02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í C-deild Alþingistíðinda. (2696)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mjer virðist einsætt, vegna þess, hve áliðið er þingtímans, að mál þetta geti tæplega gengið fram á þessu þingi. Jeg geng út frá því, að hin rökstudda dagskrá landbn. verði samþykt, og þess vegna sje jeg ekki ástæðu til þess að fara mikið út í málið eins og sakir standa. En jeg verð að segja nokkur orð út af ummælum hv. frsm. nefndarinnar, þar sem hann ásakaði stjórnina fyrir það, að hún hefði verið sein í svifum að gera varnarráðstafanir út af gin- og klaufaveikinni á síðastliðnu hausti. Það var þingið í fyrra, sem bjó málið þannig í hendur stjórnarinnar, að henni var skylt að hafa dýralækni með í ráðum eða fara eftir ráðum hans. Sökin, ef sök skal kalla, er því hjá þinginu, en ekki hjá stjórninni. Annars var það rjett hjá hv. frsm. (ÁJ), að jeg ljet þess getið við nefndina, að hættan á því, að veikin berist hingað, muni ekki vera eins mikil og margir hyggja, og sú er reynsla undanfarandi ára. Á þeim árum hefir veikin geisað afskaplega í Danmörku, en þrátt fyrir það, að engar varnir hafa verið hjer á landi, hefir hún þó ekki borist hingað. Nú sem stendur gætir veikinnar varla í Danmörku, og í Noregi hefir ekki borið á henni í nokkra mánuði.

Það er nú verið að rannsaka það erlendis, af hverju veikin komi, og nýjustu bendingarnar um það eru í þá átt, að hún sje sjerstakur fóðrunarsjúkdómur og leggist á þá nautgripi, sem fóðraðir eru á öðru meira en heyi. Reynslan í Svíþjóð er sú, að veikin er aðallega í sunnanverðu landinu, þar sem fóðrun er líkt háttað og í Danmörku, en norður í landið hefir hún lítið borist. Eins er það í Noregi; þar hefir hún heldur eigi borist norður í landið, en það er nú ef til vill ekki vel að marka, því að hún var þegar í upphafi tekin svo föstum tökum þar. Í Svíþjóð hefir veikin geisað í mörg ár, en þó ekki borist norður þangað, sem kýr eru mestmegnis fóðraðar á heyi, eins og áður er sagt.

Jeg skal ekki fullyrða neitt um það, hvort skoðun þessi sje rjett. En það er sjálfsagt af okkur að gera alt sem við getum til þess að varna því, að veikin berist hingað. Stjórnin gat ekki gengið lengra í því efni heldur en hún gerði á síðastliðnu hausti, og það getur jafnvel verið vafamál, hvort eftirlit og rannsókn á mönnum hafi stoð í lögum. Þó treysti jeg mjer til þess að forsvara fyrirskipanir stjórnarinnar, samkvæmt lögunum frá 1920, um eftirlit með útlendingum, en lengra er ekki hægt að ganga. Þinginu í fyrra yfirsást, þar sem það gerði engar varúðarráðstafanir gegn ferðamönnum. En þá er það hart, að ætla að skella sökinni fyrir það á stjórnina.

Að öðru leyti en þessu mun jeg ekki taka þátt í umr. um málið, vegna þess að jeg þarf að vera við umr. í hv. Ed.