06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (2620)

74. mál, innflutningsgjald af bensíni

Ólafur Thors:

Jeg get verið hv. fjhn. þakklátur fyrir undirtektir hennar undir þetta mál. Við 1. umr. tók jeg það fram, að jeg hefði flutt málið samkv. ósk margra bifreiðaeigenda. Þeir fengu mjer málið í hendur lítt undirbúið, og jeg hefi ekki haft ástæðu til að búa það svo úr garði sem þörf hefði verið á. Hinsvegar var mjer ljóst, að núgildandi löggjöf um skatt á bifreiðum er óviðunandi. Hv. nefnd hefir fallist á ástæður mínar fyrir frv., en telur sjer ókleift, með þeim undirbúningi, sem málið hefir fengið, að mæla með því, að frv. verði samþykt, en leggur til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar. Jeg er ánægður með þau úrslit og tel mig hafa náð tilgangi mínum, að benda mönnum á, að löggjöfin um þetta efni er ekki rjettlát. Jeg vænti, að hæstv. stjórn sje hv. nefnd og mjer sammála um það, að breyta þurfi löggjöfinni á þessu sviði, og í trausti þess, að hún flytji á næsta þingi frv. um þetta efni, þá mun jeg greiða hinni rökstuddu dagskrá atkvæði mitt.