24.02.1927
Efri deild: 13. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

16. mál, ríkisborgararéttur

Jónas Jónsson:

Sökum þess, að mál þetta hefir ekki verið athugað í nefnd, vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. (MG), hvort ekki geti komið til mála, að kona þessi hefði átt að afsala sjer ríkisborgararjetti erlendis. Hún er að vísu dóttir íslensks manns, en fædd erlendis og mun uppalin í Þýskalandi. Ef hún hefir líka, sem vel getur verið, átt þýskan ríkisborgararjett, hefði hún orðið að afsala sjer honum um leið og hún sótti um rjett hjer á landi, því að þau lög eru þar í landi, að sá, sem sækir um ríkisborgararjett annarsstaðar, verður um leið að afsala sjer honum þar.

Þá hefir og komið til orða, hvort kona þessi myndi ekki geta verið danskur ríkisborgari, og er það bygt á því, að hún var ekki búsett hjer á landi, þegar sambandslögin voru sett, og því hugsanlegt, að hún hafi að forminu til haldið áfram að vera danskur ríkisborgari.

Spurningum þessum hefi jeg aðallega hreyft vegna þess, að lítil göng fylgja málinu hjer.