20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (2571)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Hv. 2. landsk. (IHB) er nú fallin í valinn, og mun jeg ekki nota mjer það, en aðeins gera fáar athugasemdir við ræðu háttv. þm.

Jeg hefi fengið upplýsingar frá mjög áreiðanlegum og merkum manni, sem kunnugur er á Hallormsstað og hefir góða þekkingu á skógræktarmálefnum. Hann segir mjer, að ekki mundi saka, þótt höggvið væri í skóginum til eldsneytis handa stóru heimili. Eins og nú er, segir hann, að einmitt vanti markað fyrir skóginn, sem þarf að höggva.

Jeg hefi áður vikið að því, að mjer virðist hæstv. landsstjórn litla aðstöðu hafa til að undirbúa þetta mál. Þótt margir starfsmenn sjeu í stjórnarráðinu, eru þar engir þeir kraftar, er til þessa sje treystandi. Þar sem hæstv. stjórn um undirbúning venjulegra frv. leitar nær altaf til eins af prófessorunum við háskólann, þá skil jeg ekki, að hann fáist til að taka þetta að sjer, þar sem hann mun bera lítið skyn á húsmæðrafræðslu. — Það væri hreinlegra að drepa frv. alveg.

Bæði hv. 2. landsk. (IHB) og hv. 4. landsk. (MK) þykir jeg hafa farið ómjúkum orðum um konurnar á Akureyri, sem gert hafa morðtilraun við húsmæðradeildina við Laugaskóla. Jeg vil aðeins minna hv. þm. á, að jeg hefi fyllilega rökstutt mín orð um þessar konur, og hvorugur hinna hv. landsk. þm. hefir hrakið nokkurn staf af því, sem jeg sagði. — Það hafa komið fram tvær till. frá núverandi hv. þm. Ak., önnur um að veita fje til húsmæðraskóla á Akureyri, en annari fylgdi sá viðbætir, að drepa skyldi vísi þann, sem er til húsmæðrafræðslu í Þingeyjarsýslu. Jeg verð að álíta, að þær konur, sem standa í sambandi við hv. þm. Ak., hafi fengið hann til þess að túlka málið þannig fyrir þinginu. Hv. þm. greiddi að vísu atkv. með aðaltill., að útvega fje til skólans, en enginn af hans flokksmönnum gerði það. Þannig er auðsjeð, að hv. þm. hefir ekki lagt áherslu á að útvega fje á þann hátt, sem átti að gera. En þegar að því kom, að greiða atkv. um það, að skaða aðra skóla um leið og Akureyrarskóla var hjálpað, þá komu flokksmenn hv. 2. landsk. (IHB) til stuðnings. Atkvgr. liggur skýrt og greinilega fyrir, og tel jeg hana sýna það, að þeir, sem nú gangast fyrir málinu, leggja aðalstund á það, að skaða nábúann. Ef það væri ekki, þá hefði stuðningsmaður málsins reynt að afla því fylgis á hreinum og eðlilegum grundvelli. Meðan hv. 2. landsk. og aðrir, sem fylgja þessu, geta ekki komið með eðlilegri skýringu en þá, sem jeg kom með, þá stendur hún óhögguð. Atkvgr. sýnir sig.

Hvað hv. 2. landsk. gerir í þessu máli, læt jeg ósagt, en mjer þykir ekki ólíklegt, að hann fari þessa sömu leið og fyrirsvarsmaður Akureyrarkvennanna hefir gert í Nd., að hjálpa málinu áfram með því að skaða aðra um leið. Það stendur þess vegna upp á þá, sem hafa verið að reyna að halda uppi vörnum fyrir þessum aðgerðum, en ekki mig, því að jeg er búinn að sanna mitt mál.

Ástæðan til þess, að jeg dró þetta inn í umr., var sú, að jeg vildi benda hv. 2. landsk. á það, að þessi aðstaða Akureyrarkvennanna mundi ekki bæta hót fyrir þeirra máli. Mjer finst hún eitt með því ljótasta, sem jeg hefi vitað gert hjer á Alþingi. Jafnframt vil jeg leiðrjetta það, sem sagt var hjer í deildinni, að eyfirskar konur stæðu að þessari árás á nábúann. Náttúrlega má segja, að Akureyri sje í Eyjafirði. En fyrir mjer er þetta ljóst, af því að jeg þekki gang málsins áður, að það muni vera íhaldskonur á Akureyri, sem skeytið upplesna var frá, og standa yfirleitt að þessari bardagaaðferð. Það hafa sem sje nokkrar konur, tilheyrandi þeirri lífsstefnu, legið í deilum við sveitakonur frá upphafi þessa máls, eins og hv. 4. landsk. rjettilega gat um.

Þegar hv. fyrv. þm. Ak., núverandi 1. landsk. (MK) tók að sjer málið og kom því með miklum dugnaði gegnum þingið 1917, þá gerði hann og þingið það, sem hægt var á því stigi málsins. En hvað vantaði? Það vantaði forgönguna heima fyrir í hjeraðinu. Og hún brást. Og það var af því, að íhaldskonur á Akureyri, sem nú vafalaust standa í sambandi við þingmann sinn, þær hafa viljað halda fram sínu gamla stríði við sveitakonur. Þess vegna er málið nú borið svona fram.

Það er því eiginlega ekki viðeigandi gagnvart þeim mönnum, sem hafa beitt sjer fyrir málinu á almennum grundvelli, svo sem hv. 4. landsk. (MK), að setja þá á sama bekk og þá menn, er hafa haft þá málafærslu, sem notuð hefir verið í Nd. af núverandi þm. Ak. (BL). Jeg vona, að það verði ekki misskilið, að þeir, sem jeg áfellist í þessu máli, eru aðstandendur þeirrar núverandi málsmeðferðar núv. þm. Ak. (BL), sem hefir gefið þann sterka grun um, að samherjar hans, „færar“ konur á Akureyri, hafi blandað sjer í málið og haft spillandi áhrif á þingmanninn.

Þá var það enn látið í ljós af stuðningsmönnum dagskrárinnar, að það vantaði heildarskipulag á kvennaskólamálin. (IHB: Á húsmæðraskólamálin.) Já, húsmæðraskólamálin. En jeg var einmitt að hugsa um kvennaskólana, því að jeg ætlaði að minnast á það, að þegar í hitteðfyrra var verið að tala um að gera ónefndan kvennaskóla að ríkisstofnun, þá var eiginlega ekki til neitt heildarskipulag um þá. Og þó stóð það ekki fyrir því, að meiri hl. deildarinnar samþ. það frv. Þeirra hluta vegna held jeg því að mætti undirbúa þennan kvennaskóla á Austurlandi.

Jeg verð að játa, að þegar jeg spurði fulltrúa kvenna að því hjer í deildinni, hvað mætti álíta forsvaranlegt í heildarskipulagi um húsmæðraskóla, þá stakk jeg upp á, að það yrði varla talað um færri en 4 skóla. Þetta vakir nú fyrir hv. 2. landsk. (IHB). En jeg vil benda á það, að það sýnist nú eiginlega ómögulegt að koma kröfum fólksins inn í þennan ramma. Jeg skal játa, að það var að vísu nokkuð frjálslynt, sem hv. 4. landsk. (MK) talaði um, sem sje 4 ríkisstofnanir, í Reykjavík, Akureyri, á Vesturlandi og Austurlandi. En nú er þess að geta, að kvennaskólinn hjer og deildin á Akureyri reka sig á sama skerið, sem er sá mikli aðstöðumunur sveitakvenna og kaupstaðakvenna. Jeg geri ráð fyrir, að skólinn hjer sje góður og hafi gert eins mikið gagn og hægt er með því húsnæði, sem hann hefir. En hann hefir verið miklu frekar fyrir bæjarkonur, vegna aðstöðunnar. Það er ekki hægt að reka neinn búskap í sambandi við hann, ekki einu sinni hægt að koma við garðrækt. Þarna vantar nokkuð fyrir sveitakonur.

Mjer dettur ekki annað í hug en að Sunnlendingar geri kröfu um að fá deild hjá sjer fyrir sveitakonur, þegar skóli þeirra er risinn upp, þar sem kend verði hússtjórn, eins og hún horfir við sveitafólki, með garðrækt, mjólkurmeðferð og þess háttar. Jeg þykist fullviss um, að hjer í Reykjavík er ekki aðstaða til þess að fullnægja báðum aðilum. Við verðum að hafa skóla í Reykjavík fyrir bæjarkonur og skóla í sveit fyrir sveitakonur.

Á Ísafirði er komin upp hússtjórnardeild með tveimur námsskeiðum. Er hún sögð góð og aðsókn talsvert mikil. Þessi skóli nýtur sjerstaks trausts þingsins, því að hann fær mest á fjárlögum 1928 af þeim sjerstöku skólum, sem þar eru upp taldir. Svo kemur Blönduósskólinn, sem jeg hygg, að allir hv. þdm. sjeu ekki nægilega kunnugir. Hann er orðinn langsamlega stærsti húsmæðraskóli landsins. Þar munu vera um 40–50 stúlkur; eru þær 2–3 vetur í skólanum. Þar er að verða fjölbreytt vinnukensla. Þótt ekki sje kominn ennþá búskapur eða mjólkurmeðferð í sambandi við þann skóla, þá má segja, að hann fullnægi nokkuð vel kröfum til húsmæðraskóla.

Það er hvorki meira nje minna en stór skóli á Ísafirði, og stærsti kvennaskóli landsins í Húnavatnssýslu utan við þann ramma, sem frjálslyndum mönnum, eins og hv. 4. landsk. (MK), þykir hæfilegur til að leysa skólaspursmálið.

Nú liggur fyrir umsókn frá merkri konu í Eyjafirði, sem hefir staðið fyrir gróðrarstöðinni á Akureyri, og er vel mentuð kona. Óskar hún styrks til þess að hafa skóla í Eyjafirði, þar sem sjerstaklega sje kend jarðrækt og sveitavinna öll, á 10 mánaða námsskeiði að minsta kosti. Mjer er fullkunnugt, að þetta mál hefir töluvert fylgi í Eyjafirði.

Jeg get skotið því í allri vinsemd til hv. 4. landsk., að jeg hefi grun um, að nú sje að taka sig upp á ný sá gamli krítur, sem var, áður en tókst að leysa málið 1917, milli þeirra kvenna, sem eitt hlaðið mundi kalla burgeisakonur, og sveitakvenna. Það munu einmitt hafa verið þessar burgeisakonur á Akureyri, sem hafa staðið að þessu símskeyti, sem átti að drepa húsmæðrafræðslu Þingeyinganna.

Heyrt hefi jeg þess getið til af glöggum Eyfirðingum, að þeir vilji skifta þessu þannig, að láta konur á Akureyri fá skóla, sem hæfir þeim, og svo komi aftur skóli í sveit fyrir eyfirskar konur. Ekki skal jeg segja, hvort þetta verður; en ef hv. 4. landsk. finst þessi hugsunarháttur bera vott um undanhald frá þeirri braut, sem hann lagði þessu máli, þá væri það misskilningur. En hann verður að gæta að því, að bak við hans góða vilja á þingi lá klofningur heima fyrir. Jeg dreg ekki í efa, að 1917 hefði verið hægt að safna undirskriftum fjölda kvenna um að leysa málið þannig. En nú hefir ekkert frá þeim heyrst, og það held jeg sje af því, að þessar konur á Akureyri hafi talið hv. 4. landsk. vera búinn að leysa málið. Þær hafa misskilið það, að eftir var það, sem venjulega er þyngst, en það er að hrinda málinu fram heima fyrir.

Jeg tel nú allar líkur til þess, að þessi deild á Laugum mundi dafna prýðilega, þótt einhver skóli væri á Akureyri. Við vitum, að það er stór og mikill skóli á Akureyri, sem landið kostar alveg; en í raun og veru er hlutfallslega miklu meiri aðsókn að ungmennaskólanum á Laugum. Jeg hefi ástæðu til að halda, að húsmæðradeildin þar mundi hafa líka sín sjerstæðu viðfangsefni.

Jeg vil sjerstaklega mælast til þess af hv. 4. landsk., að hann taki til greina, að hjer er jeg aðeins að „kritisera“ þessar aðfarir í Nd. En það er ekki rjett til getið hjá hv. 4. landsk., að jeg hafi drukkið í mig andúð gegn þessari hugmynd um skóla á Akureyri. Jeg hefi fengið nokkra þekkingu á málinu fyr og síðar; mjer er ljós frá upphafi klofningin í málinu milli efnaðra bæjakvenna og sveitakvenna. Það mun verða álitið, að jeg hafi staðið ekki síður en hver annar með heilsuhælismálinu, og þarf jeg vart að bera kinnroða fyrir að hafa ekki stutt góð mál Norðlendinga sem annara, eftir föngum. En jeg vil benda á, að jeg hefi frá byrjun haft nokkurn veginn ljósa hugmynd um það, að ekki hæfir að spenna sömu megingjörð um einyrkjakonu í sveit, sem berst áfram vinnukonulaus vetur og sumar með mörg börn, eins og þær konur, sem altaf mega lifa í hóglífi. Matreiðslan og hússtjórnin í sveitum er ólík og hjá eyðslusömum konum í bæjum, sem hafa 3 vinnukonur og dýfa aldrei hendi sinni í kalt vatn, lifa í veislufagnaði og eiga ekki aðra kærari drauma en að geta lifað þannig. Jeg hefi enga trú á, að hv. 4. landsk. muni, eftir nánari athugun, geta hugsað sjer að láta saman fara undirbúning undir eyðslulíf og starfslíf. Hann mintist líka í gær á þennan mikla mun, sem nú er orðinn á þessu tvennskonar fólki í landinu, sem greindist í eyðslustjett og starfsstjett. Mínar aðgerðir gagnvart verklegri undirbúningsmentun karla og kvenna miðast aðallega við það, að taka tillit til þessa. Þótt jeg fyrirlíti þetta veislu- og óhófslíf, sem nokkur hluti þjóðarinnar lifir við, þá er jeg svo sanngjarn, að jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, að á einum skóla á landinu fái hinar uppvaxandi konur að kynnast því t. d., hverskonar staup eigi að nota í veislum, þar sem tíu víntegundir eru á borðum.