20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í C-deild Alþingistíðinda. (2570)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Magnús Kristjánsson:

Það var eiginlega ætlun mín að víkja nokkrum orðum til hv. 1. landsk. út af ummælum hans um húsmæðraskólana. Nú hefir hv. 2. landsk. tekið þar af mjer ómakið, svo að jeg get verið mjög fáorður um það atriði, enda þótt jeg víki ef til vill síðar að því.

Jeg skil ekki, hvað er meint með hinni rökstuddu dagskrá hv. meiri hl., því að mjer sýnist málið fullkomlega tímabært og nægilega undirbúið. Því sje jeg enga ástæðu til að vísa því til stjórnarinnar, sem auðvitað er nokkurnveginn sama og að fella það. Nú eru til lög um stofnun húsmæðraskóla á Norðurlandi. Auk þess má telja vissa stofnun Staðarfellsskólans, og hjer er nokkur vísir til húsmæðraskóla. Því er ekki hægt að segja, að málið hafi ekki fengið nægilega fasta stefnu. Mjer virðist það einmitt vera skýr stefna Alþingis í þessu máli að hafa fjórðungaskóla til að menta konur. Hjer er fram komin till. um stofnun húsmæðraskóla á Austurlandi, og sje jeg ekki, að annað sje að gera en samþykkja þá tillögu, ef Alþingi vill vera sjálfu sjer samkvæmt. Menn eru að tala um ófullnægjandi undirbúning. Jeg verð að játa, að jeg skil ekki vel, við hvað þeir eiga. Mjer sýnist hjer ekki í ráði að flana að neinu, því að ekki á að hefjast handa fyr en viss skilyrði, sem talin eru í 6. gr. frv., eru fyrir hendi. Jeg held, að varla sje hægt að hugsa sjer undirbúning máls í öllu betra lagi. — En þótt jeg geti ekki aðhylst röksemdafærslu háttv. 2. landsk. um þetta atriði, get jeg þakkað þm. vörnina fyrir Norðurlandsskólann. Jeg hefi ekki heldur heyrt þennan hv. þm. (IHB) leggja á móti skólanum á Vesturlandi. Aðeins þykir þm. ekki fundin rjett undirstaða undir byggingu eða stofnun skóla á Austurlandi. En eins og jeg hefi leitast við að sanna, held jeg, að þegar sje búið að leggja undirstöðu þá, sem byggja megi á. Því er ágreiningur okkar hv. 2. landsk. í raun og veru ekki mikill.

Út af ummælum þeim, sem hjer hafa fallið um væntanlegan húsmæðraskóla á Norðurlandi, verð jeg að segja nokkur orð um það mál. Þegar um aldamót, er byrjað var að ræða um stofnun skólans, hófst mikill ágreiningur milli Eyfirðinga og Þingeyinga um það, hvar skólinn ætti að vera. Jeg var dálítið við þessa baráttu riðinn, og stóð hún látlaust alllangan tíma. Ýmsir mætustu Þingeyingar, svo sem Pjetur heitinn Jónsson frá Gautlöndum og Sigurður heitinn Jónsson frá Ystafelli, tóku mikinn þátt í baráttunni, og vildu auðvitað hafa skólann í sínu hjeraði. En það varð ofan á, að honum var ákveðinn staður í Eyjafirði, og var málið þar með útkljáð. Því furðar mig stórlega hin megna andúð, sem nú kemur fram hjá hv. 1. landsk. gegn skólanum í Eyjafirði. Jeg hugsa, að hún stafi frá löngu liðnum tímum; hann hefir drukkið hana í sig á unglingsárum, þegar hinir mætu menn, er jeg nefndi, voru að berjast fyrir því, að skólinn yrði í þeirra hjeraði. En þessir heiðursmenn urðu undir í málinu og sættu sig við það, svo að jeg hjelt, að þessi góði Þingeyingur (JJ) mætti eins una málalokunum. — Jeg ætla ekki að hafa eftir þau ómaklegu orð, sem hjer hafa fallið í garð kvenna á Akureyri. Þeim hefir hv. 2. landsk. svarað nógsamlega. En jeg vil mótmæla því, að skólabyggingin í Eyjafirði sje fram borin í trássi við hina rjettu aðila þessa máls, kvenþjóðina í báðum þeim sýslum, sem hjer eiga hlut að máli. Jeg skal benda á, að hjer á Alþingi eru til skjöl með undirskriftum tvö þúsund kvenna úr báðum sýslunum, jafnt úr Þingeyjarsýslu sem Eyjafirði — þar á meðal margra þingeyskra kvenna, sem lengi börðust fyrir að fá skólann til sín — og í þessum skjölum er farið fram á, að skólanum sje komið upp, þar sem lögin ákveða. Svona sýndu norðlenskar konur mikið vit og sanngirni. Þegar búið var að undirbúa málið, sendu þær Alþingi áskorun, sem var kröftugri en dæmi eru til í slíku máli. Því er ekki hægt að vekja andúð gegn skólanum á þeim grundvelli, að ekki liggi fyrir yfirlýstur vilji þeirra, er málið snertir.

Það virðist svo, sem hv. Nd. hafi að þessu sinni eigi álitið sjer fært að veita fje til stofnunar skólans. En það líða áreiðanlega ekki mörg ár, þangað til Alþingi verður þannig skipað, að sjálfsagt þykir að sinna þessu. Þá veit jeg að hv. 1. landsk. verður meðal bestu stuðningsmanna málsins. Og það bætir aldrei fyrir rjettmætum kröfum Austfirðinga, að þeir heimti þeim fullnægt á kostnað Norðlendinga, svo ágætlega sem þetta mál er undirbúið frá þeirra hálfu.

Loks vil jeg geta þess, að hvað snertir fjárframlög heima fyrir til skólans á Norðurlandi, má telja víst, að af þeim verði engin vandræði, því að sýslan hefir þegar lofað hinum hluta, og konur hafa safnað allríflegum sjóði. Fyrir þá sök verður enn erfiðara að standa á móti þessum rjettmætu kröfum.

Hitt skal jeg viðurkenna, sem hv. 1. landsk. sagði, að mikil ástæða er til að athuga, hvort ekki er vert að hlynna meira en gert hefir verið að þeim gróðri, sem nú er að gægjast fram í sveitum landsins um stofnun smáskóla eða námsskeiða í sveitum fyrir konur. En jeg álít skýrt markaða þá stefnu, að aðalhúsmæðraskólarnir verði 4. sinn í hverjum fjórðungi, og ríkið má ekki lengi skorast undan að greiða að sínum hluta tillag til þeirra. En varla er hægt að vænta þess, að auðhlaupið verði að fá fjárframlög úr ríkissjóði til þeirra smáskóla, er einstakar sýslur koma upp hjá sjer, nema því aðeins, að svo mikill áhugi sje kominn í ljós, að fjársöfnun sje hafin heima fyrir, með góðum árangri, málinu til stuðnings. Hugmyndirnar um húsmæðradeildir við hjeraðsskólana hafa ekki heldur fengið neitt fast form ennþá, og verða, að mjer finst, fyrst að koma niður á jörðina, áður en ríkissjóður fer að leggja þeim mikið fje. Einkum er áríðandi að koma fyrst upp hinum stærri húsmæðraskólum, sem telja má loforð gefin fyrir. Síðan má taka hina til athugunar.

Loks get jeg getið þess á ný, að jeg er hlyntur frv. því, er hjer liggur fyrir, og mun því greiða atkvæði með því, en móti dagskrártill. hv. meiri hl. mentmn.