04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (2709)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Árni Jónsson):

Eins og jeg gat um við 2. umr., þá leit nefndin svo á, að í lögum nr. 22, 15. júní 1926, fælist næg heimild fyrir stjórnina til þess að gera þær ráðstafanir, sem farið er fram á, að gerðar sjeu með frv. þessu. Með þetta fyrir augum hafði nefndin lagt til, að máli þessu væri vísað til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá. Nú hefir hæstv. stjórn lýst yfir því, að hún telji sig ekki hafa þá heimild, og með því er fallinn grundvöllurinn undan þeirri afgreiðslu, og mælir því nefndin með því, að frv. verði samþykt með litlum breytingum. Nefndin hefir lagt til, að orðin „með ráði dýralæknisins í Reykjavík“, í 1. og 3. gr. falli niður. Hún hefir ekki getað felt sig við skilning hæstv. stjórnar á þessu atriði. Nefndin lítur svo á, að þetta þýði ekki annað en „ í samráði við“. En þó nefndin vilji fella þetta niður, þá er það engan veginn svo, að hún vilji ganga fram hjá dýralækninum. Hún lítur svo á, að dýralæknirinn eigi að vera ráðunautur stjórnarinnar, en hann á ekki að vera einráður. Stjórnin á ekki að geta skotið sjer að baki neinum í þessu máli. Hin brtt. er um það, að flytja megi inn ull til verksmiðja, undir öruggu eftirliti. Er þetta gert vegna þess, að nefndinni er kunnugt um, að ullarverksmiðjurnar þurfa á erlendri ull að halda til þess að geta unnið suma dúka.