04.05.1927
Neðri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í C-deild Alþingistíðinda. (2718)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. frsm. fanst jeg lesa dagskrártill. landbn. á þskj. 415, eins og sagt er um kölska, að hann lesi biblíuna. (ÁJ: Ekki sagði jeg það.) Ekki kanske berum orðum, en þetta var meiningin. Jeg skal nú, með leyfi hæstv. forseta, lofa hv. frsm. að heyra, hvernig jeg les hana:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin geri allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sporna við því, að gin- og klaufaveikin eða aðrir alidýrasjúkdómar berist hjer til landsins og undirbúi fyrir næsta þing lög, sem bygð sjeu á reynslu og löggjöf annara þjóða í þessum efnum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta skildi jeg í einfeldni minni þannig, að stjórnin ætti að gera alt, sem hægt væri, til þess að sporna við því, að veikin bærist hingað. Þess vegna gat jeg ekki skilið, hvers vegna skorað er á stjórnina í síðari lið till. að undirbúa löggjöf, neina búist væri við, að um eitthvað betra væri að ræða en stjórnin hefði gert.

Jeg fyrir mitt leyti taldi mjer skylt að fylgja fyrri lið till. til þess ítrasta, og finst því ástæðulaust að vita stjórnina fyrir það eitt, að hún telur sjer ekki fært að fara lengra eftir gildandi löggjöf en hún hefir þegar gert með ráðstöfunum sínum.

Annars vil jeg spyrja hv. frsm., hvað meint sje með þessu orðalagi í 2. gr. ,,að veikin gangi eða sje orðin landlæg.“ Sjerstaklega spyr jeg um þetta að því er Noreg snertir. Þar kom veikin upp í vetur, en hefir ekki borið á henni um tíma. Á að skoða allan Noreg sýktan, eða að veikin sje orðin þar landlæg, þó að vitanlegt sje, að hún hafi gert um tíma allmikið tjón á tiltölulega litlu svæði, en ekkert orðið vart við hana upp á síðkastið?

Hv. frsm. hafði eftir mjer, að jeg hefði sagt, að sáralítið öryggi væri, þó að hafa þyrfti ráð dýralæknis í þessu efni. En þetta sagði jeg ekki. Enda treysti jeg dýralækni betur en háttv. frsm. til þess að segja um, hvaða vörur muni hættulegastar og flytja með sjer sóttkveikjuna.

Hv. frsm. sagði, að stjórnin hefði í þingbyrjun átt að koma með frv., sem heimilaði henni víðtækari ráðstafanir, t. d. um innflutning manna. Jeg sje ekki betur en að þetta frv. sje líkt að efni og auglýsing sú, er stjórnin gaf út á milli þinga. Reglugerðina er hægt að forsvara. Hún hefir stoð í lögum, og meira þurfti ekki.

Annars skilst mjer á hv. frsm. og hv. þm. Str., að þeir búist við, að frv. verði að einhverju leyti breytt í hv. Ed. En sje þetta vitanlegt, vildi jeg skjóta því til þeirra, hvort þeir mundu ekki sjá sjer fært að ganga svo frá frv. hjer, að hv. Ed. gæti fallist á það. Að hrekja það milli deilda, gæti orðið til þess, að frv. komist ekki fram á þessu þingi.