26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (2664)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Á þessu stigi málsins sje jeg ekki ástæðu til að segja annað en það, að jeg sje enga ástæðu til að taka málið af dagskrá, þótt fáeinir hv. þdm. sjeu fjarstaddir án allra nauðsynja. (MJ: Heyr!). Jeg sje enga ástæðu til að láta málið gjalda þess, þó ýmsir af háttv. deildarmönnum sjeu fjarstaddir að gamni sínu. Þeir, sem vilja fella frv., eiga að gera það á heiðarlegan hátt með atkv. sínu, en ekki með eilífum undandrætti. Síðast, er málið átti að koma fyrir, var það tekið af dagskrá, og þá var það eindregin ósk okkar, sem að því stöndum, að til skarar yrði látið skríða næsta sinn, er það kæmi fyrir. Þess vegna mótmæli jeg alveg, að það sje enn gert. Jeg vil gefa þeim, sem þannig eru sinnaðir, færi á að drepa nú frv. Ef meiri hl. hv. deildar er þannig skapi farinn, að honum þyki það rjett, er ekkert við því að segja annað en það, að það bæri ljósan vott um skilningsleysi háttv. deildarmanna á máli þessu.

Fleiri aths. hefi jeg ekki að gera á þessu stigi málsins.