30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Hákon Kristófersson:

Hv. þm. Borgf. hefir nú að mestu tekið af mjer ómakið og fært fram þau rök með þessu frv., sem ekki hafa verið hrakin.

Hæstv. atvrh. hefir snúist mjög gegn frv., og byrjaði hann mál sitt með því að telja víst, að ekkert yrði úr lagasmíði um þetta efni á þessu þingi. Þetta hefir hæstv. ráðh. alls engin tök á að vita fyrirfram. En ef svo verður, þá ber hann sjálfur ábyrgðina á því, ásamt þeim, sem með honum snúast svo harðvítuglega gegn vilja meiri hl. landbn. Hæstv. ráðh. benti á tilfærslu á eftirlitsstarfinu og sagði, að það væri tekið úr höndum hreppsnefnda, eftir frv., og falið hreppstjórum. En þetta er ekki rjett, því að í frv. er gert ráð fyrir, að hreppstjórar hafi samvinnu við hreppsnefndir, og er þeim því alls ekki slept úr. Það er aðeins yfirstjórnin, sem falin er hreppstjórum. Ennfremur benti hæstv. ráðh. á, að til væri lagaheimild, sem hægt væri að beita gegn þeim, sem ekki intu af hendi skyldu sína til að baða. Getur vel verið, að svo sje, eftir því sem hæstv. ráðh. skýrir þetta. En hvað á að gera gagnvart þeim, sem ekki hafa baðað og yfirleitt ekki baða? Hæstv. ráðh. sagði, að hægt væri að fyrirskipa valdböðun, auk sekta, en hvar á að taka kostnaðinn ? (Atvrh. MG: Hjá þeim seku, auðvitað.) Já, en hann fæst ekki nema með málaferlum. En hjer er hægt að ná honum með hægara móti, eftir frv. okkar. Jeg er annars hissa á, að jafn skýr maður og hæstv. ráðh. (MG) er, skuli halda þessu fram.

Þá benti hæstv. atvrh. á lögin frá 1901 og sagði, að þau væru fallin með þessu frv., en þar koma líka ákvæði í stað ákvæða. Í sambandi við 8. gr. frv. talaði hæstv. ráðh. um blekkingar frá okkar hálfu og sagði, að við vildum koma öllum vandanum yfir á stjórnina. En nú vil jeg spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geti hugsað sjer það í alvöru, að jeg og hv. þm. Borgf. viljum gera nokkuð í þessu máli til að blekkja hann eða gera honum framkvæmdir erfiðar. Nei, jeg veit, að hann meinar þetta ekki. Það er alls ekki meiningin hjá okkur, að slá vandanum yfir á stjórnina, þó að það sje eðlilega gert ráð fyrir því, að hún geti tekið föstum tökum á kláðanum, ef knýjandi nauðsyn ber til. Hæstv. ráðh. benti á, að ef kláðinn magnaðist ár frá ári, þá yrði að fara fram útrýmingarböðun. Það er auðvitað rjett. En eins og hv. 1. þm. Árn. (MT) benti á, þá teljum við meiri líkur til, að til þess þurfi ekki að taka og gerum okkur vonir um, að með okkar aðferð verði komist hjá því. En um þetta viljum við fá reynslu, og þegar hún er fengin, má altaf taka sterkara í taumana, ef annað dugir ekki.

Annars get jeg tekið undir það með hv. 2. þm. N.-M. (AJ), að það mun vera tilgangslaust að karpa um þetta mál. Það mun vera svo um andstæðinga þessa máls, að þeir eigi ómögulegt með að fella sig við frv., einkum eftir það óvenjulega kapp, sem kom í menn við umr. um útrýmingarfrv. það, sem felt var hjer í deildinni. Jeg slæ því föstu, að ástæður þær, sem hv. þm. Borgf. og aðrir hafa flutt fyrir okkar máli, eru enn óhraktar. Jeg held, að það sje ekki mikil einlægni hjá mönnum með að útrýma kláðanum, ef þeir fella nú þetta frv. En það getur tímans vegna komist fram, ef ekki er brugðið fæti fyrir það. Jeg er ósamþykkur till. hv. 2. þm. N.-M. um að vísa þessu máli til stjórnarinnar. Slík till. á ekki að samþykkjast hjer; hún er ekkert annað en áframhald af þeim óhug, sem menn bera til þessa frv. Viðvíkjandi brtt. hv. þm. Str., þá sagði hann, að þær væru til þess að ákveða nánar 8. gr. Jeg sje ekki, að þar sje nú mikill munur á, nema í 8. gr. frv. er ekkert miðað við árið 1930. Jeg skil nú ekki í öðru en það verði nóg hátíðahöld það ár, þótt allsherjar útrýmingarkláðaböðun verði ekki skelt þar ofan á. Okkur hefir aldrei dottið í hug að taka fram fyrir hendur núverandi stjórnar. Við treystum auðvitað núverandi hæstv. stjórn til þess að hlaupa ekki á hundavaði í þessu máli og gera engar ráðstafanir án brýnnar nauðsynjar. Ef till. okkar reynast illa. Þá mun hún nota heimild þá, sem í frv. felst. — Jeg skal ekki mikið fara inn á brtt. þær, sem fyrir liggja; nefndin hefir ekki átt kost á því, að ræða þær á sameiginlegum fundi.

Mjer hefir skotist yfir eitt atriði í brtt. hv. þm. Str., sem sje það, að böðunin skuli ákveðin í samráði við Búnaðarfjelag Íslands og að heyafli bænda sje þá í góðu lagi. En jeg veit nú ekki, hvernig skýrslur um heyafla bænda um land alt geta verið komnar til Búnaðarfjelagsins fyr en eftir þann tíma, að böðunin ætti að fara fram. Ekki get jeg heldur gert mikið úr því, að byggja á umsögn Búnaðarfjelags Íslands, svo hrapallega sem núverandi formaður þess (TrÞ) hefir komið fram í þessu máli. Jeg vona nú, að hv. þm. Str. geti verið mjer sammála um það, að aðalkjarni tillagna hans felist í sjálfu frv., og er því hreinn óþarfi að samþykkja þær.

Jeg get nú látið sitja við það, sem jeg hefi sagt um þetta mál. Það er nú í 12. sinn, sem það er hjer til umr. Það sýnir rjetta mynd af því, að andstæðingarnir hafa hvað eftir annað reynt að ýta frá rjettu máli. — Jeg vil að endingu mælast til þess við hæstv. forseta, að hann láti viðhafa nafnakall um málið. Þá geta bændur landsins gert það upp við sig, hvorir eru betur sinnaðir í þessu máli, jeg og þeir, sem voru sömu skoðunar og jeg, eða hv. þm. Str. En á hann hefi jeg hvað eftir annað sannað, að hann skorti velvild eða skilning á þessu máli, að jeg ekki segi hvorttveggja.