22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (2661)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vil styðja hv. þm. Str. í því, að málið sje tekið út af dagskrá. Mjer sýnist frv. þurfa betri athugunar við, því það er rjett, sem hv. samþm. minn (JS) sagði, að málið sjálft hefir ekki verið rætt beinlínis, heldur aðeins í sambandi við hitt frv. um sama efni. Svo eru smíðagallar á frv., t. d. á 6. gr., sem er svo orðuð, að nefndin getur ekki verið þekt fyrir að láta frv. fara þannig frá sjer. Þar eru bæði mál- og hugsunarvillur, sem jeg skal skýra frá utan fundar, hverjar eru. Það er sjálfsagt fyrir nefndina að verða við þeirri ósk, að málið sje tekið út af dagskrá. Jeg hefi nú athugað þetta frv. og borið það saman við gildandi lög og get satt að segja engan mun fundið þar á, sem til bóta geti talist. Jeg óska upplýsinga um það, hvaða atriði það eru, sem nefndin telur, að sitt frv. hafi fram yfir gildandi lög.

Jeg geri ekki mikið úr því, þótt í 9. gr. frv. standi, að hreppstjórar og lögreglustjórar skuli sjá um, að lögunum sje framfylgt, en í gildandi lögum, að hreppsnefndir eigi að gera það. Hreppstjórar eiga sem opinberir embættismenn að líta eftir því, hver í sínu umdæmi, að öllum lögum sje framfylgt, og þá sje jeg enga ástæðu til, að það sje tekið fram í einum einstökum lögum, að þeir skuli gera það.

Svo vil jeg spyrja: Hvernig á að skilja þetta: „verði enn vart fjárkláða, skulu gerðar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þykja“? Hverjir eiga að gera þær ráðstafanir? Það á þá að tvíbaða alt sauðfje — það er heimilt að þrí- eða fjórbaða, og verði enn vart kláða, hver á þá að gera þær ráðstafanir, sem duga?

Þá er ennfr. 8. gr., sem margir álíta það atriði, sem helst væri nýtt í frv., að atvinnumálaráðherra hafi heimild til að fyrirskipa kláðaböðun. En í lögunum frá 1914 stendur, að stjórnin geti fyrirskipað útrýmingarböðun á stærri og minni svæðum. Jeg sje því ekkert nýtt hjer á ferðinni, en hinsvegar er sjálfsagt að taka málið út af dagskrá, til þess að hægt sje að athuga það betur og leiðrjetta villur þess.