22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í C-deild Alþingistíðinda. (2660)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Tryggvi Þórhallsson:

Háttv. frsm. landbn. talaði af mikilli einlægni í þessu máli um einlægan vilja á að útrýma fjárkláðanum. Jeg vil nú reyna á þolrif einlægni hans í þessu máli og vita, hvort hann vill nú ekki fá forseta til þess að taka mál þetta af dagskrá nú, svo að hægt sje að komast að með brtt., því eins og frv. er nú, tel jeg ómögulegt að fylgja því. Jeg vil benda á, að hægt ætti að vera að komast að samkomulagi um þetta frv., þó að hitt frv., sem rætt var hjer næst á undan, sje nú fallið, þar sem bæði þessi frv. hafa verið borin fram af landbn., hitt frv. í fyrra og þetta frv. nú. Og sömu menn að mestu eiga sæti í nefndinni nú og þá. Jeg vil segja það, að ef hv. frsm. nefndarinnar (HK) er einlægur í því að vilja koma þessu frv. í gegn, þá eigi hann að tryggja sjer það með því að taka málið út af dagskrá nú, svo að samkomulag geti náðst um það. Þetta ætti hann að gera því fremur sem það stóð glögt með hitt frv., og eins gæti farið með þetta frv., ef það ætti nú að koma til atkvæða.

Jeg vil því skora á hv. frsm. að láta taka málið út af dagskrá, svo hægt verði að koma fram með brtt. við það.