11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (2612)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Forsrh.- og fjrh. (Jón Þorláksson):

Því er ekki að leyna, að sá grundvöllur, sem nú er farið eftir með bifreiðaskattinn, hestaflatalan, er óhentugur skattsgrundvöllur. Þetta hafa menn fundið víðar en hjer, og erlendis hafa menn leitast við að finna annan grundvöll. Úr því að þetta frv. er fram komið, þá tel jeg rjett að athuga þetta mál í heild í nefnd. Skal jeg geta þess, nefndinni til athugunar, að þetta mál hefir alveg nýlega verið athugað mjög vandlega í nefnd í Danmörku. Þar varð ofan á að leggja þrent til grundvallar, bensín, gúmmí og þyngd bifreiðanna. Að öðru leyti vil jeg minna á það, að eftir vörutollslögunum er innflutningsgjald af bensíni ekki aðeins greitt af bensíninu sjálfu, heldur líka af umbúðunum, en þær eru ekki óverulegur hluti heildarþyngdarinnar. Það má ekki treysta því, að svo verði áfram. Það má búast við því, að farið verði að flytja inn bensín án þess að umbúðirnar fylgi með. Þá kemur fram minni þungi til þess að jafna tollinum niður á, og verður að taka þetta til athugunar, þegar ákveðin er upphæð innflutningsgjalds fyrir hverja þyngdareiningu af vörunni.