30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í C-deild Alþingistíðinda. (2682)

94. mál, sauðfjárbaðanir

Tryggvi Þórhallsson:

Það er aðeins stutt athugasemd. — Jeg hefi ekki ástæðu til þess að svara þeim orðum, sem til mín hefir verið beint frá hv. þm. Borgf. og hv. frsm. meiri hl. (HK). Jeg er orðinn svo mörgu vanur, að jeg mun ekki fjargviðrast út af því. Það eru aðeins nokkur orð út af atkvgr. Brtt. hv. þm. Mýr. (PÞ) á þskj. 448 eru orðaðar eins og brtt. við mínar brtt., ættu því, formsins vegna, að berast fyr upp. En samkvæmt eðli málsins ættu mínar brtt. að berast fyr upp, því að þær fara lengra í því, að kveða á um útrýmingarböðun. Jeg mundi nú samþ. brtt. hv. þm. Mýr., ef mínar brtt. væru feldar, en ef þær verða bornar fyr upp, þá mun jeg greiða atkvæði á móti þeim. Jeg vil því skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vilji ekki bera mínar brtt. fyr upp.

Jeg get tekið undir með hæstv. atvrh. og hv. 2. þm. N.-M., að málinu muni nú þannig komið, að það nær ekki fram að ganga. Er leitt til þess að vita, að Alþingi Íslendinga skuli ekki hafa manndóm í sjer til þess að gera ráðstafanir til þess að reyna a. m. k. að útrýma fjárkláðanum. En það verður að segja sannleikann eins og hann er, að orsökin til þess, að þetta mál á svo erfitt uppdráttar nú, er ekkert annað en kjósendahræðsla, af því að kosningar standa nú fyrir dyrum. En jeg vona, að betur takist á næsta þingi að þvo þennan smánarblett af íslenskum landbúnaði.