04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (2711)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Árni Jónsson):

Mjer hefir oft virst hv. 1. þm. Reykv. (JakM) vera skeleggari í röksemdafærslu sinni en nú. Hann ræðst á landbn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Jeg skal að vísu játa það, að nefndin hafði ekki mikinn tíma til athugunar, eftir að aðstaða stjórnarinnar reyndist að vera þvert ofan í það, sem nefndin hafði gert sjer í hugarlund. En þó lagði nefndin til, að samþ. frv., vegna þess að hún gat ekki sjeð, að betra öryggi næðist með öðru móti. Hv. þm. (JakM) mintist á, að veikin hefði enn ekki borist hingað frá Danmörku. Það má segja líkt um Noreg. Lengi vel kom veikin ekki þangað, en einn góðan veðurdag var hún komin, áður en menn vissu af. Við sjáum af því, að engin sönnun er fyrir því, að veikin geti ekki borist, þó hún hafi ekki gert það hingað til, og er því betra að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í. — Þá sló háttv. þm. því föstu, að veikin væri landlæg, ef hún kæmist inn í landið. Jeg held, sem betur fer, að þetta sje misskilningur, og jeg man ekki betur en að hæstv. atvrh. upplýsti, að Norðmenn þættust búnir að vinna bug á veikinni hjá sjer. Þá sneri hv. 1. þm. Reykv. sjer að því, að gera athugasemdir við einstök atriði frv. Jeg get fúslega játað, að jeg er ekki viss um, að banna þurfi innflutning á öllu því, sem talið er í frv., þótt jeg álíti þörf á sem öruggustum umbúnaði. Innflutning fugla er vitanlega sjálfsagt að banna. En jeg skil ekki, hvernig hv. þm. (JakM) dettur í hug sú hártogun, að segja, að frv. banni innflutning farfugla. Hjer er vitanlega aðeins um að ræða alifugla, og er einsætt að banna innflutning á þeim, ekki aðeins vegna þessa sjúkdóms, heldur jafnframt margra annara. Að vísu er það álit manna, að gin- og klaufaveiki hafi borist til Noregs með krákum, og ekki er óhugsandi með öllu, að einhverjir farfuglar gætu komið með veikina hingað. En vitanlega er alrangt að álykta út frá því, að veikin geti ekki borist með alifuglum. — Af sama toga og talið um farfuglana er einnig spunninn útúrsnúningur hv. þm. út af notuðum fatnaði. Um menn, sem koma frá útlöndum, eru alveg sjerstök ákvæði í 4. gr. frv., og á hinum staðnum er vitanlega átt við notaðan fatnað sem verslunarvöru. Það er alveg ástæðulaus uggur hjá hv. þm., að búast við, að menn verði að fara klæðlausir um borð í farþegaskipin og vekja þar með hneyksli í útlendum hafnarbæjum. — Mjer þykir leitt að heyra andstæðinga þessa máls sífelt vera að hamra því inn í meðvitund manna, að reynslan hafi sýnt, að ekki þurfi hjer á landi sterkar sóttvarnir gegn gin- og klaufaveiki. Þetta kom hvað eftir annað fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv. En hefðu krákurnar borið þessa veiki á einhvern annan stað í Noregi en þær gerðu, t. d. einhversstaðar nálægt Bergen, er jeg hræddur um, að reynslan hefði máske sannfært okkur um eitthvað annað en það, að við mættum sofa í ró. — Það má vera, að rjett sje, að landbn. hafi ekki haft færi á að athuga þetta mál svo sem skyldi. En hún hefir athugað það með skilningi, og það er meira en sagt verður um hv. 1. þm. Reykv. Hann hefir sýnilega vantað annaðhvort vilja eða getu til að skilja nauðsyn þessa máls. Vil jeg heldur álíta, að viljann hafi vantað, því að enginn hefir frýjað þessum hv. þm. vits.