05.03.1927
Neðri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2577)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Flm. (Halldór Stefánsson):

Jeg er þakklátur fyrir þær undirtektir, sem þetta mál hefir nú fengið hjá hæstv. atvrh. og í öðru lagi hjá háttv. 2. þm. Skagf.

Þar sem hann (JS) var að minnast á þennan mun, sem er á þessu frv. frá því, sem hann hefir áður hugsað sjer, þá hygg jeg, að sá munur sje í raun og veru lítill eða enginn. Þótt gert sje í frv. ráð fyrir, að nýbýli verði reist á óræktuðu landi, þá er þar með ekki meint að leggja hömlur á skiftingu jarða, á þann hátt, sem hv. þm. hugsar sjer. Jeg hugsa mjer einmitt, að fyrst yrðu reist býli þannig, á meðan sá grundvöllur er til. En þegar hann er tæmdur, þá kæmi aðallega til að reisa nýbýli á alveg óræktuðu landi. Því að það er sýnilegt, að ef jörðum er skift þannig milli niðja, þá kemur einhvern tíma að þeim takmörkum, að býlin eru orðin svo mörg, að þeim verður ekki skift lengur. Það eru sett þau takmörk fyrir því, hve lítið það land má vera, sem nýbýli má reisa á, að ein fjölskylda geti haft framfæri sitt af því, þegar það er komið í hæfilega rækt.