05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (2597)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

* Þegar landbn. tók þetta mál til meðferðar, þá bjóst hún við, að ekki mundi vinnast tími til þess, að koma því gegnum þingið. Henni var það ljóst, að með þeim stutta tíma, sem hún hefir yfir að ráða, mundi hún ekki geta undirbúið málið svo vel, að ekki yrði sitt hvað við það að athuga, og að ýmsu leyti þyrfti það að taka breytingum. Hinsvegar vildi nefndin gjarnan, að málið kæmi hjer til meðferðar þessarar hv. deildar, til þess að hv. deildarmönnum gæfist kostur á að láta álit sitt í ljós og flytja brtt. við það, ef þeir annars æsktu þess.

Nú hefir þetta mál verið hjer til 2. umr., og er nú komið til hinnar 3., og jeg verð sem nefndarmaður í landbn. að lýsa yfir því, að jeg er hv. deildarmönnum þakklátur fyrir undirtektir þeirra við málið og tel, að það hafi að ýmsu leyti grætt á því, að það kom hjer til umr. Hinsvegar þykir mjer og fleirum í nefndinni sennilegt, að ekki vinnist tími til að afgreiða þetta mál, og við gerum tæplega ráð fyrir, að það sje svo mikið eftir af þingtímanum, en málið hefir grætt mikið á þeirri meðferð, sem það hefir þegar fengið.

En þar sem búið er að ákveða að skipa milliþinganefnd til þess að íhuga og gera tillögur um landbúnaðarlöggjöf landsins, þá teljum við meiri hl. landbn., að þetta mál eigi ekki hvað síst þar heima, og að það eigi að vera rannsóknarefni hennar, hvernig þessu máli skuli ráðið til lykta. Við teljum betur á því fara, að það sje vandað sem best til undirbúnings þessa máls, því að jeg bygg, að öllum deildarmönnum geti komið saman um, að það ríði á miklu, að því verði vel ráðið til lykta, þegar löggjöf verður sett um þetta efni.

Okkur meiri hl., landbn. hefir því komið saman um að leggja til við þessa umr. að málið gangi ekki lengra á þessu þingi, og að því verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, sem jeg, með leyfi hæstv. forseta, vil leyfa mjer að lesa upp. Rökstudda dagskráin hljóðar svo:

,,Með því að ákveðið er að skipa milliþinganefnd á þessu þingi til þess að íhuga og gera tillögur um landbúnaðarlöggjöf landsins, þar á meðal um stofnun nýbýla, og ennfremur með því að svo er áliðið þings, að ekki er líklegt, að tími vinnist til að afgreiða málið sem lög frá þessu þingi, þá ályktar deildin að vísa málinu til stjórnarinnar með þeirri áskorun, að hún leggi fyrir milliþinganefndina að taka það til vandlegrar athugunar og undirbúnings fyrir næsta þing, — og tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

*Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.