04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í C-deild Alþingistíðinda. (2716)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hlýt að láta í ljós mikla undrun á sumu af því, sem hjer hefir verið sagt, einkum af hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ). þeir reyna nú að láta líta svo út sem þeir sjeu á móti frv., vegna einstakra formsatriða. Nú er komið á annan mánuð síðan frv. var borið fram, svo að þeim var vorkunnarlaust að koma með brtt. um þessi atriði, ef þeir vildu ekki eiga það undir hv. Ed. að lagfæra þessa galla. Þeir máttu frá upphafi vita, að þessu máli yrði fylgt með kappi, því að hjer er um að ræða þá alverstu plágu, sem landbúnaður Íslendinga getur fengið í náinni framtíð. Þess vegna ber bændafulltrúunum skylda til að vera vakandi. Enda hafa komið til Alþingis fleiri áskoranir en dæmi eru til, um að neyta allra bragða til að vernda landið fyrir þessari veiki. Og það er áreiðanlega betra að halda eitt ár uppi óþarflega ströngum heldur en of linum vörnum í þessu efni. Það er ekki heldur vegna einstakra atriða þessa frv., að þessir hv. þm. eru því andvígir, heldur sakir þess, að þeir sjá, að það veldur sumum kjósendum þeirra nokkurra óþæginda. Jeg álít ekki hundrað í hættunni, þó að löggjöf sje ströng um þetta efni til næsta þings, og legg því afarmikla áherslu á, að þingið fylgi hjer fast á eftir og sýni fullan skilning á, hve hjer sje um stórt og alvöruþrungið mál að ræða.