30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í C-deild Alþingistíðinda. (2676)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Pjetur Ottesen:

Jeg hafði búist við því, að hv. frsm. stæði upp og talaði um frv. meirihl. landbn., er svo freklega er ráðist á frv. En það má vera, að hann sje dauður og geti því ekki borið hönd fyrir höfuð nefndinni.

Þegar málið var hjer til umr. fyrir skemstu, var margt og misjafnt um frv. sagt. Það var hv. 2.þm. Skagf., er fyrstur fór á stað og gerði harða hríð að því. En það má nú vera, að það hafi verið af kappi og gremju út af því, að hið svo kallaða útrýmingarfrv., sem hann hafði tekið svo miklu ástfóstri við, fjell. Þetta lýsti sjer jafnvel beinlínis í ræðu hans, því að hann úthúðaði þeim ákvæðum þessa frv., sem eru samhljóða ákvæðum hins frv. En vegna þess að nú er svo langt liðið síðan, þá ætla jeg ekki að rifja þetta upp frekar.

Jeg skal þá byrja á því að gera nokkurn samanburð á núverandi löggjöf um sauðfjárbaðanir og þessu frv. Sumir hv. þdm., og þar á meðal hæstv., atvrh. hafa haldið því fram, að þar á væri enginn munur. Þetta nær engri átt, fyrst og fremst af því, að með lögunum um þrifabaðanir, sem sett voru 1914, er eftirlitið falið hreppsnefndum, en með þessu frv. er yfirumsjón þessara mála falin atvinnumálaráðherra. Samkv. 7. gr. laganna frá 1914 gat stjórnin aðeins gripið fram í, ef til kláðaböðunar þyrfti að taka. Svo er og í lögunum gert ráð fyrir, að stjórnarráðið gefi út reglugerð um þrifabaðanir, en mjer vitanlega hefir sú reglugerð aldrei komið fram í dagsljósið.

Það var álitin höfuðtrygging fyrir því, að hægt væri að útrýma kláðanum, að svo vel væri um eftirlitið búið. En þess er ekki síður kostur með þessu frv. að hafa gott eftirlit með því en með frv. um útrýmingarböðun, sem felt var hjer nýlega. Samkv. núgildandi lögum um sauðfjárbaðanir eru menn að vísu skyldaðir til þess að baða alt sitt fje árlega, en ef einhver þrjóskast við að hlýða því, þá hafa hreppsnefndir þó ekkert vald til þess að taka fjeð og láta baða það á kostnað eiganda. Sá, sem eigi fylgir fyrirmælunum um böðun, á aðeins á hættu að greiða 10–100 krónur. En ef við athugum 6. gr. þessa frv., sem hjer liggur fyrir, þá er hreppstjórum með henni gefið vald til þess, að taka fje og láta baða á kostnað eiganda, ef þeir þverskallast við það sjálfir, og má taka kostnaðinn lögtaki. Er því á þessu tvennu geysimikill munur til tryggingar og öryggis, eins og allir geta sjeð.

Það nær því engri átt að tala um, að enginn munur sje á þessu frv. og núgildandi lögum. Einhver af þeim, sem andmæltu frv., hjelt því fram, að samkvæmt gildandi lögum ættu hreppstjórar að hafa eftirlit með böðunum. Það væri embættisskylda þeirra. En það er fjarri því, að slík skylda hvíli á þeim, að þeir standi yfir hverri böðun. Það er aðeins skylda þeirra að skerast í leikinn, ef kært er til þeirra út af vanrækslu með böðun. Afstaða hreppstjóra er því gagnólík samkvæmt núgildandi lögum og þessu frv.

Svo er annar liður þessa máls sá, að takist ekki að ná tilætluðuni árangri með þrifaböðununi — sem jeg hefi þó bestu von uni, að hægt verði að halda kláðanum í skefjum á þennan hátt — þá er stjórnarráðinu gefin heimild til þess, að gera frekari ráðstafanir og fyrirskipanir. Þetta þykir nú hv. þm. Str. ekki einhlítt, og vill endilega, að heimildirnar sjeu orðaðar eins og í útrýmingarfrv. Honum finnast það líklega dálitlar sárabætur fyrir ófarirnar, að fá hjer inn sama orðalag og á hinu frv. var. En með þessu orðalagi er enginn bættari, heldur má segja, að það sje til spillis, og það liggur í því, að samkv. brtt. hans á að slá öllum umbótum á böðunum á frest þangað til 1930 og láta sitja við það sem er, en samkv. frv. er gert ráð fyrir, að þegar á þessu ári verði hafist handa og eftirlitið skerpt. Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir hjer verið að tala um kláðafriðun. En hver er það, sem vill friða kláðann? (TrÞ: Það var hv. 2. þm. N.-M., sem talaði um kláðafriðun. Nú getur hv. þm. Borgf. fylgt honum). Ónei. Með þessu frv. eru gerðar svo góðar og öruggar ráðstafanir til þess að halda kláðanum í skefjum, að jeg er viss um, að til þeirra frekari ráðstafana, sem stjórnin hefir heimild til að grípa til samkv. frv., muni ekki þurfa að taka.

Hv. þm. Str. hefir lýst yfir því, að fái hann ekki þennan fleyg inn í frv., þá ætli hann sjer að vera á móti því. Það er þó ekki á færi hans að hrekja þennan mun á frv. og gildandi lögum, sem jeg nú hefi lýst. Háttv. þm. Str. er vitanlega allsendis ófróður um þessi mál og hefir ekkert vit á þeim. Og það má sýna með dæmi, hvað hv. þm. (TrÞ) ristir djúpt í þessu máli. Hann sagði, að hv. þm. Mýr. (PÞ) hefði komið fram með mjög „rækilegar“ brtt. Það var aðeins út af orðhengilshætti, sem fram kom hjer við 2. umr., að þm. Mýr. flutti þessar brtt. Brtt. eru með öðrum orðum aðeins orðabreytingar. Þetta sýnir, hvað hv. þm. Str. ber mikið skyn á meginatriði málsins.

Hjer á dögunum var líka mikið talað um kláðann í Rangárvallasýslu. Hv. Str. fann ástæðu til þess að gefa upplýsingar um það og sagði, að þar mundu líklega finnast einn eða tveir kláðahrútar, í Holti. Þetta var hið eina, sem hann vissi um kláðann í þeirri sýslu, og hafði hann aflað sjer þessara merkilegu upplýsinga í síma. Þetta sauðfjárbaðanamál var mikið rætt á síðasta búnaðarþingi, og þar lágu fyrir skýrslur um kláðann í hinum ýmsu hjeruðum landsins, og hefði formanni Búnaðarfjelagsins átt að vera vorkunnarlaust að kynnast þeim. Hvað segja svo þessar skýrslur? Þær segja það, að ekki sje aðeins kláði í tveim hrútum í Rangárvallasýslu, heldur í 7 hreppum sýslunnar, á 27 bæjum, í 85 kindum. Með þessu hefi jeg viljað sýna það, að andstaða hv. þm. (TrÞ) gegn frv. er út í loftið og hefir ekki við nein rök að styðjast.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara frekar út í málið að sinni. Jeg vænti þess, að eftir rólega yfirvegun láti menn þær væringar og kapp, sem átt hefir sjer stað, niður falla og geti komist að þeirri niðurstöðu, að hjer sje um stórvægilega endurbót á sauðfjárböðunum að ræða, og það sje of mikill ábyrgðarhluti fyrir þingið að gera hana að engu með því að fella frv.