05.03.1927
Neðri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (2575)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg verð að segja, að jeg er hv. 1. þm. N.-M. þakklátur fyrir, að hann kom fram með þetta frv., þar sem í því er stungið upp á að fara inn á nýja leið í þessu máli, sem allir viðurkenna, að er hið mesta nauðsynjamál.

Jeg get sagt það, að jeg felli mig miklu betur við þessa leið, sem hjer er stungið upp á, en við þær aðrar, sem áður hefir verið talað um. Sjerstaklega þegar hann lætur þau ummæli fylgja, að hann vilji ekki halda fast í hvert einasta atriði í frv., þá geri jeg mjer vonir um, að af þessu frv. kunni að leiða gott samkomulag og mikið gott í framtíðinni. Jeg vil þess vegna — án þess að ganga inn á einstök atriði frv. — taka undir það, sem hann sagði. Jeg vona, að það komi skýrt og greinilega í ljós, hvort sem þetta mál verður afgr. á þessu þingi eða ekki, að það sje það mál, sem þingheimur yfirleitt vill fylgja fram með alvöru og festu.

Að endingu vil jeg eindregið mæla með uppástungu hv. flm. um að vísa málinu til landbn.