem forstöðukona kvennaskólans í Reykjavík. En hv. þm. láðist að geta þess, hve mörgum er frá vísað árlega af þeim stúlkum, sem sækja um inntöku í hússtjórnardeild kvennaskólans. Jeg hygg, að þær sjeu ekki fáar. En auk þess eru það margar, sem ekki láta sjer detta í hug að sækja um inntöku, af því að þær vita, að þar er yfirhlaðið.

Þá kom hv. þm. að tölum, sem jeg nefndi í þessu sambandi, og sýndu ummæli hans, að honum var annað betur lagið en að fást við tölur. Hv. þm. dró í efa, að tölur mínar væru rjettar. En jeg vil aðeins benda honum á það, að Hagtíðindin sýna, að þær eru ekki fjarri sanni. Það stendur enn ómótmælt, að fjöldi kvenna í Múlasýslum er mjög nærri því, sem jeg sagði að hann væri, og síst minni.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði tekið rangan aldur, 15–20 ára, og sagði, að það væri of ungt. Það má vel vera, að það sje rjett. En jeg vil aðeins biðja hv. þm. að glíma betur við tölurnar en hann gerir. Hann tók t. d. aldurinn frá 18–27 ára. En sannleikurinn er sá, að þó tekinn sje sá aldur, kemur fram hjer um bil sama tala og sú, er jeg nefndi. Munurinn er því enginn, þó að aldurstakmarkið sje fært úr 15 og upp í 18 ár.

Jeg þykist hafa fært þau rök fyrir máli mínu, að erfitt verði fyrir hv. þm. (IHB), sem kominn er að andláti í þessu máli, að hrekja það í athugasemd þeirri, sem hann á eftir. Hv. þm. sagði, að það væri ánægjulegt, að vaknaður væri með þingmönnum áhugi á sjermentun kvenna. Já, það er svo. En því sorglegra er það, að sá hv. þm. (IHB), sem best skilyrði hefir til þess allra hv. þm. að koma fram með viturlegar till. í þessu máli, skuli kalla það heimsku hjá mjer, að jeg ætlast til, að hann komi okkur karlmönnunum til stuðnings og hjálpar með sínar gagnhugsuðu skipulagstillögur í málinu. Jeg játa það, að hv. þm. hafa oft sýnt tómlæti í þessum málum. En því verra er það, að viðtökurnar skuli ekki vera betri en hjá hv. þm. (IHB), þegar við loksins rumskumst og viljum fyrir alvöru fara að vinna fyrir málið.