06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í C-deild Alþingistíðinda. (2619)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Frsm. (Björn Líndal):

Eins og sjá má af þskj. 435, þá hefir fjhn. lagt til að mál þetta verði afgreitt með rökstuddri dagskrá. Þar sem nál. er allítarlegt, þá tel jeg óþarft að gera nánari grein fyrir ástæðum nefndarinnar. Dagskráin er þess efnis, að gert er ráð fyrir því, að landsstjórnin safni gögnum til undirbúnings endurskoðaðri löggjöf um skatt af bifreiðum og leggi fyrir næsta Alþingi frv. til laga um þetta efni. Nefndin er sammála um það, að nauðsynlegt sje að endurskoða lögin um bifreiðaskatt og telur þeim allmjög ábótavant og ekki koma rjettlátlega niður á þeim, sem skattinn eiga að greiða. Þegar bifreiðaskattur er lagður á í þeim tilgangi að endurbæta vegaskemdir bifreiðanna, þá á hann að sjálfsögðu að standa í sem rjettustu hlutfalli við þær vegaskemdir, sem hver bifreið veldur. Nefndina hefir brostið gögn til þess að koma fram með ákveðnar till. í málinu, þar eð ekki liggja fyrir opinberar skýrslur um það, hve mikið er flutt inn í landið af gúmmíhringuin, nje heldur um þunga bifreiða þeirra, sem í landinu eru. En þetta hvorttveggja er lagt til grundvallar fyrir bifreiðarskatti í nágrannalöndunum. Jeg hygg, að rjett sje að miða skattinn við þyngdina og gúmmíhringaeyðsluna. En til þess að geta vitað, hve hár hann á að vera, þá þarf að liggja fyrir vitneskja um það, hve mikið flutt er inn af gúmmíhringjum, vegna þess að því meir sem bifreiðinni er ekið, því meir er notað af hringum og því meiri eru vegaskemdirnar.

Þegar mál þetta var til umræðu hjer á þingi áður, þá komu fram raddir um það, að ekki væri sanngjarnt að leggja þennan skatt á þær bifreiðir, er koma ekki á þá vegi, er ríkissjóður kostar og sjaldan eða aldrei fara út úr kaupstöðunum. Þá komu og fram raddir um að hlífa vöruflutningabifreiðum sem mest við þessum skatti. Þetta hvorttveggja er auðvitað sjálfsagt að taka til athugunar að nýju, en gæta verður þess þá, að vöruflutningabifreiðir eru oft notaðar einnig til mannflutninga, einkum á sumrum.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara um mál þetta fleiri orðum, en skal aðeins geta þess, að Danir vanda mjög til löggjafar um þetta efni og hafa meðal annars skipað milliþinganefnd til að athuga málið. Nefndin telur því rjett að bíða með að setja nýja löggjöf um þetta, þar til málið hefir verið athugað ítarlega af stjórninni, og leggur það til, að dagskrártill. verði samþ.