03.03.1927
Efri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

5. mál, iðja og iðnaður

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Þær brtt., sem allshn. hefir leyft sjer að bera fram við frv. þetta, eru flestar aðeins lagfæringar á máli, og þarf því lítið um þær að segja.

Þó eru það tvær brtt., sem segja má um, að geri efnisbreytingar. Það er 3. brtt. undir staflið b, og er við 6. gr., þar sem tekið er fram, með hvaða skilyrði erfingi yngri en 16 ára megi reka áfram iðju. Nefndinni þótti rjett að samræma þetta við aðra löggjöf, því að ákvæði sama eðlis er í lögunum um verslunaratvinnu, og því rjett, að því sje beitt svipað við iðjurekstur.

Hin brtt. er sú 6. í röðinni og er við 23. gr. í frv. er svo fyrir mælt, að ráðherra sje heimilt að færa niður eða fella með öllu niður gjald það, sem ákveðið er að greiða ríkissjóði fyrir leyfisbrjefið. Þetta þótti nefndinni of langt gengið og vildi ekki fallast á, að gjaldið fjelli með öllu niður, en hinsvegar mætti gefa eftir helming þess, ef þörf væri á því. Mig minnir líka, að þetta sama ákvæði væri í frv. um verslunaratvinnu 1925, er það fór hjeðan úr deildinni, en mun hafa verið felt úr því í háttv. Nd.

Þá má vel vera, að heimild ráðherra um að fella gjaldið niður með öllu sje sjaldan notuð. En hitt sýnist líka, að ekki sje fyrir miklu að gangast hjá þeim, er kaupa vilja iðjuleyfi eða iðnaðar, ef þeir geta ekki goldið sem svarar helmingi þess gjalds, sem frv. fer fram á.

Aðrar breytingar nefndarinnar þurfa engrar skýringar við. Það eru aðeins orðabreytingar, eins og jeg hefi tekið fram, en breyta ekki efni frv. í neinu.

Annars felst nefndin á, að tímabært sje, að settar sjeu reglur um handiðnarmenn og iðnaðarrekstur. Það er líka gert ráð fyrir því í niðurlagi frv., að þeir menn, sem handiðn stunda eða iðju reka 1. jan. 1928, haldi rjetti þeim óskertum, er þeir háfa samkv. eldri lögum. Frv. er líka í samræmi við lög þau um verslunaratvinnu, sem samþykt voru í fyrra. Vænti jeg því, að hv. deild geti fallist á brtt. nefndarinnar og frv. þannig breytt gangi áfram til 3. umr.