30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í C-deild Alþingistíðinda. (2590)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Jón Sigurðsson:

Jeg býst ekki við því, að gefa neitt tilefni til, að umr. haldi áfram. En út af ræðu hv. frsm. vildi jeg þó fara nokkrum orðum um þau atriði, sem við erum ekki alveg sammála um. Hv. frsm. gekk inn á ýms atriði og viðurkendi, að margar aðfinslur mínar hefðu verið á rökum bygðar. Viðvíkjandi því, að fyrsti veðrjettur sje settur sem trygging fyrir byggingarkostnaði, þá vil jeg biðja hv. frsm. að athuga það, að þó að ríkissjóður leggi mikið í hættu, þá verður fyrst að líta á aðalatriði málsins, að fá land til að byggja á. Það verður auðvitað að ganga á undan. Með öðrum orðum, ef þessu ákvæði er haldið, að skylt sje að setja fyrsta veðrjett sem tryggingu fyrir byggingarkostnaði, getur það orðið til þess, að fátækir menn geti alls ekki uppfylt skilyrði laganna, vegna þess að landið væri bundið að fyrsta veðrjetti fyrir sínu eigin verði. Með því móti mundu þeir menn, sem mesta þörf hefðu á því að njóta þessara góðu kjara, vera útilokaðir.

Þá sagði hv. þm. ennfremur, að ekki væri ástæða til að ákveða lágmark, í því efni, hve smátt mætti skifta jörðum. Það liggur þó í augum uppi, að til þess að nýbyggjendur geti lifað á jarðrækt eingöngu, þarf að fylgja býlinu talsvert land, mismunandi stórt að vísu, eftir staðháttum og markaðsskilyrðum; sje ekki sjeð fyrir þessu, myndast kotbýli, sem enginn getur lifað á. Það ætti að vera auðvelt að finna hæfilegt lágmark, sem væri miðað við það, sem hæfilegt væri að lifa af með fjölskyldu án aukaatvinnu, og jafnframt yrðu þá gerð glögg skil á milli býlis og þurrabúðar. Aðrar þjóðir, t. d. Norðmenn, hafa ekki sjeð sjer annað fært en að ákveða lágmark, hvað smátt megi skifta, og nýlega sett lög um þetta efni.

Þá mintist hv. frsm. á stílinn, og get jeg tekið undir það með honum, að mjer þykir bæjastíllinn íslenski fallegastur á sveitabæjum, en hann nýtur sín þá fyrst og er þá fyrst fallegur, þegar komnar eru 4–5 burstir. Hitt er jafnvíst, að þó íslenski bæjastíllinn sje fallegur og fari vel við landslagið, þá hefir hann reynst dýrari, m. a. vegna þess, hve þakflöturinn er stór og dýrt að búa um sund, svo að vel fari. Þó að mjer þyki þessi stíll fallegur, vil jeg ekki láta einskorða býlin við hann, heldur vil jeg, að gerðir sjeu frumdrættir að fleiri fyrirmyndum, svo að hægt sje að velja úr eftir efnum og ástæðum.

Þá taldi hv. flm. (HStef) ekki hægt að ákveða byggingarkostnað hvers býlis, þar sem óvíst væri, hve stór þau þyrftu að vera. Þingið verður þó að gera upp við sig, hvort þessi styrkur á að koma mörgum eða fáum einstaklingum til góða. Hjer er ekki um að ræða nema 200 þús. kr., og ef áætlað væri að hvert býli kostaði 20 þús. kr., þá yrðu það aðeins 10 býli, sem styrksins nytu; slíkt næði vitanlega ekki nokkurri átt, og eitthvert hámark verður að setja, sem ekki má fara yfir. Mjer finst, að þingið geti ekki kastað því yfir á stjórnina að ákveða í hvert skifti, hve mikið skuli veita til hvers býlis. Þetta eru líka hugsuð smábýli, sem lítið hafi um sig, og það hlýtur að vera hægt að komast að nokkurnveginn ákveðinni niðurstöðu um það, í samráði við byggingarfróða menn, hvert hámark lánsupphæðarinnar megi vera.

Þá sagði hv. flm., að sjer væri óljóst, hver ráð yrðu við því sett, að býlin legðust ekki í auðn. Jeg átti ekki við, að þau yrðu lögð alveg í auðn, heldur höfð með öðrum jörðum. Mjer finst, að við þessu mætti t. d. hafa það einfalda ráð, að ef býlið hyrfi úr sjálfsábúð, þá yrði sá maður, sem þess væri valdandi, skyldaður til að greiða þegar alla lánsupphæðina með fullum vöxtum.

Þá mintist hv. flm. á ræktunarkröfurnar, og taldi þörfina fyrir ræktun mesta aðhaldið í þessu efni, svo að lagasetningar þyrfti naumast við. Þar greinir okkur töluvert á. Í mínum augum er það höfuðatriði, að nýbyggjendur sjeu skyldaðir til að rækta, því að hús í sveit, sem ekki fylgir ræktað land, eru venjulega lítils virði, og án ræktaða landsins yrði aðstaða nýbyggjanna engu betri en húsmenskufólks. Þá taldi flm. ekki þörf á að setja eignatakmörk að neðan, af því að búandi yrði jafnan að geta lagt eitthvað fram, til þess að geta sett saman bú. En hann gæti t. d. tekið alt að láni, og afleiðingin orðið sú, að hann þrifist ekki og yrði að hröklast í burtu eftir nokkur ár. (HStef: Þá kæmi annar í staðinn). Já, að vísu, en það er ekki tilgangurinn, að þessi býli eigi að ganga kaupum og sölum. Jeg skil þetta mál svo, að styrk til nýbýla eigi að veita þeim einum, sem líklegir þykja til að geta komið upp sjálfstæðu býli og rekið það sjer og sínum til framfæris. En fyrir alveg eignalausan mann er slíkt vonlaust. Það væri talsverður styrkur, þó að hann ætti ekki nema 1500 kr. Aðrar þjóðir hafa álitið nauðsynlegt að setja slíkt eignatakmark og ekki viljað láta svona styrk í hendurnar á mönnum, sem ekki eiga grænan eyri. Það eru líka bestu meðmælin með manni, sem ætlar að fara að reisa bú, að hann sje búinn að eignast talsvert. Maður, sem kominn er á þann aldur og á ekki neitt til neins, er hvorki líklegur til þess að inna mikið ræktunarstarf af hendi eða geta skapað sjer og sínum sjálfstætt heimili, þótt hann fái hagstætt lán til þess.

Það er ýmislegt fleira, sem jeg hefði getað minst á í sambandi við þetta mál, en jeg hefi nú drepið á aðalatriðin og læt það nægja. Jeg skal aðeins drepa á eitt atriði í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann kvað Dani vera komna langt í þessum efnum. Það er að vísu rjett, en vegna líkra staðhátta í Noregi og Norður-Svíþjóð, tel jeg rjettara fyrir okkur að taka þau lönd til fyrirmyndar.