30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (2587)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Jón Ólafsson:

Jeg get verið háttv. landbn. þakklátur fyrir undirtektir hennar við brtt. mínar við frv. Mjer hefir frá upphafi verið það ljóst, að þetta mál er svo umfangsmikið, að það er tæplega við því að búast, að því verði lokið á þessu þingi. Því meir sem jeg athuga málið frá ýmsum hliðum, því ljósara verður það fyrir mjer, að ef afgreiða á málið með sæmilegri athugun og komast að sem bestri niðurstöðu, þá er það ekki rjett að flaustra því af á þessu þingi. Ef úr því verður, sem hv. 2. þm. Skagf. gat um, að skipuð verði nefnd, til þess að athuga landbúnaðarlöggjöf landsins, þá verður þessu máli að lokum vísað til þeirrar nefndar. Það er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga, að hafa aðrar þjóðir til fyrirmyndar í þessu máli sem og mörgum öðrum nýmælum, sem tekin eru á dagskrá þjóðarinnar. Jeg hefi nú reynt að kynna mjer löggjöf Dana í þessu efni, en þeir munu komnir einna lengst í þessu máli, og hafa farið stig af stigi. Þeir byrja árið 1880 með sama sniði og Reykvíkingar, aðeins með því, að „prívat“-menn

stofna fjelög með það fyrir augum, að fólk í kaupstöðunum geti eignast smágrasbýli, þar sem fjölskyldan geti haft sjer til hagsbóta jarðræktarvinnu að litlu leyti. En heimilisfaðirinn hafi sínar aðaltekjur annarsstaðar, svo sem frá sjó eða skrifstofustörfuni o. fl. Árið 1899 setja Danir fyrst lög um smábýli og styrkja þau með ríflegu fjárframlagi. Var með smábýlunum ætlunin að halda fólkinu í sveitum. Landrými smábýlanna átti að vera svo lítið, að bóndinn gæti unnið að því í hjáverkum, en stunda aðalvinnu sína á höfuðbólinu, eftir sem áður. Lögðu Danir þá þegar fram 3 miljónir árlega til þess að lána til býlanna, eða 15 miljónir til 5 ára. Lán til einstaks býlis mátti ekki fara fram úr 4000 kr. Kemur þar fram það, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) drap á, að hafa altaf hámarksupphæð lána. Þó lítur svo út sem þeir geti fengið háan styrk, alt að 9/10, en má ekki fara fram úr því. Árið 1914 er upphæðin þó komin upp í 6600 kr., sem hæst má lána. Þá setja þeir og fyrst lágmark landsstærðar, 3 dagsláttur, en ætla bændum aðalvinnu á höfuðbólinu eftir sem áður. Árið 1916 hækka þeir lágmark lands upp í 6 dagsláttur. Árið 1921 hækka svo Danir framlagið upp í 12 miljónir kr. árlega og árið 1919 er mikið af prestajörðum og ljensjörðum lagt undir til smábýlabyggingar, og þá er lánsupphæðin, til bygginga og ræktunar, færð upp í kr. 22000, en ætlast til, að ábúendur eigi 9/10 lands og bygginga, ásamt áhöfn allri. Þessa lánsupphæð fá þeir afborgunarlaust til 5 ára, en borga 5½% úr því. Hvað starfsemi þessi hefir verið stórstíg, sjest best á því, að 1924 eru Danir búnir að verja 106 miljónum kr. til 10825 býla, og frá 1919–1923 hafa þeir á prestakallajörðum stofnað 632 býli, en á ljensjörðum 1200 býli, alls rúm 1900 býli. En árið 1924 setja þeir lög, sem ekki eru í samræmi við það, sem landbn. nú leggur áherslu á, sem sje, að ef ríkið geti ekki lagt fram land til býlanna af ríkiseign (prestakalla- og ljensjörðum), verði ábúandi að kaupa land til þess að byggja á. Það er eftirtektarvert, að eftir þessa löngu reynslu og þann mikla styrk, sem þeir hafa lagt fram, þá leggja þeir áherslu á, að einstaklingarnir eigi býlin sjálfir, sjerstaklega ef ríkið getur ekki lagt fram land. Þeir vilja ekkert leiguland. Þá má lána 8000 kr. til húsabygginga og 9/10 jarðarverðs, vaxta- og afborgunarlaust í 3 ár, en síðan með jöfnum afborgunum, 4½% árlega í afborgun og vexti.

Jeg drep á þetta til þess að sýna, að mikið má læra af Dönum í þessu máli. Það hefir sýnt sig, að fólk í Danmörku hefir flutt minna úr sveitunum til kaupstaðanna, eftir að farið var að hlynna nokkuð verulega að smábýlunum. Meðan þau voru svo lítil, að ætlast var til að fólk gæti unnið jafnt á herragörðunum sem áður, og smábýlin ekki skoðuð sem bjargræðisvegur, þá gafst það svo illa, að fólkið flutti til kaupstaðanna eins fyrir því.

Ef litið er yfir þær þarfir, sem hjer eru mest aðkallandi fyrir sveitirnar, verður fyrst fyrir að líta yfir þau býli, sem lögð hafa verið í eyði, eða eru að leggjast í eyði. Sömuleiðis hvernig hýst er á bygðum býlum í hinum ýmsu hjeruðum landsins. Að þessu athuguðu verður mjer það ljóst, að lítið mundi verða ágengt með þeim 100 þús. kr., sem flm. leggur til, að veittar verði árlega, og bar jeg þess vegna fram till. um kr. 200 þús. árlegt framlag, og að því fje sje að miklu leyti varið til hjálpar þeim, sem vegna efnaskorts ekki geta húsað bæi sína og kjósa þess vegna jafnvel heldur að flytja í kaupstað og þá máske skilja við býlið í eyði. Jeg skal nú til fróðleiks gefa yfirlit yfir verðmæti húsa á sveitabýlum, og er það tekið eftir fasteignamati því, er fram fór 1919.

Tala býla á landinu og húsamat árið 1919.

Ekki metin

0–500 kr.

500–

1000 kr.

Yfir

1000 kr.

Alls býli

Gullbringusýsla

11

37

49

166

263

Kjósarsýsla

20

8

15

116

159

Borgarfjarðarsýsla

11

79

43

119

252

Mýrasýsla

14

68

49

82

213

Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla . . .

34

90

95

112

331

Dalasýsla

12

73

45

90

220

Austur-Barðastrandarsýsla

3

34

32

32

99

Vestur-Barðastrandarsýsla

5

37

41

88

171

Vestur-Ísafjarðarsýsla

7

31

52

107

197

Norður-Ísafjarðarsýsla

16

27

60

131

234

Strandasýsla

8

48

56

52

164

Vestur-Húnavatnssýsla

3

57

62

69

191

Austur-Húnavatnssýsla

7

93

71

65

236

Skagafjarðarsýsla

8

173

120

147

448

Eyjafjarðarsýsla

10

168

160

198

536

Suður-Þingeyjarsýsla

19

46

75

224

364

Norður-Þingeyjarsýsla

19

12

26

91

148

Norður-Múlasýsla

11

36

84

151

284

Suður-Múlasýsla

18

46

69

230

263

Austur-Skaftafellssýsla

11

43

35

52

141

Vestur-Skaftafellssýsla

24

49

54

104

228

Rangárvallasýsla

61

139

139

212

551

Árnessýsla

17

35

92

310

454

Á öllu landinu

346

1440

1548

3079

6417

% 6

22

24

48

(100)

Þegar litið er yfir þessa skýrslu, sjest, að ástandið er mjög slæmt, jafnvel þótt úr einhverju hafi verið bætt síðan. Jeg þekki af eigin reynslu og hefi líka tekið eftir því, að ekkert býli, sem legst í eyði, hefir sæmileg húsakynni. Þegar hafist er handa í svo stórvægilegu máli sem þessu, að halda fólkinu í sveitunum, þá verður fyrst að reyna að koma upp sæmilegum húsakynnum. Það er ekki von, að fólk nú á tímum geri sig ánægt með, eftir vosbúð og slit dagsins, að koma inn í slík húsakynni sem hjer eru víða. Jeg er þakklátur hv. landbn., að hún hefir tekið till. mínar í þessu efni til greina, og vona jeg, að einhverju af okkar litlu getu verði einmitt veitt í þessa átt. Vitanlega eru aðrar orsakir fyrir fólksflutningunum en þessar, meðal annars þær, sem altaf er verið að stagast á, og líka við kaupstaðarbúa. En þessi fólksstraumur til bæjanna er mjög ískyggilegur, ekki hvað síst fyrir borgarana eða hinn vinnandi lýð í bæjunum, þar sem ekki er hægt að anna þeim viðbúnaði á atvinnutækjum og bjargræðisvegum, sem þyrfti, til þess að allir hefðu nægilegt að starfa, fjölskyldu sinni til framfæris. Ef ekki er sjeð fyrir þessu, er innflutningur til kaupstaðanna aðeins til þess að fækka dagsverkum þeirra, sem fyrir eru. Ástandið er nú svo, að tæplega er orðið hægt að fá fólk úr kaupstöðunum á þá bæi, þar sem ekki er bílvegur að, t. d. svo það geti skroppið til Reykjavíkur um helgar, eins og hægt er í þeim hjeruðum, þar sem samgöngur eru bestar. Það var ein brtt., sem jeg hefði óskað að tekin væri til greina, um meðmæli hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Jeg held, að ef sveitarstjórn ætti að mæla með styrk til hreppsbúa sinna, að það ætti að vera því skilyrði bundið, að hreppurinn væri ábyrgur fyrir láninu. Þetta væri miklu öruggara fyrir stjórnina, ef hægt væri að koma slíku við. Jeg hefi lagt það til, að búnaðarsambönd fjórðunganna mæltu með þessum lánum, því það mundi óhlutdrægara og tryggara en þótt hlutaðeigandi hreppsnefnd eða hreppsstjóri legði eitthvað til málanna, nema þá með ábyrgð. Ef hægt væri að koma því við, þá væri búnaðarsambandið betur fallið til þess að mæla með láninu, því það hefir víðari sjóndeildarhring. Þetta hefi jeg þó ekki gerhugsað, og má vel vera, að landbn. geti athugað þetta betur.

Þá er áætlað í 4. gr., að vextir nemi aðeins 2%. Jeg held, að ekki sje heppilegt að hafa mjög lága vexti af þessum lánum. Jeg býst ekki við, að þjóðin sje svo efnum búin, að hún geti haldið þessari starfsemi áfram á næstu árum, nema hún fái nokkra vexti af því fje, sem lagt er fram, og víst er það, að meira verður ágengt með því að sjóðurinn fái þá vexti, sem fært þykir að taka eftir víst tímabil. Jeg get fallist á þá till., að lánin sjeu afborgunarlaus fyrstu 5–10 árin; þó mundi eflaust nægja 5 ár í flestum tilfellum, og borga síðan 4–4½% í vexti. En um það má deila, hvort heppilegra sje. Þá stendur það í 7. gr., að upphæð framlaga til nýbýla megi nema alt að 4/5 verðs. Það er í sjálfu sjer ekki neitt við því að segja. Það er mjög sanngjarnt, að menn geti fengið þetta lán, en það verður að vera skilyrði fyrir því, að þeir hafi undir öllum kringumstæðum af sjálfs sín ramleik vissa upphæð handa á milli. Það er oft ilt að greina sundur, hverjum veita skuli lán. En sá ætti jafnan að ganga fyrir, sem hefði þessu úr að spila, er hann ræðst í búskapinn. Því fremur er þá hægt að ætlast til, að hann geti eflst í honum, sem ekki er byrjað út í bláinn. Þá er og síður hætt við braski, sem hv. 2. þm. Skagf. mintist á að gæti komið fyrir. Úr þeirri hættu er dregið verulega, ef gert er að skyldu að viðkomandi eigi eitthvað til.

Þá held jeg, að ákvæðin í 8. gr., þar sem nefndin hygst að fyrirbyggja, að býlin gangi kaupum og sölum o. fl., sje frekar til óþurftar, eins og yfirleitt að leggja á kvaðir til að hindra að sá, er ræðst í að koma upp býli, hafi óskertan rjett til að hafa upp úr því það sem hægt er án íhlutunarrjettar annara. Flestir eru svo gerðir, að þeir vilja fá að njóta í friði árangurs af starfi sínu. Og það er álit fjölda mætra manna, að þjóðjarðarsalan hafi orðið okkur Íslendingum til góðs. Hún leiddi til þess, að bændur eignuðust ábýli sín, og það varð aftur til þess, að þeir lögðu meira í sölurnar til þess að bæta eignarjarðir sínar. Jeg held, að ekki megi leggja kvaðir eða höft á það, að viðkomandi geti fengið alt sem hægt er upp úr býli sínu, ef hann ætlar að selja eða koma því í peninga og taka annað fyrir. Það er ekki um að tala, að það geti rýrt eignina. Að vísu getur komið fyrir að sá, er lætur tilleiðast, komi til með að líða við skiftin. En það er þá ekki nema vasaskifti á þjóðarauði, sem ekki er hægt að koma í veg fyrir.

Jeg hefi svo ekkert sjerstakt við nál. að athuga, og sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það á þessu stigi málsins. Eins og jeg gat um í upphafi, og hv. þm. er kunnugt, liggur nú fyrir sú leið, er jeg gat um. Með frv. háttv. landbn. eru lagðir æði góðir drættir að þessu máli framvegis. Það hefir komist þetta lengst og er nú á rjettri leið. Það hefir verið borið fram stundum áður. En það er jafnan svo um góð mál, að ekki er gott að láta þau reka hornin í, ef þau eiga að ganga fram til sigurs. Jeg get sagt það um fyrirsögnina, að hún skiftir auðvitað ekki miklu máli. En ef á að gefa sig við því, að byggja upp jarðir, sem eru að mestu í eyði, af því að þar skortir húsakynni, eða leggjast í eyði af öðrum ástæðum, þá er nafnið, að jeg held, eins heppilegt: bygginga- og landnámssjóður, eins og líka hefir verið á ferðinni áður.

Þetta eru aðeins bendingar á þessu stigi málsins, og læt jeg svo útrætt um það í bili.