11.03.1927
Efri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í C-deild Alþingistíðinda. (2630)

86. mál, nýbýli

Flm. (Jón Baldvinsson):

Á síðari árum hafa komið fram ýmsar tillögur, er fara í þá átt, að efla ræktun landsins og fjölga býlum í landinu. En í þessu máli hefir engin föst lína verið mörkuð, er sýni, hvert stefna skuli, enda engin stefna komið upp, er skeri sig úr, sem tvímælalaust sú eina rjetta. Hjer hefir meir verið um að ræða einstakar tillögur úr ýmsum áttum, fálm, sem vart er marks síns meðvitandi.

Það skal játað, að margt er gert til að stuðla að aukinni ræktun. En menn verða að gera sjer ljóst, að ekki er mikils að vænta, ef ekki er lagt fram meira fje en nú er gert. Það, sem gert hefir verið og gert er til að efla ræktun landsins, er fyrst og fremst fyrir tilstilli og starfsemi Búnaðarfjelags Íslands og með tilstyrk fjár þess, er því er heimilað í fjárlögum árlega, og nú á síðustu árum ber að nefna ræktunarsjóðinn, er veitir fje að láni til landbúnaðar, og svo loks jarðræktarlögin, sem samþykt voru fyrir nokkrum árum og eru sú lína, sem lögð hefir verið í áttina að markinu. En framkvæmd málsins þolir enga bið. Það verður þegar að hefjast handa.

Eins og endranær erum vjer í þessu efni eftirbátar annara þjóða; þær eru langt á undan oss í að efla ræktun. Þær hafa farið þannig að, að stóru löndin, hvort heldur þau voru opinber eign eða einstaklinga, hafa verið stykkjuð sundur í smábýli eða grasbýli, þar sem ein fjölskylda lifir á litlu landi, sem hún með vinnu sinni og umhyggju ræktar sem best og gerir sem lífvænlegast.

Nágrannaþjóðirnar, og þá sjerstaklega sambandsþjóð vor, Danir, hafa lagt fram mikið fje til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. Árið 1925 voru þar stofnuð 147 býli. Alls hefir verið veitt til smábýla 120 milj. króna. Er það að meðaltali 10 þús. kr. á hvert býli. Býlin eru núna 12600. Í þessari skýrslu er sýnishorn af því, hversu miklu betur gangi fyrir þessum býlum en áður fyrir jafnstóru landi. Ræktun og fólksfjölgun eykst við að stykkja í sundur jarðirnar. Til dæmis skal jeg taka eitt stórbýli í Álaborgarhjeraði. Þar í kring bjó fátækt fólk, sem hafði atvinnu á aðalbýlinu. Síðan var jörðin stykkjuð í 50 smábýli. Árið 1909 voru eigandanum gerðar 5000 króna tekjur af landinu og greiddi hann skatt af því. En árið 1918 var greiddur skattur af 87 þúsundum króna. Fyr var býlið virt á milli 80–90 þúsundir króna. Nú eru löndin öll virt á meira en miljón. Áður bjuggu þar 50 manns, nú yfir 300. Framleiðslan hefir aukist á alla lund.

Eitthvað svipað þessu vakir fyrir mönnum hjer. Sú stefna hefir ekki átt upp á háborðið, en jeg er ekki í nokkrum vafa um, að vert er að gera tilraunir í þessa átt. Jeg held, að það þýði ekki eingöngu að safna í sjóð um langan tíma, til þess að koma upp nýbýlum. Það er ágætt með, en málið er þegar svo aðkallandi, að það þarf að taka það kröftugu taki. Hjer er heldur ekki flanað út í neina óvissu. Það má segja, að það eina, sem er vísindalega sannað í þessu landi, er það, að hægt er að lifa á ræktuðu landi, en við höfum ekki mikla reynslu í því efni, að lifa eingöngu á ræktuðu landi. Jarðirnar eru hjer svo stórar. Túnið er bara lítill depill af jörðinni, og auk þess vilja bændur ekki slá ár eftir ár sama blettinn. Nú mundi verða notaður ár eftir ár sami bletturinn, en þá verður líka að hirða hann vel.

Jeg gerði í hitteðfyrra brtt. við ræktunarsjóðsfrv. í þá átt, að sjóðurinn mætti veita lán til að koma upp tilraunabúum eða fyrirmyndarbúum. Jeg ætlaðist til, að þau væru fjögur. Þessari tillögu var illa tekið, og jeg ætla, að fáir af þeim bændum, sem sæti eiga á þingi, hafi greitt atkvæði með henni. Þeir álitu ekki þörf á slíkum búum. En þar mun þeim góðu herrum skjátlast.

Þetta er önnur tillagan, sem kemur af hendi Alþýðuflokksins í þessu máli. Það er líka að mjög mörgu leyti þægilegt að stykkja þannig í sundur stórar jarðir og hafa saman mörg býli. Menn geta á margan hátt unnið saman. Þeir geta notað sameiginlega allar vjelar. Þeir geta verið í samlögum um að selja framleiðsluvörur og kaupa nauðsynjar. Annars hefði margt fleira þurft að taka fram í frv. en gert er, t. d. um að koma upp rjómabúum, samkomuhúsum o. fl.

Þetta hefi jeg ekki gert, af því að mönnum ógnar fjárhagshlið slíkra hluta. Enda gerir ekkert til, þó að einhverju verkefni sje ólokið.

Hv. þdm. hafa eflaust tekið eftir því, að í frv. er gert ráð fyrir að rækta aðeins lítinn hluta lands þess, sem hverju býli er ætlað. Þetta er að nokkru leyti gert vegna kostnaðarins og að nokkru leyti til þess að ætla mönnunum verkefni. Það væri ódýrara að framkvæma holræsagerð og skurði strax, enda er til þess ætlast í frv.

Hvaðan kæmi svo fólkið? munu menn spyrja. Maður gæti hugsað sjer það fólk úr sveitunum, sem annars flytti til kaupstaðanna. Jeg hefi það fyrir satt, að margt fólk flytji úr sveitunum, vegna þess að það vantar jarðnæði. Það getur ekki reist heimili, hröklast burt og rennir kannske blint í sjóinn um atvinnu. Væru nú stofnuð þessi býli og þau lánuðust vel og fólkið yndi þar, gæti jeg hugsað, að haldið yrði áfram á þeirri braut. Jeg er viss um, að ríkissjóður á eftir að styrkja slíka starfsemi, hvort sem þetta frv. verður að lögum eða ekki. Þó að ekki ynnist annað við það en að stöðva straum fólksins til kaupstaðanna, væri mikið unnið.

Jeg hefi nú gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram alt fjeð og taki til þess lán. Eftir því sem jeg veit best, kostar um 11 þúsund krónur að fullrækta 10 hektara land. Maður, sem er þessu nákunnugur, hefir skýrt mjer frá því. Hann gerir ráð fyrir, að opnir skurðir kosti 1980 krónur, holræsi 2300 krónur, girðingar 910 krónur, tæting og jöfnun 2500 kr., herfing, sáning og grasfræ og hafrar 3500 krónur. Ef þessi áætlun er lögð til grundvallar, ættu ekki að fara meira en 5000 krónur í skurði og holræsi í hverja 5 hektara af landi. Í býlið færu um 20 þúsund krónur Að vísu er í frv. ekki gert ráð fyrir girðingum, en um þær munar ekki mikið, og ef til vill mundu ábúendur sjálfir leggja eitthvað af mörkum, meðal annars til girðinga. Ætlun mín er sú, að ríkissjóður láti ekki af hendi býlin, heldur eigi þau og leigi þau út. Annars er hætt við, að þegar menn eru búnir að leggja fram svo og svo mikla vinnu við býlin og þau hækka í verði, vilji þeir selja þau og hverfa frá öllu saman. Að ríkið eigi býlin, er trygging fyrir því, að ekki verði braskað með þau og þau hlaupi ekki í okurverð.

Jeg hefi í frv. tekið til tvö hjeruð, Ölfusið og Holtin, þar sem jeg hefi hugsað mjer, að fyrstu nýbýlin yrðu. Nafnið Holtahreppur er líklega ekki nógu víðtækt, því að Ásahreppur kæmi líka til greina, en hjer er átt við Holtahrepp hinn forna. Á þessum stöðum er landið hentugt til ræktunar og menn eru þar við þjóðveginn og eiga hægra með aðdrætti. Þó að jeg persónulega hafi trú á því, að innan skamms verði lögð járnbraut um þessar slóðir, er ekki hægt að gera ráð fyrir því í frv. Jeg hefi tiltekið mismunandi stórt land í hvorum hreppi. Býlin yrðu stærri í Rangárvallasýslu, af því að ætlast er til, að þau beri fjölskyldu að öllu leyti. Í Árnessýslu yrðu býlin svo nærri sjávarplássunum, að ýmiskonar aukaatvinna kæmi til greina. En reynslan sýnir kannske, að vel ræktaðir 10 hektarar geti framfleytt lítilli fjölskyldu. Smábýlin í Danmörku eru ekki nema 7 hektarar, en þar er eflaust betra land.

Þá held jeg, að jeg hafi tekið fram öll aðalatriði málsins, og vil jeg mælast til, að því verði vísað til landbn. Jeg vænti því, að þó að hv. þm. sjeu í vígamóð síðan í gær og gangi með blóðugar hendur upp undir axlir, þá lofi þeir þessu frv. að lifa. Þeir komast ekki hjá að fara þessa leið hvort sem er.