05.03.1927
Neðri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (2576)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Jón Sigurðsson:

Jeg hefði getað sparað að kveðja mjer hljóðs. En jeg vissi ekki, að hæstv. atvrh. (MG) ætlaði að tala, og vildi þess vegna tjá hv. flm. þakkir fyrir að flytja málið.

Það var fyrir nokkru á þessu þingi borin fram tillaga frá hv. 2. þm. Árn. (JörB) um skipun milliþinganefndar í landbúnaðarmálefnum, og þar á meðal nýbýlamálinu. Það kynni því að virðast óþarft að flytja þetta mál, ef eitthvað yrði af nefndarskipun, því að þetta yrði auðvitað eitt af stærstu viðfangsefnum hennar. Og þótt hjer sjeu ekki neinar nýjar hugsjónir í uppsiglingu, þá vil jeg þó engu að síður tjá hv. flm. þakkir fyrir að flytja frv. Fyrst og fremst af því, að jeg tel hann þarna hafa leitt málið inn á heppilegri braut, burt frá þeim óskapnaði landnámssjóðsfrv., sem hefir verið hjer á ferð á undanförnum þingum og sem klæddi þessa góðu og gömlu hugmynd, bygging nýbýla hjer, í svo afskræmdan búning, að það hefir spilt fyrir framkvæmdum. Þarna er bent á leið, sem að vísu hefir áður verið bent á, en sem jeg býst við, að allir geti nokkurnveginn sætt sig við. Að vísu er eitt og annað í þessu frv., sem náttúrlega getur orðið ágreiningur um, að einhverju leyti. En það munu verða aðeins smáatriði. Skal jeg í því sambandi benda á það, að eftir venjulegri málvenju skil jeg það svo, að hjer sje aðallega verið að ræða um að byggja upp býli á óræktuðu landi, nýbýli, sem venjulega eru kölluð. Fyrir mjer er það í raun og veru ekki markmiðið, heldur álít jeg, að framtíðarmarkmiðið í þessu efni sje miklu fremur það, að taka málið á nokkuð svipaðan hátt og mjög tíðkast í Noregi, að með aukinni ræktun sje jörðum skift í sundur, þannig, að börn geti tekið við eftir föður sinn, en þurfi ekki að braska við að kaupa jarðir. Í stað þess að eitt systkina búi á föðurleifðinni, þá sje jörðinni skift milli þeirra og þau reisi nýja bæi og myndi á þann hátt nýjar jarðir. Með því móti, að stöðugt sje bætt við ræktaða landið, getur farið svo, ef faðirinn er atorkusamur jarðræktarmaður, að hann láti hverju barni sínu eftir ekki minna af ræktuðu landi en hann sjálfur tók við í byrjun. Það á að vera markmiðið, að hver bóndi skili jörðinni sinni þannig til barna sinna, að hvert um sig fái ekki minna land ræktað en hann tók við. En það, sem helst stendur í vegi fyrir þessu, eru örðugleikarnir á að byggja. Og mjer virðist mega með dálítilli orðabreytingu bæta um frv. með tilliti til þessa. Jeg hefi miklu meiri trú á, að skifting jarða komi að tilætluðum notum, fremur en að reisa smábýli hingað og þangað, þar sem ekkert ræktað land er og menn verða að taka lán til alls.

Þetta er það atriði, sem jeg vildi benda á, sem ásamt mörgum öðrum þarf að athuga í þessu máli. En jeg endurtek, að jeg er hv. flm. þakklátur fyrir að leiða málið inn á þessa braut, burt frá því, sem áður hefir verið fitjað upp á í þessu efni, og aðeins hefir orðið til að tefja málið.