04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Jakob Möller; Jeg held, að hv. frsm. (ÁJ) hafi misskilið mig. Jeg var ekki sjerstaklega að finna að því, þótt frv. banni innflutning á farfuglum, sem það óneitanlega gerir, heldur var jeg að benda á, hve mikið fálm þetta alt væri. Mjer datt ekki í hug, að hægt væri að koma lögum yfir aðra fugla en alifugla, en hitt benti jeg á, að það væri álit fróðra manna, að sóttkveikjan gæti borist með farfuglum, engu síður en alifuglum, og væru sumir þeirra sjerstaklega hættulegir í því efni. Því tel jeg lítið gagn að því, að banna innflutning á sumu, sem veikin getur borist með, þegar gerómögulegt er að ná til nærri alls. Eins er um fatnaðinn. Ráðstafanir 4. gr. eru ákaflega þýðingarlitlar. Jeg veit ekki, hve mikið flutt er inn frá útlöndum af notuðum fatnaði sem verslunarvöru, en það getur ekki verið mikið. En menn, sem koma frá útlöndum, geta verið í notuðum fötum, sem þeir hafa keypt þar hjá skransala og vita ekkert hvaðan eru komin. Sýkin gæti vel borist með slíkum fötum, án þess að sá, sem í þeim væri, hefði nokkuru sinni komið í hjerað með gin- og klaufaveiki. Jeg geri líka ráð fyrir, að eftirlitið yrði slælegt á ýmsum höfnum úti um land, þar sem svo er ástatt sem hv. þm. Ísf. (SigurjJ) gat um, og raunar víðar. Hvað halda menn t. d. um Siglufjörð? Halda menn, að gott verði að hafa eftirlit með öllum þeim, er þar koma á sumrin frá útlöndum? Og ef menn þurfa að óttast, að þeir verði settir í sóttkví langan tíma, ef þeir koma úr sýktu hjeraði, ætli þá verði ekki lítið leggjandi upp úr yfirlýsingum þeirra? — Í stuttu máli, þá álít jeg, að frv. sje fyrst og fremst alveg þýðingarlaust, en leggi hinsvegar óþarfar hömlur á viðskifti manna í ýmsum greinum og geti á engan hátt náð tilgangi sínum.