02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í C-deild Alþingistíðinda. (2700)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Árni Jónsson):

* Jeg vil aðeins svara hæstv. atvrh. (MG) því, að nefndin hefir ekkert talað um það, hvað hæstv. stjórn hefir látið ógert eða gert fram að þessu. En nefndin er ekki ánægð með svör hæstv. atvrh. nú. Jeg lagði fyrir hann tvær spurningar, og hefir hann svarað annari, en ekki hinni. Jeg spurði, hvort hann teldi, að hann bæti bannað innflutning á vörum samkv. lögunum frá því í fyrra, en hann sagðist ekki álíta sig geta það, nema dýralæknir vildi. En nefndin hefir skilið þetta svo, að atvrh. ætti að ráðfæra sig við dýralækni um þetta, en ekki að dýralæknir ætti að vera nokkurskonar yfirráðherra í þessu efni, enda ekki rjett að tefla slíku máli í hendur manns, sem ekki á að bera ábyrgðina á afdrifum þess. Hjer í þessu máli á ekki við að segja, að menn sjeu ekki hræddir. Og þó ekki hafi komið mótmæli gegn skilningi hæstv. atvrh. (MG) á lögunum frá í fyrra, þá sannar það ekkert, vegna þess að málið horfði öðruvísi við þá. Síðan hefir t. d. það borið við, að veikin barst til Noregs, og meðan ekki er fullvíst að veikinni sje útrýmt þar, þá verður að skoða Noreg sem sýktan. Og þaðan stafar aðalhættan.

Viðvíkjandi mannflutningum frá útlöndum svaraði hæstv. ráðh. (MG) engu. Er það þó mikilsvert atriði, hvort ráðherra telur sig hafa heimild til þess, samkvæmt lögunum í fyrra, að gera strangar ráðstafanir gagnvart þeim.

Þar eð undirtektir hæstv. stjórnar eru ekki ákveðnari, þá hefir nefndin komið sjer saman um að taka málið til nýrrar athugunar og æskir þess, að hæstv. forseti taki það út af dagskrá.

*Ræðuhandr. ólesið af þm.